Um efnisskrána:
Um efnisskrána:
Sextán strengjakvartettar Ludwigs van Beethovens (1770-1827) spanna öll tímabil höfundarverks meistarans. Kvartettarnir op. 18 eru frá árunum 1798-1800, Rasumowski-kvartettarnir op. 59, Hörpukvartettinn op. 74 og kvartettinn op. 95 voru samdir 1806-1810, þ.e.a.s. á miðtímabilinu og síðustu fimm kvartettarnir (1822-1826) voru með því síðasta sem tónskáldið samdi og koma á eftir 9. sinfóníunni og Missa Solemnis. Þvi má vel segja að þróun Beethovens sem tónskálds komi að miklu leyti skýrt fram í þessum mögnuðu verkum. Á kvartettunum sex op. 18 er enginn byrjandabragur. Þetta eru að vísu fyrstu verk tónskáldsins í þessu formi, en þrítugur stórsnillingur eins og Beethoven er auðvitað enginn viðvaningur. Oft hefur verið sagt að kvartettarnir op. 18 séu mjög í anda síðustu kvartetta Haydns, sem á þessum tíma hafði samið rúmlega 70 strengjakvartetta og jafnan verið talinn höfundur formsins. Og vissulega hafði Beethoven lært ýmislegt af fyrirrennara sínum - og auðvitað Mozart. En þetta er botnfastur Beethoven: kröftugur, hnyttinn, uppátækjasamur og lagrænn. Hér má heyra enduróma úr fyrstu sinfóníunum, fyrstu tveimur píanókonsertunum og fyrstu píanósónötunum. Persónuleg verk sem enginn annar gæti hafa samið.
Einar B. Pálsson (1912-2011), einn stjórnarmanna Kammermúsíkklúbbsins frá 1968, hafði Beethoven mjög í hávegum. Að hans mati voru strengjakvartettar Beethovens ein mestu afrek mannsandans og þreyttist Einar seint á að halda nafni hans á lofti.
Valdemar Pálsson
Johannes Brahms (1833-1897) var líka mikið eftirlæti Einars og í efnisskrá klúbbsins í september 1995 skrifaði Einar eftirfarandi texta um Strengjakvartettinn op. 51 nr.1:
„Vart mun neinn nýgræðingur á listabraut hafa verið kynntur með slíkum virktum sem Brahms árið 1853. Hann var þá tvítugur og ekkert hafði enn verið birt af tónsmíðum hans. En þá birtist grein um hann í Neue Zeitschrift für Musik í Leipzig eftir ritstjórann, Robert Schumann. Hann tilkynnti að hinn útvaldi væri loks kominn, m.ö.o. arftaki Beethovens. Lengst af síðan fann Brahms til þrúgandi ábyrgðar vegna þessa. „Þú veist ekki, hvernig það er að heyra stöðugt fótatak risans að baki sér“, skrifaði hann einum vini sínum síðar. Víst er, að Brahms var afar vandfýsinn um tónverk sín, hélt lengi áfram að breyta og bæta, áður en hann lét þau frá sér, og fargaði mörgum.
Brahms tók snemma að semja strengjakvartetta, en það var ekki fyrr en 1873, að hann sleppti hendi af tveimur (op. 51) til útgáfu. Þá var hann í reynd búinn að semja 20 kvartetta, en hafði fargað þeim öllum. Nú gefur aða heyra, hvernig „fyrsti“ kvartett Brahms hljómar á eftir meistaraverkum Beethovens og Schuberts“.
E.B.P.