Um flytjendur og efnisskrá:

 

Calder-kvartettinn var stofnaður árið 1998 þegar fjórmenningarnir voru nemendur í Thornton School of Music, University of South California. Kvartettinn nefndu þeir eftir bandaríska höggmyndasmiðnum Alexander Calder (1898-1976), upphafsmanni „óróa“ (mobiles) í myndlist. Frekara nám sóttu þeir í Coburn School (þar sem þeir eru nú meðal kennara), Juilliard School og háskóla „Hanns Eisler“ í Berlín. Kvartettinn telst vera í fremstu röð í Bandaríkjunum - virtur, margverðlaunaður og eftirsóttur af jafnt áheyrendum sem tónskáldum.

Schubert samdi 15 strengjakvartetta á sinni skömmu ævi, þar af 11 þegar hann var innan við tvítugt. Kvartettinn í d-moll, hinn 14. í röðinni, dregur viðurnefnið „Dauðinn og stúlkan“ af stefi 2. kaflans (andante con moto), söngljóði sem Schubert samdi 7 árum fyrr við kvæði Matthiasar Claudius, Der Tod und das Mädchen. Þar biður stúlkan Dauðann í líki beinagrindar (Knochenmann) að víkja frá sér vegna æsku sinnar, en hann svarar því til að hann komi sem vinur, ekki sem óvinur. Þetta stef var jafnan ofarlega í huga Schuberts sem var fátækur og heilsulítill, flest hinna mörgu systkina hans höfðu dáið í æsku, læknislist var á frumstigi — þótt frekur sé hverr til fjörsins litu margir á dauðann sem lausn frá heimsins kvöl.

Finnska tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Esa-Pekka Salonen (f. 1958) skrifar: „Homunculus er stutt (ca. 15 mínútur) verk fyrir strengjakvartett sem ég samdi haustið 2007 handa Johannes-kvartettinum. Mig langaði til að skrifa stykki sem væri mjög þétt bæði að formi og lengd, en þrátt fyrir það fjölbreytilegt að eiginleikum og gerð – með öðrum orðum: smáverk sem lætur eins og það sé stórt tónverk. . . . Nafnið vísar til þeirrar fornlegu hugmyndar að sáðfruma sé í rauninni „lítill maður“ (homunculus) sem settur sé í kvið konu til að vaxa upp í barn. Þetta þótti sumum varpa ljósi á sitthvað varðandi getnað sem torskilið var. Ég ákvað að kalla verkið Homunculus þrátt fyrir augljósa veikleika í hinni 17. aldar kenningu, enda var ætlun mín að semja lítið verk sem samt innihéldi alla þætti „fullvaxins“ strengjakvartetts.“

Daníel Bjarnason (f. 1979) hefur, þrátt fyrir ungan aldur haslað sér völl alþjóðlega sem tónskáld og hljómsveitarstjóri. Frægar hljómsveitir og kammerhópar hafa leitað í smiðju tónskáldsins auk þess sem hann hefur stjórnað hljómsveitum víða um heim. Nýjasta stórvirki hans mun vera ópera fyrir dönsku þjóðaróperuna í Árósum. Kvartettinn „Stillshot“ (ca. 9 mín.) samdi Daníel fyrir Calder-kvartettinn sem frumflutti verkið í Los Angeles í apríl 2015.

Andrew Norman (f. 1979) samdi kvartettinn „Stop Motion“ (ca. 15 mínútur) árið 2015 fyrir Calder-kvartettinn sem frumflutti hann í Los Angeles 30. maí sama ár. „Stop Motion“ þiggur innblástur sinn af verkum nafna kvartettsins, bandaríska höggmyndasmiðsins Alexanders Calder, sem er kunnur fyrir óróa-helgimyndir sínar (iconic mobiles). Líkt og óróar Calders kannar „Stop Motion“ Normans hugmyndina um stanslausa þróun frá einni tónhugsun til annarrar.

Til gamans má geta þess að títtnefndur Alexander Calder var sonur Alexanders Stirling Calder sem gerði styttuna af Leifi Eiríkssyni á Skólavörðuholti.

Sig.St.