Um efnisskrána:
Ludwig van Beethoven (1770-1827) samdi alls 5 sellósónötur. Þær fyrstu, sónöturnar op. 5 nr. 1 og 2 (1796), voru samdar á fyrsta tímabili tónsmíða Beethovens. Þær mörkuðu nokkur tímamót þar sem þær eru líkast til ein fyrstu verkin í þessu formi sem þekkt eru. Enda höfðu fyrirmyndir Beethovens, þeir Haydn og Mozart hvorugur samið slík verk og reyndar lítið sinnt sellóinu sem einleikshljóðfæri, ef undanskildir eru tveir sellókonsertar Haydns. Því ber kannski að líta svo á að sellóið hafi með þessum fyrstu sónötum Beethovens loksins ýtt gömbunni til hliðar og skapað sér sess. Þriðja sónatan op. 69, sem hér er flutt í kvöld, var samin árið 1808 og telst því til miðskeiðs tónskáldsins og þær tvær síðustu op. 102 frá 1815 teljast til lokaskeiðs Beethovens. Sellósónöturnar spanna því mikinn hluta ferils tónskáldsins og gefa góða mynd af þroskaferli Beethovens.
A-dúr sónatan op. 69 er sennilega sú sónatanna sem oftast er flutt. Og ekki að ástæðulausu, enda glæsilegt verk. Þrátt fyrir athugasemd sem Beethoven skrifaði á eitt afrit verksins, “Inter lacrimas et luctus” (“milli tára og sorgar”) þá verður hér lítið vart við sorg og trega. Verkið einkennist fremur af fjölda syngjandi, ljóðrænna laglína og á því nokkuð skylt við fiðlukonsertinn og 6. sinfóníuna sem urðu til um svipað leyti. A-dúr sónatan er sú eina sellósónatnanna sem inniheldur scherzo-kafla, sem er sérstaklega áhugaverður vegna áhersluflutningsins (sýnkópanna) sem einkennir hann.
Klarínettutríó Johannesar Brahms (1833-1897) er eitt fjögurra einleiksverka tónskáldsins fyrir klarínettu, en þau eru klarínettukvintettinn og klarínettutríóið (1891) og klarínettu-/víólusónöturnar tvær (1894). Þessi verk eru öll máluð í haustlitunum, ef svo má að orði komast, enda á einleikshljóðfærið auðvelt með að tjá slík litbrigði. Verkin voru öll tileinkuð klarínettuleikaranum Richard Mühlfeld og samin undir lok ferils tónskáldsins. Tríóið var frumflutt af Brahms við píanóið, fyrrnefndum Mühlfeld á klarínettu og Robert Haussmann á selló í desember 1891. Þrátt fyrir að ýmislegt bendi til þess að Brahms hafi þótt mest til tríósins koma af þessum verkum sínum fyrir klarínettu þá heyrist það sjaldnar en hin verkin. Hljómaveröld þesss er ljóðræn og rómantísk en heildaryfirbragðið frekar dökkt og innhverft. Menn hafa leitt að því líkum að upphafsstef verksins hafi átt að vera aðalstef fyrsta kafla fimmtu sinfóníu Brahms sem aldrei leit dagsins ljós. Annar kaflinn er hægur og íhugull og sá þriðji hæglátt scherzo með tríókafla í Ländler-stíl. Lokakaflinn er knappur og hnitmiðaður endapunktur á glæsilegu verki.
Dmitri Shostakovich (1906-1975) samdi Sellósónötuna op. 40 árið 1934, eða um sama leyti og óperan Lafði Macbeth og 4. sinfónían, skömmu áður en Shostakovich var ásakaður um að skrifa “formalíska tónlist”. Tónmál sellósónötunnar er býsna ólíkt tónmáli margra þeirra verka sem Shostakovich samdi um þetta leyti. Hún er nánast rómantísk og hefðbundin í anda – auðvitað ber hún mörg merki skapara síns en vel má segja að hún sé nokkuð “gamaldags”. Fyrsti kaflinn er í hefðbundnu sónötuformi og kaflanna viðamestur, næstum jafn langur og hinir þrír samtals. Annar kaflinn er algjör andstæða þess fyrsta. Þetta er dansandi scherzo-kafli þar sem sellóleikarinn þarf að sýna mikla leikni með því að renna sér milli tóna á tveimur strengjum. Hægi kaflinn er ljóðrænn og rithátturinn gegnsær. Lokakaflinn er fjörugt rondó sem sver sig í ætt við glaðværa lokakaflana í píanó-konsertunum tveimur. Aðalstefið er kímin laglína í marstakti og í þessum skemmtilega lokakafla er húmorinn allsráðandi. Meðal annars fær píanistinn tækifæri til að spila mikla tónstiga sem menn hafa viljað túlka sem minningabrot tónskáldsins frá námsárunum í tónlistarskólanum í Leningrad.
Valdemar Pálsson