Um efnisskrána
Þriðji strengjakvartett Philips Glass, „Mishima“, er hluti af tónlist sem Glass samdi við kvikmynd Pauls Schrader „Mishima: A Life in Four Chapters“ (1985). Myndin fjallar um japanska rithöfundinn Yukio Mishima (1925-1970) sem margir telja merkasta höfund Japana á 20. öld. Í myndinni skiptast atburðir úr bókum hans á við þætti úr ævi hans sjálfs – sem endaði með sjálfsmorði. Glass lætur strengjakvartett (Kronos-kvartettinn) leika undir svart-hvítum minnum úr ævi rithöfundarins, strengjasveit og slagverk fylgja köflum frá síðasta degi hans, og stóra sinfóníuhljómsveit fylgja köflum úr skáldverkum hans.
Raunar hafði Glass beitt svipaðri aðferð í 2. kvartett sínum („Company“ 1983) sem unninn var úr tónlist hans fyrir leikgerð á smásögu Samuels Beckett, „Company“.
Dmitri Shostakovich er vafalítið ókrýndur konungur strengjakvartettsins á 20. öld. Eftir hann liggja 15 verk með þessu nafni, samin á tímabilinu 1938 til 1974, en auk þess samdi hann Tvö stykki fyrir strengjakvartett op. 36 árið 1931.
Valdemar Pálsson skrifaði 21. nóvember 2004: „Sjöundi strengjakvartettinn (1960) er stystur kvartettanna, aðeins rúmlega 12 mínútna langur, en telst samt til merkari verka tónskáldsins. Kvartettinn er afar innihaldsríkur og að verkinu loknu finnst þeim er þetta skrifar jafnan, að hann hafi verið að hlusta á mun viðameira verk. Þótt fyrsti kaflinn sé fjörlegur er verkið ekki léttvægt, því innri spenna verksins er mikil, einmanaleikinn þrúgandi í Lento-kaflanum og tryllingsleg fúgan í upphafi lokakaflans og endurkoma upphafsstefsins í lok verksins eru sannarlega áhrifamikil.
Sjostakovich þótti ávalt sérlega vænt um þennan kvartett, enda var hann saminn til minningar um eiginkonu hans, Nínu, sem lést sex árum áður.“
Strengjakvartett Ludwigs van Beethoven op. 131 mun vera sá síðasti hinna „þriggja stóru“ (op. 130, 131, 132) sem Beethoven vann að. Prentun lauk í sama mánuði og hann andaðist. Í tilefni af flutningi hans í janúar 1998 skrifaði Einar B. Pálsson:
„Hvar sem Beethoven tók til hendi, varð eitthvað nýstárlegt til. Þrátt fyrir heyrnarleysi og tæpa heilsu, hélst það alla hans ævi. Ekkert skyggir enn á síðustu píanósónötur hans, sinfóníur og konserta eða kórverk. Árið 1822 samdi hann síðustu píanósónötu sína og 1823 Diabelli-tilbrigðin fyrir píanó, mest verka á því sviði. Þá tók hann til við að ljúka níundu sinfóníunni og hátíðamessunni, sem hann hafði átt lengi í smíðum. Eftir það urðu strengjakvartettar tjáningarmiðill Beethovens síðustu 3 ár ævinnar. Hann samdi þá 5 kvartetta af þeim 17 sem eftir hann liggja, þ. á m. hina „þrjá stóru“.
Beethoven hafði í upphafi erft form sinfóníu og strengjakvartetts fullskapað frá Haydn. Mozart hafði gætt það aukinni fegurð og unaði. Við þetta veganesti studdist Beethoven, en skáldskapur hans varð svo sterkur með tímanum, að formið varð að lúta fyrir hugarfluginu. Þriðja tímabilið á starfsferli Beethovens einkennist af þessu.
Kvartettinn op. 131 er endir og hástig þessa ferils. Hann er í 7 köflum sem eru leiknir án þess að hlé verði á milli, stór í sniðum og dulúðugur á köflum, vandfluttur en ógleymanlegur þeim, sem kynnast honum.“
Sig. St.