Um efnisskrána
Árið 1785 pantaði útgefandinn Franz Hoffmeister, þrjú ný kammerverk hjá Wolfgang Amadeus Mozart. Hann vantaði þrjá kvartetta fyrir píanó og strengi, form sem þá var nokkur nýlunda. Hoffmeister þessi reyndist svo ekki alls kostar ánægður með tvo þá fyrstu (K 478 og K 493), sem Mozart hafði lokið við nokkrum vikum eftir að síðasta hönd var lögð á Brúðkaup Fígarós 1786. Honum þótti þeir ekki nógu aðgengilegir. En Mozart var harla ánægður, hélt sínu striki og samdi þann þriðja og leysti Hoffmeister undan samningnum. Árið 1786 sat Mozart ekki auðum höndum. Afköstin voru hreint ótrúleg, þrátt fyrir persónulega erfiðleika og dalandi vinsældir í Vínarborg. Fyrir utan píanókvartettana þrjá og fyrrnefnt Brúðkaup Fígarós samdi hann söngleikinn Der Schauspieldirektor, píanókonsertana nr. 23, 24 og 25, tvö píanótríó (K 496 og 502), Klarínettutríóið „Kegelstatt“ (K 498) og Prag-sinfóníuna nr. 38 (K 504), sem hrist var fram úr erminni tveimur dögum eftir að hann lauk við Píanókonsertinn nr. 25! Píanókvartettinn í Es-dúr ber skapara sínum fagurt vitni. Alla leið má skynja meistaraleg efnistök tónskáldsins, yndisþokka og léttleikandi stef og ekki síst nánast fullkomið jafnvægið milli píanós og strengja (hvað var Hoffmeister að hugsa?). Það er helst í lokakaflanum að Mozart leyfir sér að gefa píanóleikaranum lausan tauminn. Kannski ekki svo skrýtið þegar þrír glæsilegustu píanókonsertarnir eru á sama tíma í gerjun í höfði tónskáldsins.
Gustav Mahler var tónskáld hinna stærstu forma í hljómsveitartónlist. Fullgerðu sinfóníurnar níu eru miklar að vexti og margar tröllauknar, meðal viðamestu tónverka þessa forms og sumar með kór- og einsöngsröddum. Mahler lét líka að sér kveða í ljóðasöngnum, bæði í löngum sönglagaflokkum og stökum sönglögum. Og svo samdi hann eitt kammerverk, Píanókvartettinn í a-moll. Og þar við sat. Kvartettinn er æskuverk, líkast til samið þegar Mahler var 16-17 ára, eina þekkta tónverkið frá æskuárunum og sem sagt eina kammerverk hans. Rúmar 12 mínútur. Verkið er einn kafli í hefðbundnu sónötuformi, með meginstefi sem heyrist í upphafi í vinstri hönd píanóraddarinnar. Píanókvartettinn er sannkölluð perla og vel má gæla við þá hugsun hvað hefði getað orðið, ef Mahler hefði lagt rækt við kammertónlistina.
Þekktasta kammerverk Roberts Schumanns er vafalaust Píanókvintettinn op. 44 og varla ofsögum sagt að þar fari eitt vinsælasta kammerverk rómantíkurinnar. Píanókvartettinn op. 47 er stundum kallaður „tvífari“ kvintettsins fræga, enda í sömu tóntegund og um margt svipaður í anda. Kvartettinn var saminn 1842, nokkrum vikum fyrr en píanókvintettinn. Árið 1842 var einmitt árið sem Schumann einbeitti sér að kammertónlist, Píanókvartettinn op. 47 var saminn með eiginkonuna, Klöru Wieck, í huga og var hún ein þeirra er frumflutti hann opinberlega í Leipzig í desember 1844 ásamt Niels W. Gade (víóla), Ferdinand David (fiðla) og Franz Karl Wittmann (selló). Áður (5. apríl 1843) hafði kvartettinn verið spilaður á heimili Schumann-hjónanna í Leipzig og að sjálfsögðu einnig með Klöru við flygilinn. Hún lýsti verkinu í dagbók sinni þannig: „… undurfallegt verk, svo ferskt og fullt af æskufjöri líkt og væri það hans fyrsta verk“.
Valdemar Pálsson