Um efnisskrána
Darius Milhaud, einn frönsku Sexmenninganna (Les Six), var óhemju afkastamikið tónskáld. Eftir hann liggja fjölmörg kammerverk, þar á meðal 18 strengjakvartettar, sónötur fyrir píanó og ýmis hljóðfæri o.fl. Milhaud sagði um Sónötuna fyrir tvær fiðlur og píanó op. 15, að hún væri fyrsta kammerverkið sitt, sem hann hefði viljað kannast við seinna á ævinni. Hann samdi hana árið 1914, meðan hann enn var við nám í Tónlistarháskólanum í París. Hún er í meginatriðum hefðbundin í formi en tónmálið er þó gjarnan kryddað með nýstárlegum hljómum, lagferli og andstæðum. Ljóðrænn og dreyminn millikaflinn er úr allt öðrum heimi en kraftmiklir kaflarnir, sem sónatan hefst og endar á.
Jean Françaix var, eitt margra þekktra tónskálda, nemandi Nadiu Boulanger í París. Hann var, líkt og Milhaud, afar afkastamikill og ekki síst á sviði kammer-tónlistar. Knappur stíll, léttleiki og kímni eru aðalsmerki þessa skemmtilega franska tónsmiðs. Að eigin sögn var markmið hans ávallt „að veita ánægju“ og ekki síður að „að forðast eins og pestina meðvitaðar, vitlausar nótur og önnur leiðindi“. Tríóið fyrir klarínettu, víólu og píanó er engin undantekning. Látið ekki grafalvarlegan fyrsta kafla villa ykkur sýn. Fjörið er á næstu grösum. Það á að vera gaman að lifa – í heimi Jean Françaix a.m.k.
Strengjakvartettar Maurice Ravels og Claude Debussys sem samdir eru sitt hvoru megin við aldamótin 1900 eiga margt sameiginlegt, þeir eru merkilegar tónsmíðar og tímamótaverk. Þeir ryðja sannarlega brautina fyrir tónskáld 20. aldarinnar. Í Strengjakvartetti Ravels í F-dúr kemur fram róttækt endurmat á strengja-kvartettaforminu, ýmsum eldri gildum er ýtt til hliðar, en í leiðinni eru önnur endurvakin, líkt og innileiki og nánd. Strengjakvartettar klassíska og rómantíska tímans einkenndust gjarnan af „concertante-hugsun“ þ.e. ákveðinni „keppni“ milli hljóðfæraleikaranna eins og við þekkjum frá konsertaforminu. Í kvartettum fyrri tíma skiptust hljóðfærin gjarnan á að hafa frumkvæðið, sólóstrófur voru algengar og þess oftar en ekki gætt, að öll hljóðfærin hefðu álíka tækifæri til að láta að sér kveða. Í strengjakvartettum Ravels og Debussys er síður um tjáskipti milli hljóðfæra-leikaranna að ræða heldur er megináherslan lögð á að vinna úr þeim möguleikum, sem strengjaleikararnir fjórir geta í sameiningu skapað í tónblæ, lit og stemningum. Spunninn er fíngerður, samhangandi vefur síbreytilegra hljómasambanda sem mynda liti, ljós og skugga. Orðið „impressíónismi“ kann að vera óljóst, en þeim er þetta skrifar finnst það að minnsta kosti gefa vísbendingu um þá tónlist sem hér er á ferðinni. Og sjaldan hefur verið málað annað eins málverk í tónum.
Valdemar Pálsson