Um efnisskrána
Rebecca Clarke (1886-1979) fæddist á Englandi og ólst þar upp, dóttir þýskrar móður og bandarísks föður. Fjölskyldan var listræn og Rebecca lærði á fiðlu og síðan tónsmíðar í fínum skólum. Tónlistarnáminu lauk þó þegar faðir hennar, sem var harðjaxl, rak hana að heiman rúmlega tvítuga. Þá tók hún að vinna fyrir sér sem víóluleikari, bæði sem einleikari og kammerspilari; einnig fékk hún, þrátt fyrir kynferði sitt, stöðu í Queen’s Hall hljómsveitinni 1912, fyrst kvenna. Árið 1916 fluttist hún til Ameríku þaðan sem hún fór m.a. í hljómleikaferð til Hawaii og um nýlendur Breta víða um heim. Á þeim tíma hlaut hún nokkra viðurkenningu fyrir Víólu-sónötu sína (1919) og Píanótríó (1921). Árið 1924 settist Clarke aftur að í London sem hljóðfæraleikari og tónskáld, en fljótlega dró úr tónsköpun hennar því verkum hennar var tekið með tómlæti. Þegar seinna stríðið braust út var hún í New York og varð endanlega innlyksa þar í landi. Þá vaknað skáld-æðin aftur stuttlega, og frá þeim tíma (1941) er Prelude, allegro and pastorale fyrir klarinettu og víólu, ný-klassískt verk að nokkru í anda Stravinskýs. Flest verka Clarke – sönglög og kammermúsík -- eru enn aðeins til í handriti, en á seinni árum hefur áhugi vaxið á tónskáldskap hennar, enda telst hún nú meðal helstu breskra tónskálda millistríðsáranna.
Beethoven (1770-1827) var „sendur“ í heimsókn til Vínarborgar 17 ára gamall til að hitta Mozart sem á að hafa sagt: „þið skulið muna þetta nafn, þið eigið eftir að heyra það oft í framtíðinni.“ Fimm árum seinna (1792) settist Beethoven að í Vín – Waldstein vinur hans skrifaði honum: „þú skalt drekka í þig anda Mozarts gegnum Haydn!“ Auk Haydns sótti hann m.a. tíma hjá Salieri. Beethoven vakti þegar athygli fyrir kraftmikinn píanóleik og dæmalausa fimi í því að flétta af fingrum fram. Og til að koma undir sig fótum sem tónskáld samdi hann næstu árin hvers kyns hljóðfæratónlist til útgáfu — fyrir daga glymskrattans var mikil eftirspurn eftir nótum til heimabrúks. Strengjakvartettarnir sex op. 18 voru samdir á árunum 1798-1800 og frumfluttir 1801. En hin ópusnúmerin 17 telja 3 píanótríó, 10 píanósónötur, 5 strengjatríó, strengjakvintett, 2 sellósónötur, píanósónötu fyrir 4 hendur, klarínettutríóið, 3 fiðlusónötur, 1. píanókonsertinn, kvintett f. píanó og blásara, og hornsónötu op. 17. Næstu ópusar, allir frá 1800, eru 2. píanókonsertinn, Es-dúr septettinn og 1. sinfónían. — Þótt G-dúr strengjakvartettinn þyki glaðlegastur og elskulegastur hinna sex op. 18 hefur hann aðeins verið fluttur tvisvar í Klúbbnum, af kvartett Tónlistarskólans í nóvember 1957 og Märkl-kvartettnum í júní 1976.
Brahms (1833-1897) taldi sig hafa lokið ævistarfi sínu sem tónskáld, þá orðinn 58 ára, þegar hann kynntist klarinettuleikaranum Richard Mühlfeld sumarið 1891 og heillaðist svo mjög af leik hans að hann samdi fyrir hann tríó (op. 114) og kvintett (op. 115); síðar samdi hann tvær sónötur (op. 120) til viðbótar. Kvintettinn var frumfluttur í nóvember sama ár af Mühlfeld og Joachim-kvartettnum og vakti þá slíka hrifningu að Adago-kaflinn var klappaður upp. Á þessum tima geisuðu deilur fylgismanna Wagners og Brahmns sem ákafast, og Wagneristinn Georg Bernard Shaw (1892) valdi Brahms og kvintettnum hin hæðilegustu orð — sagði að óumdeilanlegir feikna-hæfileikar Brahms með nótur líkist engu öðru fremur en hæfileikum Gladstones með orð: innihaldsleysi falið í málæði. Hve oft hafa krítíkerar ekki látið hleypidóma hlaupa með sig í gönur? — Klarinettukvintett Brahms er, ásamt með kvintett Mozarts, eftirlæti klarinettuleikara. Hann er nú fluttur í áttunda sinn í Klúbbnum; af Einari Jóhannessyni í 4. sinn, en í fyrsta sinn af Agli Jónssyni 1967.
Sig. St.