Um efnisskrána:
Einar B. Pálsson (1912-2011) var mikill áhugamaður um sígilda tónlist og sat í stjórn Kammermúsíkklúbbsins í áratugi. Þar lét hann mjög til sín taka, var jafnan skeleggur talsmaður meistara strokkvartettsins á 18. og 19. öld, og allra mest Beethovens sjálfs. Því þykir stjórn Kammermúsíkklúbsins við hæfi að helga þessa síðustu tónleika vetrarins 2014-15 minningu Einars með flutningi fyrsta og síðasta kvartetts Beethovens og frumsömdum kvartett Olivers Kentish tileinkuðum honum.
Oliver Kentish skrifar: Á tuttugustu öldinni auðgaði rússneska tónskáldið Dmitri Shostakovich strengjakvartettaformið og það er andi hans sem svífur yfir vötnum í verki mínu.
Undanfarin ár hef ég haft það fyrir venju að semja einn strengjakvartett að sumri í kjölfar vetrar sem helgast af kennslu, æfingum og tónleikum. Reyndar hafði ég ekki samið kvartett ársins þegar ég frétti af andláti Einars Pálssonar í október 2011 og ákvað að hefjast handa og tileinka verkið minningu hans. Verkið ber yfirskriftina “Against the dying of the light”, úr ljóðinu “Do not go gentle into that good night” eftir velska ljóðskáldið Dylan Thomas.
Verkið er í einum kafla sem skiptist niður í fjóra þætti líkt og einkennir klassíska formið. Upphafsþátturinn er hægur og alvarlegur, Largo sostenuto, og leiðir inn öllu léttari þátt, allt að því duttlungafullan, sem kallast á við skertsó og tríó klassíska formsins. Þá kemur lágstemmdur en mjög tilfinningaþrunginn þáttur, í reynd kjarni verksins, Largo. Síðasti þátturinn, Allegro molto, er hraður; aggressívar sextandapartsnótur yfir hvössum hljómum; um miðbik hans lægir öldur en ákafinn tekur við á ný og verkið endar með látum.
Fróðir menn segja að kammerverk Beethovens, og sérstaklega16 kvartettar hans, hafi gjörbreytt veröld tónlistarinnar ef svo má segja. Verk hans höfðu djúpstæð áhrif á vinnu tónskálda og flytjenda, og á afstöðu áheyrenda til kammertónlistar -- Aldous Huxley hélt því meira að segja fram að tónlist Bítlanna væri Beethoven að kenna!
Fyrir tilkomu glymskrattans var aðeins til „lifandi tónlist“ og fram eftir 19. öld var mikill markaður fyrir kammerverk sem vinir og áhugamenn gátu spilað sjálfir. Áheyrendur, ef einhverjir voru, hlustuðu með öðru eyranu og sennilega oft fyrir kurteisis sakir. En nú er öldin önnur, og félagar Klúbbsins koma saman a.m.k. fimm sinnum á vetri til að hlusta, oftast með andakt, á kammertónlist, auk þess sem margir sækja aðra slíka tónleika og hlusta á flutning afreksmanna á margskonar hljómflutningstækjum. Fyrrum framleiddu tónskáldin, sem nú eru flest gleymd, léttvæg verk „á færibandi“ handa fólkinu til að spila. Beethoven breytti þessu: Haydn samdi 83 strengjakvartetta (sem margir eru gimsteinar) en Brahms 3, og kvartettar fárra tónskálda eftir Beethoven hafa leyst tuginn (Schostakovich samdi þó 15). Loks gerðu kvartettar Beethovens aðrar og meiri tækniskröfur til flytjenda en verk fyrri tónskálda – síðustu kvartettar hans voru löngum taldir nánast óspilandi.
Beethoven var þrítugur 1801 þegar hann gaf út fyrstu sinfóníu sína og fyrstu sex strengjakvartetta op. 18, tileinkaða Jósef von Lobkowitz prinsi. Áhrif Haydns og Mozarts, hans miklu fyrirrennara, þykja ekki leyna sér, en þó er margt með öðrum brag og vísar í átt til þess sem síðar átti að verða. Til dæmis byggist fyrsti kafli op. 18 nr. 1 að mestu á stefbroti, rúmlega eins takts löngu, ólíkt syngjandi stefjum fyrirrennaranna. Og hver einasti hinna 16 kvartetta Beethovens þykir opna nýjar gáttir, nýja tónlistarlega hugsun.
Aldarfjórðungur leið milli fyrsta og síðasta strengjakvartetts Beethovens, op. 135 (1826) sem jafnframt var síðasta verkið sem hann lauk við. Í þeim kvartett er óvæntur léttleiki miðað við hina kvartettana sem hann samdi eftir 9. sinfóníuna (1824), því hér tekur Beethoven ofan fyrir meistara Haydn „og gerir sumt jafnvel og hann, en sumt betur“ eins og einn fræðimaður skrifaði.
Fyrstir fluttu op. 18,1 hjá Kammermúsíkklúbbnum félagar Kvartetts Tónlistarskólans í Reykjavík, Björn Ólafsson, Jón Sen, Ingvar Jónasson og Einar Vigfússon, í september 1970, en op. 135 flutti fyrst hjá klúbbnum Märkl-kvartettinn frá München í júní 1976. Björn og félagar voru tíðir gestir hjá klúbbnum fyrstu áratugina og fluttu m.a. marga af kvartettum Beethovens, fyrst op. 18,2 haustið 1957. Og svo er Birni og fleirum frumkvöðlum að þakka að nú fara íslenskir spilarar „létt með“ kvartetta Beethovens, Shostakovich og Bartóks, svo dæmi séu nefnd.
Sig. St.