Um efnisskrána

Fram til þrítugs samdi Robert Schumann ekkert annað en píanótónlist enda hélt píanókennari hans, Friedrich Wieck, því fram að hann gæti auðveldlega orðið fremsti píanisti Evrópu. Handarmein batt þó endi á þær áætlanir og Schumann sneri sér alfarið að tónsmíðum. Sama ár, 1840, gekk hann að eiga Clöru Wieck, dóttur kennarans og einn fremsta ungpíanista sinnar tíðar. Jafnframt víkkaði farvegur sköpunarmáttar hans: Árið 1840 tók hann að semja sönglög, ári seinna sinfóníur, og 1842 kammermúsík – það ár þrjá strengjakvartetta, píanókvintett, píanókvartett og píanótríó (Fantasiestücke op. 88). Síðan liðu fimm ár án kammerverka uns Píanótríóið op. 63 birtist 1847. Fleiri kammerverk komu út næstu árin, fiðlusónata nr. 1 op. 105 kom út 1851 en síðasta kammerverk hans, fiðlusónata nr. 3 (númeruð WoO 27), var samið 1853. Síðasta ópusnúmer Schumanns var Requiem op. 148, samið 1852. Eftir fertugt sótti sinnisveiki að skáldinu og síðustu tvö árin dvaldi hann á geðveikrahæli að eigin ósk.

Schumann þótti semja sín rómantísku og svifléttu píanóstykki fremur með hjartanu en höfðinu. Þegar hann tók að fást við veigameiri verk reyndist honum kunnátta sín í hljómfræði og kontrapunkti standa á brauðfótum og hann brást við með því að sökkva sér niður í verk meistaranna Haydns, Mozarts og Beethovens. Árið 1842, árið sem Schumann samdi sína þrjá strengjakvartetta, varð samt örlagaríkt því þunglyndisköst tóku að þjaka skáldið, enda fannst honum að í rauninni hefði Beethoven sagt síðasta orðið í kvartettasmíð – og sennilega flestri annarri tónsmíð.

Fiðlusónata nr. 1, a-moll op. 105 var samin á einni viku í september 1851. Clara Schumann og fiðlarinn Ferdinand David frumfluttu hana í mars 1852 og haft er eftir Schumann sjálfum að hann hafi verið óánægður með hana – „mér líkaði ekki fyrsta sónatan fyrir fiðlu og píanó svo ég samdi aðra sem ég vona að hafi komið betur út“ – sú er frá sama ári, op. 121 í d-moll. Fiðlusónatan op. 105 hefur hljómað einu sinni áður í Kammermúsíkklúbbnum, í október 1979.

Píanótríó nr. 1, d-moll op. 63. Dagbækur Schumanns sýna að hann lagði mikið í píanótríóin tvö frá 1847 (op. 63 og 80). Nýlærð kúnst hans í kontrapunkti kemur skýrt fram þegar í upphafi d-moll tríósins þar sem bassarödd í píanóinu undir upphafsstefi fiðlunnar verður meginstef þegar í 2. takti. Mörgum kunnáttumönnum þykja þessi tríó hafa mjög að ósekju lent talsvert utangarðs í tónleikasölum heimsins. Þó er þetta í þriðja sinn sem píanótríóið op. 63 er flutt í Kammermúsíkklúbbnum, op. 88 hefur hljómað í klúbbnum einu sinni, en op. 80 aldrei.

Píanókvartett, Es-dúr op. 47. Eftir strengjakvartettana þrjá sá Schumann ástæðu til að taka aftur til við píanóverk og samdi píanókvintettinn op. 44, fyrsta verk sinnar tegundar í veröldinni, og þykir það dæmalaust vel heppnað. Aldrei fyrr né síðar reis hann jafnhátt í kontrapunkti sem hér, segir einn fræðimaður. Í kjölfarið fylgdi svo píanókvartettinn op. 47 þar sem tónskáldið freistar þess að seilast enn dýpra í hugsun og hærra í innblæstri en í kvintettnum. Afleiðingin er sú að enda þótt kvartettinn sé hið prýðilegasta kammerverk tapast léttleiki á köflum miðað við kvintettinn og tónsetning verður stundum í þykkara lagi, ekki síst vill píanóið vera allt í öllu. Píanókvartett op. 47 hefur heyrst einu sinni áður í klúbbnum, á 150. ártíð Schumanns 2006.

Sig. St.