Um efni og flytjendur
Strengjatríó Josephs Haydn í G-dúr op. 53 nr. 1, hið 35. af 37 slíkum, er strengjaútgáfa af hljómborðssónötu Hob XVI nr. 40. Hið eina sem aðgreinir útgáfurnar tvær er hljóðfæraskipunin, enda birtust þær samtímis á prenti sem þykir benda til þess að báðar séu frá hendi Haydns sjálfs. Þetta er yndisleg tónlist, saklaus eins og sólskinið sjálft, enda vinsæl m.a. á YouTube.
Anna Linh Nguyen Berg (f. 1992), norsk-víetnamskt tónskáld. Verk hennar spanna allt frá sinfóníum, kórverkum og kammermúsík til kvikmynda- og danstónlistar. Árið 2019 stofnaði hún Ensemble 3030, e.k. „musica nova“ í Osló. Fyrirsögn og efni tríósins „Earthward, Ever cycling“ vísa til útfaratónlistar víetnamskra búddista sem á að hjálpa svífandi sál hins framliðna að endurholdgast: „Lifendur þurfa ljós, dauðir tónlist.“
Mieczyslaw Weinberg (1919–1996), „einn meðal dýrustu falinna djásna 20.-aldar tónlistar“ að sögn Google, fæddur í Póllandi en fluttist til Rússlands þar sem hann bjó til æviloka, nánast sem skuggi af Sjostakóvitsj, vini sínum og aðdáenda, sem taldi hann meðal frábærustu tónskálda samtímans. Nú er heimurinn í óðaönn að blása rykið af verkum Weinbergs, 20.-aldar snillings sem m.a. lét eftir sig 17 strengjakvartetta, meira en 20 sinfóníur, fjölda sónata fyrir strengjahljóðfæri og píanó; einnig óperur og kvikmyndatónlist.
Beethoven fluttist 22ja ára til Vínarborgar 1792, árið eftir að Mozart andaðist, og gerðist nemandi Haydns. Þar samdi hann öll fimm strengjatríó sín, á undan fyrstu kvartettunum (op. 18, 1798–1800). Því hafa ýmsir litið á tríóin sem eins konar undirbúnings-æfingar fyrir kvartettana, því auðveldara sé að skrifa fyrir þrjú hljóðfæri en fjögur. Það mun þó vera öðru nær, því meiri kúnst þarf til að ná blæbrigðum og styrkleikabreytingum með færri hjómfærum, — þar var hinn skapstóri Beethoven öflugur þótt ungur væri. Es-dúr tríóið op. 3 kallast á (ef svo má segja) við divertimento Mozarts í sömu tóntegund Kv. 563, en auk þess greina glöggir menn í tríóinu árangur af djúpri rannsókn hins unga Beethovens á Das wohltemperierte Klavier Bachs.
Strengjatríóið Ssens (frb. „essens“ = innsta eðli, kjarni) var stofnað 2014 í Osló. Í nóvember 2021 kom það fram á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins og flutti tríó eftir Schubert, Hafliða Hallgrímsson og Beethoven. Á tónleikunum nú leika þau tríó tveggja meistara kammertónlistar auk þess að kynna sýnishorn af verkum tveggja áhugaverðra samtímatónskálda. Tríóið skipa Sølve Sigerland, fiðla; Henninge Landaas, víóla; Ellen Margarete Flesjø, selló.
S.St.