Um efnisskrána
Beethoven lærði ungur að leika á sembal, píanó, fiðlu, víólu og orgel og kom í fyrsta sinn fram á tónleikum 8 ára gamall. Hann varð varamaður organistans í hirðkirkjunni í Bonn 12 ára. Næsta ár samdi hann fyrsta lag sitt sem vitað er um.
Árið 1792 fluttist hann frá Bonn til Vínar, 22 ára gamall, og bjó þar síðan til æviloka. Mozart var þá dáinn ári fyrr. Beethoven fékk tilsögn í tónsmíðum hjá Joseph Haydn, áhrifamesta og frægasta tónskáldi þess tíma, sem þá var nýkominn aftur til Vínarborgar úr sinni fyrri sigurför til Lundúna. Sem nemandi Haydns samdi Beethoven píanótríóin þrjú op. 1, í Es-dúr, G-dúr og c-moll. Þau voru gefin út 1795 og frumflutt sama ár í húsi Lichnowskys prins (sem þau eru tileinkuð).
Í þetta sinn tolldi Haydn ekki nema rúmt ár í Vínarborg áður en hann lagði upp í síðari Lundúnaferð sína (1794–95), og sennilega hefur Beethoven samið þriðja tríóið (c-moll) að mestu meðan hann var í burtu. Að minnsta kosti fór það svo að þegar „faðir sinfóníunnar“ og meistari píanótríósins—hann hristi ein tólf slík fram úr erminni, auk margra annarra verka, meðan Beethoven glímdi við sín þrjú—að þegar Haydn heimkominn heyrði tríóin þrjú spiluð þá stakk hann upp á því að nr. 1 og 2 væru gefin út en ekki hið þriðja (c-moll). Þetta mislíkaði Beethoven stórlega sem vonlegt var, því sennilega átti hann mest í því sjálfur, og var fátt með þeim tveimur um hríð.
Píanótríó – píanó, fiðla og selló – var eina hljóðfærasamsetningin sem Beethoven hefði getað raskað með ró Haydns – langt var enn í það að sinfóníur hans og strengjakvartettar gætu skyggt á verk meistarans – en þessi píanótríó hljóta að hafa sýnt honum sín eigin nýjustu tólf tríó hræðílega gamaldags. Í fyrsta lagi eru tríó Beethovens stærri í sniðum, fjórir kaflar í stað þriggja, í öðru lagi kallast sjálfstæð selló-röddin á við rödd hinna tveggja í stað þess að vera eins konar fylgibassi með vinstri hönd píanósins, og í þriðja lagi vottar fyrir „beethovenskum tilfinningaofsa“ sem Haydn kann að hafa þótt óþægilegur og óviðeigandi – rithöfundurinn Aldous Huxley hélt því meira að segja fram að tónlist Bítlanna væri Beethoven að kenna!
Þrátt fyrir ópus-númerið eru þessi píanótríó ekki byrjendatónsmíðar. Beethoven átti þá í fórum sínum eldri tónverk sem voru gefin út síðar. Tríóin minna að sjálfsögðu á Haydn og Mozart en eins og fyrr sagði: með þeim kynnir Beethoven sjálfan sig með hætti sem ekki varð fram hjá gengið. Tríóin hafa öll verið flutt áður í Kammermúsíkklúbbnum, þar af c-moll tríóið tvisvar. — Sig.St.