Um flytjendur
Á tónleikunum 1. mars 2015 kemur Sigrún Eðvaldsdóttir fram hjá Kammermúsíkklúbbnum í 33. sinn og Bryndís Halla Gylfadóttir í 34. sinn. Báðar hófu feril sinn hjá klúbbnum í janúar 1983 á vegum Tónlistarskólans í Reykjavík. Nú leika þær saman hjá klúbbnum í 15. sinn, þar af spilað saman 12 sinnum í kvartett, tvisvar í tríói og einu sinni í oktett. Með þeim í kvartettnum hefur Zbigniew Dubik oftast spilað 2. fiðlu (9 sinnum) og þær Helga Þórarinsdóttir og Þórunn Ósk Marínósdóttir víólu (4 og 6 sinnum). Á tónleikunum 1. mars skipa kvartettinn Sigrún, Joaquin Páll Palomares, Ásdís Valdimarsdóttir og Bryndís Halla.

Eftirfarandi er í aðalatriðum af Netinu:
Sigrún Eðvaldsdóttir (f. 1967) hóf fiðlunám 5 ára gömul hjá Gígju Jóhannsdóttur en lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1984 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur og tók Bachelor-gráðu frá Curtis tónlistarháskólanum í Philadelphiu 1988. Hún hefur tekið þátt í fjölda alþjóðlegra fiðlukeppna; varð í öðru sæti í Leopold Mozart keppninni árið 1987, hlaut bronsverðlaun í Síbelíusar keppninni árið 1990 og önnur verðlaun í Carl Flesch keppninni árið 1992. Sama ár hlaut hún bjartsýnisverðlaun Brøste. Hennar er getið sem eins af áhugaverðustu fiðluleikurum framtíðarinnar í bók Henry Roth: Violin Virtuosos from Paganini to the 21st Century. Hún hefur gegnt stöðu 1. konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 1998 og margoft komið fram sem einleikari með hljómsveitinni. Árið 1998 var Sigrún sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir störf sín á sviði tónlistar.
Joaquin Páll Palomares (f. 1987) stundaði nám við Tónlistarskólann í Kópavogi, Listaháskóla Íslands og tónlistarháskóla Hanns Eisler í Berlín og starfar nú með Kammersveitinni i Randers í Danmörku. Hann hefur komið fram sem einleikari með Sinfóniuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Alicante á Spáni. (Mbl. 7. júlí 2014)
Ásdís Valdimarsdóttir (f. 1962) lauk BM- og MM-gráðum við Juilliard School í New York; víólukennarar hennar voru Paul Doktor og William Lincer en kammermúsík-kennarar Felix Galimir og félagar Juilliard-kvartettsins. Framhaldsnám stundaði hún hjá Nobuko Imai í Detmold, Þýskalandi, þar sem hún var einleiks-víóla Deutsche Kammer Akademie. Síðan sneri hún aftur til Bandaríkjanna þar sem hún var prófessor í víóluleik við New World School of the Arts og stofnaði ásamt fleirum Miami-strokkvartettinn. Árið 1990 tók hún við stöðu fyrsta víóluleikara Deutsche Kammerphilharmonie Bremen og frá 1995 til 2003 var hún víóluleikari Chilingirian-strokkvartettsins. Á ferli sínum hefur hún sótt fjölda tónlistarhátíða, spilað með nafnfrægum meisturum og fengið mörg verðlaun. Hún býr nú í Amsterdam en kennir víóluleik í Manchester og Den Haag.
Bryndís Halla Gylfadóttir (f. 1964) kom fyrst fram hjá Kammermúsíkklúbbnum í janúar 1983, þá nemandi í Tónlistarskólanum; tónleikarnir í mars 2015 verða hinir 34. hennar hjá klúbbnum. Bryndís Halla lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1984 undir handleiðslu Gunnars Kvaran. Eftir það hélt hún til náms í Boston við New England Conservatory þar sem kennarar hennar voru Lawrence Lesser og Colin Carr. Hún lauk þar Mastersnámi árið 1989. Árið 1990 tók Bryndís Halla við leiðandi stöðu sellóleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gegnir því starfi nú. Bryndís Halla hefur verið virkur þátttakandi í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár, jafnt sem einleikari og í kammertónlist. Hún er félagi í Trio Nordica, Ethos kvartettinum, Caput hópnum, sem og kvartett sem undir stjórn Sigrúnar Eðvaldsdóttur hefur spilað 11 sinnum fyrir Kammermúsíkklúbbinn. Hún hefur leikið inn á fjölda geisladiska. Auk þess að leika á tónleikum hér á landi spilar Bryndís reglulega á tónleikum bæði í Evrópu og Asíu.