Um efnisskrána:

Johann Nepomuk Hummel (1778-1837) fæddist í borg nú heitir Bratislava í Slóvakíu en hét þá Pressburg í Ungverjalandi sem var hluti af Hinu heilaga rómverska keisaradæmi. Þegar á ungum aldri þótti hann svo efnilegur píanóleikari að Mozart tók hann á heimili sitt 8 ára gamlan sem nemanda í tvö ár. Hummel varð víðfrægur píanósnillingur og píanókennari – gaf m.a. út kennslubók í píanóleik 1828 sem seldist í þúsundum eintaka á fáeinum dögum. Áhrif Hummels á píanóleikara 19. aldar voru veruleg, bæði bein og óbein; meðal nemenda hans var Carl Czerni sem síðar kenndi Franz Liszt.

Á sinni tíð var Hummel frægur og áhrifamikill tónlistarmaður en sem tónskáld hvarf hann eins og fleiri samtíma-tónskáld í skugga Beethovens. Á síðari árum hefur rykið samt verið dustað af tónverkum hans, til dæmis hafa klarinettukvartett og píanókvartett eftir hann verið fluttir tvisvar hvor í Kammermúsíkklúbbnum.

Arnaldur Arnarson skrifar: „Það er kannski fullmikil einföldun að kynna þessar serenöður eða syrpur sem umritun á verkum eftir Mozart, eins og stundum hefur verið gert, þótt vissulega beri þar meira á Mozart en öðrum meisturum.

Í þeim notar Hummel stef úr óperum (aríur, forleiki), og ballettum eftir ýmsa höfunda auk sjálfs sín. Enn fremur eru tilbrigði eftir Giuliani og Mayseder.

Í op. 63 eru stef eftir Weigl, Cherubini, Umlauf, Spontini, Mozart (4), austurrískt þjóðlag og Hummel sjálfan, alls ein tíu stef.

Í op. 66 eru stef eftir Mozart (3), Boieldieu, Duport, Cherubini, Naderman og hann sjálfan (2), alls 9 stef.

Verkin voru frumflutt árið 1815 og voru hluti af útitónleikaröð sem Franz Pálffy greifi stóð fyrir við Schönbrunnhöll í Vín.“

 

Ludwig van Beethoven (1770-1827). Tónlistarstíll tríóanna þriggja fyrir klarinettu og fagott WoO 27 (Werke ohne Opuszahl), í C-, F- og B-dúr, skipar þeim í fyrsta tímabil tónsköpunar Beethovens. Þau voru fyrst gefin út eftir dauða tónskáldsins, frumtexti þeirra er óþekktur, enda hafa sumir lýst efa á að þau séu rétt feðruð. Þetta eru fjörleg stykki, vel samin fyrir hljóðfærin tvö, og ekki sérlega erfið tæknilega. Þau hafa því löngum þótt sóma sér vel á kammertónleikum auk þess að henta lengra komnum hljóðfæranemendum til að spreyta sig á.

 

Joseph Kreutzer (1790-1840) var þýskt tónskáld, hljómsveitarstjóri, gítarleikari og fiðlari, fæddur í Aachen. Frá unglingsárum til dauðadags bjó hann í Düsseldorf og taldist til heldri tónlistarmanna þeirrar borgar. Hann samdi einkum kammermúsík og einleiksverk fyrir gítar—t.d. Sex tilbrigði við „Eldgamla Ísafold“ – sem og kennsluverk fyrir gítar og strokhljóðfæri. Verk hans fyrir gítar má enn heyra í hljómleikasölum og á hljómplötum. A-dúr tríóið op. 16 er eitt af fjórum slíkum fyrir flautu/fiðlu, klarínettu/víólu og gítar.

Sig. St.