Um efnisskrána
Strengjavartett nr. 1 var saminn að beiðni Peders Elbæk, leiðara Carl Nielsen-kvartettsins, og frumfluttur vorið 1989 í litlum bæ á Fjóni, í námunda við fæðingarstað Carls Nielsen.
1. Eftir hraða og kraftmikla byrjun er margslungið efni þáttarins kynnt í stuttum einingum, sem brátt eru teknar fyrir hver af annarri og unnið úr þeim líkt og á sér stað í úrvinnslukafla í klassísku sónötuformi. Hæg eining tekur við þar sem fiðlurnar, á móti saltando-undirleik víólu og sellós, ræðast við af vaxandi ákafa sem leiðir endanlega að kröftugum hápunkti. Þættinum lýkur svo með frjálslegri hugleiðingu sellósins sem leiðir að snöggu og hljómmiklu niðurlagi.
2. Fíngerður vefur flaututóna, hægfara glissando og annarlegt muldur skapa frá upphafi andrúmsloft næturljóðs þar sem "ráfað" er um tónsvæði hægt og hikandi eins og í leit að óvæntum ævintýrum. Fyrsta fiðla leikur að lokum sérkennilega laglínu sem samanstendur að mestu af áttundum og leiðir þáttinn brátt að hljóðu niðurlagi.
3. Ostinato er einkennandi fyrir þennan þátt, sem er í rauninni í ætt við hægferðugt "scherzo", og mætti ímynda sér niðurlútan mann á göngu, þar sem óæskilegir einstaklingar slást í för með honum og herma eftir göngulagi hans. Oft slær í brýnu og deilur brjótast út en dapurlegt göngulag hans er samt það síðasta sem á sér stað líkt og einskisverður sigur.
4. Síðasti þátturinn nær á köflum að vera hraðastur allra þáttanna og er um leið sá flóknasti. Hann samanstendur af mörgum einingum sem hafa hver sín ákveðnu einkenni og tengjast oft saman með þrálátum síendurteknum tríólum sem hóta stundum að taka völdin. Enn er vitnað í rytmíska einingu sem hefur gert vart við sig nokkrum sinnum áður, oftast á dramatískan hátt, en er nú leikin veikt og allt að því stríðnislega eins og verið sé að gera grín að öllu því sem á undan er gengið.
Strengjakvartett nr. 2 er í fjórum þáttum, tileinkaður minningu píanóleikarans Bryns Turley.
1. Yfir fyrsta þættinum hvílir blær tómleika og trega. Sellóið hefur upp rödd sína hikandi í mislöngum strófum frá dýpstu nótu hljóðfærisins og nær smátt og smátt dramatískum hápunkti þar sem allur kvartettinn sameinast í kraftmiklum og snörpum hljómum. Líkt og um ritúal (helgiathöfn) sé að ræða eru pizzicato-hljómar og annarleg munstur endurtekin í sífellu og leiða endanlega að hljóðlátu niðurlagi þar sem djúpa C-ið, leikið af sellóinu, tengir niðurlagið við upphaf þáttarins.
2. Eftir hægan inngang heyrast stefbrot úr fyrsta þætti sem hægt og sígandi tengjast hvert öðru og mynda langvarandi laglínu sem leiðir endanlega að prósessíu (helgigöngu) sem endar hljóðlega seint og um síðir.
3. Þriðji þátturinn einkennist af óróa þar sem stef, byggð á litlum og stórum þríundum, flögra á milli hljóðfæranna á miklum hraða þar til þau sameinast endanlega í dramatískri einraddaðri strófu sem tekur flugið, stefnir af einurð uppávið, en endar svo skyndilega án svars sem sífellt hefur verið leitað að fram að þessu.
4. Vaknandi vonir og tilfinning um sátt er einkennandi fyrir upphaf síðasta þáttarins. Þegar fram í sækir leikur sellóið tremólóstrófur á C-strengnum, ofurveikt, sem smitar útfrá sér og víóla og fiðlur taka upp og framlengja vel og lengi. Skarpar áherslur eru felldar inn í þennan tremólóvef á óvæntum stöðum og minna á ritúalið í fyrsta þætti en nú er líkt og ritúalið leysist upp og falli eins og fjötrar. Allur kvartettinn sameinast að lokum í síhækkandi upphlaupum og upphafningu sem enda í efstu stillingum í löngum tremólóhljómi. Í sátt og samlyndi leikur kvartettinn síðan veika hljóma þar sem sellóið vitnar í síðasta sinn í djúpa C-ið en nú blíðlega og án trega.
Hafliði Hallgrímsson
Eftir Claude Debussy (1862-1918) liggur fjöldinn allur af tónverkum og eru píanótónlistin og sönglögin hvað fyrirferðarmest. En hljómsveitarverkin Prélude à l‘après midi d‘un faune og La mer líkast til þau verk Debussys sem oftast heyrast á tónleikum - auk strengjakvartettsins í g-moll (1893), sem var þriðja kammerverk Debussys af níu. Hann hafði reyndar hugsað sér að semja fleiri strengjakvartetta, eins og nafnið „Premier quatuor en sol mineur“ gefur óneitanlega til kynna, en úr því varð ekki. Debussy þjáðist enda af alvarlegu þunglyndi, sem setti honum miklar skorður síðustu árin og við það bættist krabbamein sem dró hann til dauða árið 1918.
Debussy hefur almennt verið talinn megintónskáld impressíónismans, en það hugtak, sem kemur frá franskri málaralist á seinni hluta 19. aldar, var heimfært upp á tónlist. Sjálfur var Debussy ósáttur við að menn notuðu hugtakið um tónlistina hans, og reyndar taldi hann hugtakið almennt ofnotað, líka um málaralist. Einkum af gagnrýnendum („imbéciles“ skv. Debussy).
Valdemar Pálsson