Um verk og tónskáld

Árið 1788 birtist grein í tímaritinu Journal des Luxus und der Moden þar sem fjallað var um píanókvartett Mozarts. Höfundi greinarinnar þótti verkið snúið, en markhópur kammertónsmíða voru einkum áhugahljóðfæraleikarar sem léku saman af blaði sér og öðrum til skemmtunar. Ef marka má greinina reynir verkið til hins ýtrasta á slíka hljóðfæraleikara og ekki síður áheyrendur.
Verkið var samið árið 1785 að beiðni Franz Anton Hoffmeister sem réði Mozart til þess að semja þrjú verk fyrir píanókvartett. Hann byrjaði á g-moll kvartettinum í júlí sama ár og lauk honum 16. október. Með þessu verki kynnti hann nýja hljóðfærasamsetningu fyrir Vínarbúum með því að bæta lágfiðlu við hið kunnuglega píanótríó. Reyndar samdi hinn 14 ára gamli Beethoven þrjá píanókvartetta norður í Bonn um svipað leyti en þeir komu ekki út fyrr en eftir hans dag.
Hoffmeister sagði Mozart að hann yrði að skrifa aðgengilegri tónlist, annars myndi hann ekki greiða honum fyrir vinnuna. Mozart svaraði hins vegar að hann myndi þá ekkert meira semja, svelta heilu hungri og fara til andskotans. Hoffmeister leyfði Mozart þó að halda þeim peningum sem hann hafði þegar fengið, en Mozart hafði þá lokið við annan píanókvartettinn í Es-dúr, K. 493, en byrjaði aldrei á þeim þriðja.
En í fyrrnefndri tímaritsgrein segir að þó verkið henti illa áhugamönnum sé hreinasta unun að hlýða á færa hljóðfæraleikara flytja það. Kvartettinn sýnir óviðjafnanlega hæfileika Mozarts til að blanda saman depurð, dramatískum ákafa og ljóðrænni fegurð allt frá dramatískum fyrsta kaflanum yfir í blíðlegan annan kaflann og líflegan lokakaflann.

 

Árið 1862 settist Brahms að í Vínarborg, höfuðborg hins vestræna tónlistarheims, þá 29 ára gamall. Hann kynnti sig fyrir tónlistarelítu borgarinnar með píanókvartetti sínum í g-moll, sem var fyrstur þriggja píanókvartetta sem hann samdi um ævina. Meðlimir Hellmesberger kvartettsins, eins fremsta kammerhóps Vínarborgar, lásu verkið með tónskáldinu við píanóið. Í lok verksins stökk fiðluleikarinn Joseph Hellmesberger upp úr stólnum og sagði ákaft: „Þetta er arftaki Beethovens!
Kvartettinn var saminn á árunum 1856-61 og var frumfluttur í Hamburg 1861 en þá var Clara Schumann við píanóið. Kvartettinn sýnir þroska Brahms sem tónskáld, en honum hafði tæplega þrítugum tekist að tileinka sér áhrif Bachs, Beethovens og Schuberts í fullmótaða tónsmíðarödd. Á þessu tímabili samdi hann mikið af framúrskarandi kammerverkum og festi sig í sessi sem eitt af fremstu tónskáldum síns tíma. Hins vegar samdi hann sína fyrstu sinfóníu ekki fyrr en 1876 en aðspurður útskýrði hann það svo: „Þú hefur ekki hugmynd um hvernig það er að heyra fótatak risa eins og Beethovens fyrir aftan þig!
Píanókvartettinn í g-moll er enn í dag eitt af hans helstu verkum, og ber vitni um einstaka hæfileika  hans og sköpunargáfu. Verkið sýnir djúpstæðan skilning tónskáldsins á formi, laglínu og tilfinningum og dregur hlustendur inn í grípandi frásögn sína frá fyrstu nótum. Kvartettinn er þekktastur fyrir hrífandi lokakaflann, hið fræga Rondo alla Zingarese sem endurspeglar ævilanga hrifningu Brahms á ungverskri þjóðlagatónlist.
                                          Sólveig Steinþórsdóttir