Um efnisskrána:
Tónskáldið, fræðimaðurinn og kennarinn Anton Reicha fæddist í Prag 1770 og var því jafnaldri Beethovens. Vegna fjölskylduerfiðleika var honum komið í fóstur til frænda síns, Joseph Reicha, sem kenndi honum á fiðlu og flautu og undirstöðuatriði í tónlistarfræðum. Hann fluttist með honum til Bonn 1784, þegar Joseph Reicha tók við stöðu tónlistarstjóra við hirð kjörfurstans í Bonn. Þar kynntist Reicha Beethoven og Haydn. Á árunum 1794-1799 starfaði hann í Hamborg, 1799-1802 í París og 1802-1808 í Vínarborg. Hann settist að í París árið 1808. Þar varð Reicha prófessor við tónlistarháskólann 1818 og naut vinsælda meðal nemenda fyrir vandaða kennslu og víðsýni en átti hins vegar í stirðara sambandi við ýmsa kollega úr tónskáldastétt. Meðal nemenda hans í París voru þeir Liszt, Gounod, Berlioz og César Franck. Reicha bjó í París til dauðadags 1836. Eftir Reicha liggur fjöldi tónverka, m.a. 16 sinfóníur, 20 strengjakvartettar og fjöldi annarra kammerverka einkum fyrir blásara, sem honum var einkar lagið að semja fyrir. Blásarakvintettarnir sex op. 88 urðu til á árunum 1811-1817 og þykja snilldarvel samdir fyrir þessi hjóðfæri. Kvintettinn nr. 2, saminn 1814, er þeirra þekktastur.
Þegar hugað er að lífsverki Beethovens koma strax upp í hugann sinfóníurnar, píanósönöturnar, píanókonsertarnir og strengjakvartettarnir. Í flestum þessara verka er Beethoven risinn, sá eini sanni og óumdeildi. En Beethoven var líka, líkt og annað dauðlegt fólk, eitt sinn ungur og leitandi. Hann samdi Kvintettinn fyrir blásara og píanó op. 16 árið 1796. Þar er hið unga tónskáld enn að finna sér eigin rödd. Engum vafa er undirorpið að fyrirmynd Beethovens er Kvintett Mozarts K 452 í sömu tóntegund og fyrir sömu hljóðfæraskipan frá árinu 1784. Uppbygging verkanna er einnig áþekk, bæði verkin eru í þremur köflum og bæði hefjast á hægum inngangi. En í kvintett Beethovens leikur enginn vafi á því að þarna er á ferðinni píanóleikari sem er að semja verk sem hann ætlar sjálfur að spila og heilla áheyrendur með. Það sem tónskáldið hefur komist að eftir að hafa unnið að þessu verki er að píanóið er hans hljóðfæri sem hann ætlar sér stóra hluti með. En kammertónlist með blásturshljóðfærum var ekki hans svið. Hefði reyndar gjarnan mátt vera það, ef svo vel hefði tekist til og með kvintettinn op. 16.
Högni Egilsson (f. 1985) er einn okkar vinsælustu tónlistarmanna og hefur náð að byggja brýr á milli dægurtónlistar og sígildrar tónlistar með hljómsveitinni Hjaltalín og samvinnuverkefnum hljómsveitarinnar við m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska dansflokkinn.
Högni lauk tónsmíðanámi frá LHÍ 2008. Árið 2007 hlaut hann Íslensku tónlistarverðlaunin ásamt hljómsveitinni Hjaltalín. Árið 2009 var önnur plata Hjaltalín, Terminal, valin plata ársins. Niðurlag gagnrýni The Sunday Times um geislaplötu Hjaltalín, Enter 4, í ágúst 2013 var: „ ... this is one of the most extraordinary albums I've ever heard. A masterpiece“.
Um verk sitt „Andartak Tetiönu Chornovol” segir Högni eftirfarandi:
Tetiana Chornovol var úkraínskur aktivisti og blaðakona sem lést um jólin síðastliðin af völdum barsmíða í Kænugarði. Hún hafði þá nýlokið grein um spillingu innan stjórnsýslunnar. Atvikið vakti sterk viðbrögð, bæði í Kænugarði og annarsstaðar í heiminum. Borgarastyrjöld geisar nú í Kænugarði.
Francis Poulenc var yngstur meðlima tónskáldaklíkunnar „Les six“ sem starfaði í París á þriðja áratug 20. aldar. Hann var að mestu leyti sjálfmenntaður sem tónskáld. Hann sló í gegn með ballettinum „Les biches“ árið 1924 sem settur var upp af danshópi Diaghilevs, Ballet Russes. Poulenc átti eftir að semja tónlist af flestum gerðum, svo sem píanótónlist, kammertónlist, sönglög, trúarlega tónlist og óperur. Kímni, glens og góðlátleg kaldhæðni einkennir mörg verka Poulencs, en í höfundarverki hans má einnig finna mikla dýpt, trúarlegan innileika og drama. Poulenc hóf að semja Sextettinn fyrir blásarakvintett og píanó FP 100 árið 1932 en endanleg gerð hans leit ekki dagsins ljós fyrr en 7 árum síðar. Verkið er mikið til í anda hins glaðlega stíls Poulencs, en þó veit maður aldrei á hverju er von. Hvað eftir annað kemur tónskáldið á óvart með mjög svo snöggum breytingum á andblæ.
Valdemar Pálsson