Um efnisskrána:
Gömbuleikarinn, tónskáldið og hljómsveitarstjórinn František Ignác Antonín Tůma (1704-1774) er líkast til flestum ókunnur nú á dögum. Hins vegar hefur áhugi margra tónlistarmanna á upprunaflutningi orðið til þess að menn hafa farið að grafa dýpra í kjallara tónlistarsögunnar. Ótal skúmaskot geyma þar áhugaverða hluti og eins og vant er um kjallara og háaloft rekast menn stundum á dýrgripi.
Þegar sagan er skoðuð kemur í ljós að Tůma þessi var í talsverðumt álitum á sinni tíð í Vínarborg. Hann fæddist í Kostelec í Bæheimi og nam fyrst heimspeki hjá Jesúítum og tónsmíðar hjá Černohorský í Prag. Hann fluttist til Vínarborgar 1722 og með stuðningi Franz Ferdinands Kinsky greifa lærði hann tónsmíðar hjá J.J. Fux og varð seinna tónlistarstjóri við hirð Kinskys. Árið 1741 varð Tůma hirðtónskáld og tónlistarstjóri hjá Elisabeth Christinu, keisaraynju, þar sem hann stjórnaði framúrskarandi hópi tónlistarfólks m.a. með tónskáldið Wagenseil innanborðs. Þegar Elisabeth Christina lést 1750 lét hann af störfum og hlaut þá rífleg eftirlaun frá hirðinni. Síðustu ár ævinnar dvaldi hann í klaustri.
Tůma naut mikillar virðingar sem gömbuleikari og tónskáld. Hann er helst þekktur fyrir kirkjutónsmíðar og sérstaklega er til þess tekið hversu létt honum veittist að spyrða saman texta og tóna. Tvær messur, í d-moll og e-moll, eru taldar megintónsmíðar Tůma og eru þær jafnvel nefndar í sömu andrá og kórverk Bachs.
Sónata fyrir fjóra í a-moll er lítið og hnyttið verk. Sannkallaður eyrnaormur sem gleymist hlustandanum ekki svo auðveldlega.
Það er sama í hvaða horn tónlistarinnar er litið, Antonio Vivaldi gægist þar oftast fram. Hvort sem um er að ræða konserta, kammertónlist, óperur, einsöngsmótettur eða einsöngskantötur, alls staðar gerir Vivaldi sig gildandi.
Í veraldlegu kantötunni Vengo, a voi, luci adorate RV 682 segir frá ást sem ekki er endurgoldin. Ástmaðurinn er áhugalaus en þrátt fyrir þjáningar sínar býður hin ástsjúka kona sættir. Ekki beint frumlegt efni, enda á þessi efnisútdráttur við um 90% af veraldlegum kantötum barokktímans. Það breytir því ekki að tónlistin stendur algerlega fyrir sínu og er meðal þess fegursta sem Vivaldi samdi.
Hin dramatíska In furore iustissimae irae RV 626 er ein þekktasta mótetta Vivaldis. Hér er lýst réttmætri gremju almættisins yfir syndum mannsins, miskunnsemi Föðurins, bón um fyrirgefningu og iðrun. Eins og lög gera ráð fyrir, er fögnuðurinn yfir gæsku Guðs og mildi allsráðandi í lokahlutanum, Alleluja.
Nú er komið að síðasta kvartettinum í röð strengjakvartetta Béla Bartóks sem Camerarctica flytur fyrir Kammermúsíkklúbbinn. Þetta hefur verið ánægjuleg vegferð. Þessir seiðmögnuðu kvartettar búa yfir svo mikilli dulúð að einstakt má teljast. Bartók vefur þjóðlega tóna Ungverjalands og Balkanlandanna saman við hvasst tónmál módernismans í upphafi 20. aldar og ljóðrænu, sem á stundum er varla þessa heims.
Bartók byrjaði á sjötta kvartettinum haustið 1939 þar sem hann dvaldi í fjallabústað hljómsveitarstjórans Pauls Sacher í svissnesku Ölpunum. Dagbækur tónskáldsins benda til þess að hann hafi ætlað að enda kvartettinn á líflegum sveitadansi, en andlát móður hans, grimmdarverk nasista og tilhugsunin um að þurfa hugsanlega að yfirgefa föðurland sitt fyrir fullt og allt olli honum svo miklu hugarangri að slíkur endir var óhugsandi. Í stað þess byggði hann lokakaflan á mesto-stefinu (mesto=dapurlega), sem heyrist í upphafi þriggja fyrstu kaflanna.
Valdemar Pálsson