
Kammermúsíkklúbburinn hefur lengi stefnt að því að veita Íslendingum tækifæri til að hlýða á strengjakvartetta Hafliða Hallgrímssonar á tónleikum. Þeir voru samdir í Bretlandi í kringum 1990 en tónskáldið lauk nýverið endurskoðun verkanna og fór þess á leit við meðlimi Coull-kvartettsins að þeir frumflyttu nýja gerð kvartettanna.
Fiðluleikarinn Roger Coull stofnaði Coull-kvartettinn ásamt þremur samnemendum sínum við Konunglegu tónlistarakademíuna í London árið 1974. Kvartettinn vakti fljótt mikla athygli í Englandi og varð staðarkvartett við Warwick-háskóla árið 1977, en þeirri stöðu heldur hópurinn enn. Kvartettinn heldur reglulega tónleika, jafnt á Bretlandseyjum sem víða um heim, og hefur leikið alla helstu strengjakvartetta tónlistarsögunnar. Auk þess hafa fjórmenningarnir frumflutt fjölda nýrra verka sem hafa verið samin sérstaklega fyrir þá. Geisladiskar kvartettsins eru á fjórða tug talsins. Í ritdómum um tónleika kvartettsins og hljóðritanir er þess oft getið að leikur fjórmenninganna einkennist af sjaldgæfri blöndu þroska og ferskleika og að samleikur þeirra sé einstaklega næmur og vandaður. Kvartettinn kemur nú til Íslands í fyrsta sinn. Auk Rogers Coull skipa kvartettinn þeir Philip Gallaway fiðla, Jonathan Barritt víóla og Nicholas Roberts selló.
Hafliði Hallgrímsson er meðal merkustu tónskálda Íslands og tónverkaskrá hans ein sú viðamesta sem íslenskt tónskáld getur státað af. Hafliði hefur búið og starfað á Bretlandseyjum frá sjöunda áratug síðustu aldar og nýtur þar mikillar virðingar. Hann hóf feril sinn sem sellóleikari en hefur helgað sig tónsmíðum að fullu síðustu þrjátíu ár. Verk Hafliða fyrir strengjahljóðfæri eru sérstaklega rómuð, hvort sem um er að ræða konserta, einleiksverk eða kammerverk á borð við strengjakvartettana tvo.
Kammermúsíkklúbburinn var stofnaður árið 1957 og heldur að jafnaði fimm tónleika á hverjum vetri í Norðurljósasal Hörpu. Tónleikarnir eru í áskrift fyrir félaga klúbbsins, en öllum opnir. Klúbburinn hefur allt frá upphafi leitast við að auðga starfsemi félagsins, og um leið íslenskt tónlistarlíf, með heimsóknum erlendra flytjenda. Tónleikar Coull-kvartettsins á sunnudaginn eru liður í þessari mikilvægu viðleitni.
Halldór Hauksson