Um efnisskrána:

 

Johannes Brahms stóð á tímamótum á ferli sínum þegar hann samdi Píanótríóið nr. 2 á árunum 1880 til 1882. Hann hafði þá hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem tónskáld, ekki síst fyrir tilstilli fyrstu sinfóníanna tveggja, en sú fyrri hafði valdið honum áratuga kvíða og óvissu. Hann var þessi árin smám saman að kveðja einleikaraferilinn og breytast í tónskáld „í fullu starfi“. Hann lék sjaldnar opinberlega og þeir sem þekktu hann tóku eftir því að fingrafiminni fór hrakandi enda æfði hann sig mun minna en áður. Clara Schumann, perluvinur Brahms, skrifaði í dagbók sína árið  1882: „Spilamennska Brahms verður sífellt hörmulegri. Nú orðið eru þetta eintómir dynkir, högg og klór“.

Brahms, sem nú var orðinn miðaldra, ráðsett tónskáld, fannst sem sagt tími til kominn að kveðja ímynd hins glæsilega og eftirsótta unga einleikara. Alskeggið myndarlega varð til. Gárungarnir sögðu að Brahms hafi nú breyst frá því að líkjast syni Clöru Schumann yfir í að vera lifandi eftirmynd föður hennar.

Brahms var ekki þekktur fyrir sjálfsánægju, hvað þá sjálfshól. Sjálfsgagnrýni og jafnvel minnimáttarkennd hafði löngum einkennt afstöðu hans til eigin tónsmíða.  En með aldrinum var hann orðinn sáttari við verk sín og var harla ánægður með C-dúr tríóið op. 87 og lá hreint ekki á þeirri skoðun sinni,  aldrei þessu vant. Í bréfi til útgefanda síns, Nikolaus Simrock sagði hann: „Þetta tríó er það fallegasta sem ég hef  komið með til yðar og kannski besta verkið sem þér hafið gefið út undanfarin tíu ár“.

Verkið var frumflutt á Kammermusikabend der Museumsgesellschaft í Frankfurt 29. desember 1882. Flytjendur voru Hugo Heermann á fiðlu, Valentin Müller á selló og Johannes Brahms sem lék á píanóið.

 

Dmitri Shostakovich hefur ávallt verið umdeilt tónskáld og enn deila menn um áhrif hans á sögu tónlistarinnar og gildi tónsmíða hans. Flestir tónlistarunnendur eru þó líklega þeirrar skoðunar, að bestu verk Shostakovich séu snilldarverk sem aldrei muni falla í gleymsku. Undirritaður játar það fúslega að hann tilheyrir seinni hópnum.

Píanótríóið op. 67 er sannarlega eitt af bestu verkum tónskáldsins. Það er samið árið 1944 og í minningu besta vinar Shostakovich, tónlistarfræðingsins Ivans Sollertinskys (1902-1944). Sollertinsky hafði lengi verið stoð og stytta tónskáldsins og ekki síst í þeim erfiðleikum sem tónskáldið mátti þola eftir frumflutning 8. sinfóníunnar 1943. Tríóið er því sorgaróður um látinn vin en á verkinu eru einnig hliðar sem eru ekki augljósar á yfirborðinu. Eins og jafnan hjá Shostakovich er hið sam-mannlega megin viðfangsefnið. Samúðin er með fórnarlömbum stríðsins og  þeim sem ofsóttir eru og þá sérstaklega Gyðingum sem nasistar útrýmdu kerfisbundið. Þetta undirstrikar tónskáldið í verkinu eins og glöggt má heyra í lokakaflanum sem inniheldur gyðingastef (og eitt þeirra það sama og í 8. strengjakvartettinum). Sumir hafa viljað túlka þann kafla sem lýsingu á því er nasistar neyddu Gyðinga til að dansa á eigin gröf meðan þeir biðu aftöku. 

Annars segir tónlistin allt sem segja þarf og frekari lýsingar óþarfar. Skilaboðin eru ótvíræð.

Valdemar Pálsson