Um efnisskrána

Strengjakvartettinn í Es-dúr op. 74 (1809) er sá fjórði í röð þeirra fimm strengjakvartetta Ludwigs van Beethoven sem kallaðir hafa verið „mið-kvartettarnir“, samdir á árunum 1806 – 1810. Hinir eru Rasumovsky-kvartettarnir þrír op. 59 og strengjakvartettinn op. 95 sem er sá síðasti þeirra. Beethoven átti síðan eftir að taka sér langt hlé frá þessu tónlistarformi, eða allt til ársins 1825 þegar kvartettinn op. 127 leit dagsins ljós.

Es-dúr kvartettinn op. 74 er saminn um svipað leyti og Keisarakonsertinn, Píanósónatan op. 81a (Les adieux) og Píanótríóið op. 70 nr. 2, en öll þessi verk eru í Es-dúr. Verkið hefur hlotið viðurnefnið „Hörpukvartettinn“ eftir pizzicato-stefi fyrsta kafla sem hljóðfæraleikararnir leika á víxl. Annar kafli er ljóðrænn og einfaldur cantabile-kafli en þriðji kaflinn er dæmigert scherzo þar sem hið alþekkta hrynmynstur fimmtu sinnfóníunnar („örlagastefið“) er áberandi. Lokakaflinn, sem er leikinn í beinu framhaldi af þriðja kafla, er byggður á afar einföldu stefi sem Beethoven spinnur sex tilbrigði við. Sérstaklega eftirtektarvert er sjötta tilbrigðið sem gæti hæglega hafa komið úr penna Brahms, svo ótrúlegt sem það kann að hljóma!

Valdemar Pálsson (jan. 2006)

 

Andstæður/Contrasts: Verkið var samið fyrir Strokkvartettinn Sigga sumar og haust 2023. Verkið samanstendur af þremur þáttum (eða stykkjum) sem flétta saman andstæðum í áferð, hljómi og yfirbragði. Meginhugmyndin var að tefla fram þessari ákveðnu einföldu samfléttingu á andstæðu efni í einskonar póstmódernískri könnunarferð. Hver þáttur getur staðið sjálfstætt sem lítið stykki ef þess er óskað, en ákjósanlegast er að flytja alla heildina í þeirri röð sem hér er gefin. Verkið fékk mikilvægan styrk frá Tónskáldasjóði RÚV og STEFs en sá styrkur hefur verið ein af grundvallarstoðum fyrir íslenskan tónskáldskap.

            Úlfar Ingi Haraldsson

 

Sjókortstrengjakvartett nr. 2, var frumflutt í Reykholtskirkju árið 2024: Hafið og leiðin, hvað gerist á leiðinni, og er áfangastaður? Gráðuboga er varpað yfir kvartettinn og hann sendur af stað út á reginhaf. Strokkvartettinn Siggi varð 12 ára á árinu 2024 og er þetta hugsað sem afmælisverk sem kannski fangar brotabrot af atburðarásinni sem á sér stað þegar fjórir listamenn, strengjaleikarar, eyða lunganum úr tíma sínum í rúman áratug í það að æfa saman og búa til eigin hljóm. Sjókort verður því eins konar ferð um ferð, raunsæisleg og fyrirfram ákveðin, en samt algjörlega stjórnlaus, háð veðri og sjólagi, núinu, sem og eiginleikum hvers og eins í allar áttir.

Verkið er í fjórum köflum: Í fyrsta kaflanum, Adagio, falla hægar öldur og kvartettinn myndar hljómandi áferð hafsins og sjávarfalla.

Annar kaflinn, Impossibile, lýsir ferð um það sem virðist ómögulegt, kvartettinn leikur mestanpart í unisono þar sem raddirnar hreyfast saman – í frásögn um hið ómögulega og því sem það kallar fram, úrvinnslu á áskorunum ómöguleikans og að sigla gegnum þær.

Þriðji kaflinn, Huliðshjálmur, er undir sterkum áhrifum frá tveggja-strengja hljóðfæri frá Kazakhstan sem ég fékk lánað hjá Adínu Almas vinkonu minni í London. „Qobyz“ heitir það og var Huliðshjálmur saminn á hljóðfærið. Þokuslæðingur í einskonar hugleiðslu.

Sá fjórði, Anti-Impossible, er skrifaður í minimalískum stíl og er óður til kvartettsins þar sem ekkert er ekki hægt, sbr. titilinn Anti-Impossible. Hann er í fúguformi og stefið daðrar við minningu um ballett eftir Prokofiev. Stefnan er svo tekin aftur inn í leiðsluna og inn í sólarlagið.
                                                                                                Una Sveinbjarnardóttir

Dmitri Sjostakovítsj samdi 15 strokkvartetta á árabilinu 1938 til 1964, enda var hann afkastamesti og vafalítið frensti merkisberi þessa listforms meðal tónskálda 20. aldar. Það er til marks um að Kammermúsíkklúbburinn hefur jafnan hlýtt kalli tímans að þegar á 2. tónleikum klúbbsins 1957 fluttu Björn Ólafsson og félagar 1. strengjakvartett Sjostakovítsj op. 49 og síðan hafa þeir allir verið fluttir hjá klúbbnum, sumir oftar en einu sinni. Áttunda kvartettinn, sem nú er fluttur, samdi tónskáldið í Dresden, hinni frægu háborg menningar og lista sem þá var enn í rústum eftir loftárásir í lok seinna stríðsins, en áður hafði hann þolað umsátur Þjóðverja um Leníngrad í hálft þriðja ár ásamt öðrum íbúum þeirrar borgar. Heimska og illska mannanna hafa honum því verið ofarlega í huga þegar hann samdi kvartettinn, enda ekki allt í honum slétt og fellt.

Sig. St.