Eftirfarandi texti Hafliða Hallgrímssonar er lesinn milli þátta "Seven Epigrams"

Skáld eru oftast í háska stödd sama hvar þau lifa, vegna þess að þau sækjast eftir uppfyllingu á yfirskilvitlegum athafnasvæðum.

 Draumur skáldsins um upphafna og fullkomna veröld reynist oft óbærileg refsing og þjáning.

Ólíkt því sem tíðkaðist í hinum vestræna heimi, voru rússnesk skáld, rithöfundar, tónskáld og listamenn almennt, sem uppi voru á Stalíntímabilinu, mikilsmetnir áhrifavaldar og um leið þyrnar í síðu einvaldsins mikla, Jósefs Stalíns.

Spökurnar sjö sem hér verða fluttar eru einskonar hylling nokkurra skálda, eins rithöfundar og tónskálds, sem ég hef lengi dáð vegna þess, að öll héldu þau fast við upphafna og afar skáldlega heimssýn sem fyrirlitin var af Stalín, og þeim hörundsþykku böðlum, sem hann safnaði í kringum sig og murkuðu smátt og smátt lífið úr þessum listrænu sálum.

 Hugrekki þeirra, sem ég heiðra hér, er ævarandi áminning um þau sannindi að „sannleikurinn lifir“ og að „upp komast svik um síðir“.

 I) Languorous Window Stands White. (Homage to Boris Pasternak)

 Í rökkvuðum polli speglast rafgult ljósið frá glugga skáldins, þar sem
hann hripar niður síðasta erindið úr ljóðinu LÍKHÚSMYRKUR:

Enn á ný, seinvirk
bljúg og í hljóði,
undirbýr jörðin
kraftaverk.

Tónlist flutt.

 II) Flight. (Homage to Osip Mandelshtam)

„Það var svo sannarlega óvart að uppúr mér hrökk orðið GUÐ, og risastór
fugl flaug frá brjósti mínu og milli handa minna útí dökka móðuna.
Fyrir aftan mig stendur búrið autt.“

 Tónlist flutt.

 III) The Captive Spirit. (Homage to Marina Tsvetayeva)

 Einn af elskhugum Marinu - ljóðskáldið Andrey Bely - tileinkaði henni
þetta ljóð skömmu áður en hann dó:

Óteljandi
eru sporbaugar silfraðrar sorgar
þar sem innantómar hugsanir
sveima eins og ský.
Umkringdur þeim
syng ég sætlega vísu
um óumræðilegar lendur
þinnar myndar.
Bænir þínar
eru fagurrauð lög
og hljóðfall þitt
ósigrandi.

Tónlist flutt.

 IV) Responsorium. (Homage to Nadezhda Mandelshtam)

 Nadezhda Mandelshtam var ekkja stórskáldsins Osips Mandelshtams, og vissi
aldrei hver örlög manns hennar urðu í útlegð hans í Síberíu.

„Sífellt á flótta, og sífellt í felum, legg ég á minnið öll þín ljóð,
áður en ég granda þeim, svo útsendarar fjallagarpsins sem klífur múrana
í Kreml, fái þau ekki í hendur.
Þeir brjótast inn, leita dyrum og dyngjum að sönnunargögnum
um snilld þína, sem þeir hata, án þess að vita af hverju.
Ég varðveiti ljóð þín í hjarta mínu og minni, eins og nið tímans.“

Tónlist flutt.

 V) Night Train. (Homage to Dmitri Shostakovich)

 Í gamalli svart-hvítri heimildakvikmynd um tónskáldið Dmitri Shostakovich
sést hann sitja einn og yfirgefinn í klefa í næturlestinni Moskva - Leningrad.
Lestin skröltir áfram á miklum hraða, og regnið bylur á gluggunum,
streymir niður í taumum eins og glært blóð.
Hann situr með krosslagða fætur keðjureykjandi og fullur örvæntingar.
Frumlutningur fimmtu sinfóníu hans í Leníngrad næstu daga mun ákveða
örlög hans.

Tónlist flutt.

VI) Mystical Navigation (Homage to Anna Akhmatova)

 Stalín kallaði hana sambland af hóru og nunnu, þessa glæsilegu og
fallegu konu. Rétt er, að hún átti marga elskhuga. Hún lagði líf sitt í
hættu hvað eftir annað fyrir málstað hins „listræna“ sannleika eins og
hún skynjaði hann.
Hún er allmennt talin eitt merkasta skáld Rússa á síðustu öld.
Þrátt fyrir hræðilega meðferð, fangelsun eiginmanns í tvígang, svo og
sonar, sigldi hún dularfulla siglingu „milli skers og báru“ allt sitt
líf, líkt og leiðbeint væri af dularfullri stjörnu. Hún skrifaði í einu
af ljóðum sínum:

„Og sálir þeirra sem ég elska, lifa á fjarlægum stjörnum.“

 Tónlist flutt.

VII) And A Man Left His House. (Homage to Daniil Kharms)

Daniil Kharms hvarf einn góðan veðurdag klæddur í slopp og á inniskóm.
Hann hafði verið boðaður niður á jarðhæð af húsverðinum „til að ræða
aðeins við tvo menn,“ eins og húsvörðurinn orðaði það. Kharms var tekinn
fastur á staðnum, troðið inní svarta gljándi bifreið sem ók skyndilega á
braut.
Daniil Kharms sást aldrei meir. Hann dó skömmu seinna úr hungri
á fangelsisspítala í Leningrad.
Kharms samdi ljóð um mann sem fór að heiman og hljóðar svo í frjálslegri endursögn:

Það var eitt sinn maður sem fór að heiman. Hann tók poka sinn og staf, hélt af stað og leit aldrei um öxl.
Hann gekk beint af augum, linnulaust, svaf ekki, drakk ekki né borðaði. Loks kom hann að dimmum skógi,
gekk ákveðnum skrefum inn í hann og hvarf.
Ef svo bæri við að þið sæuð þennan mann bið ég ykkur þess lengstra orða að láta mig vita án tafar.

 Tónlist flutt.