Um efnisskrána:

Georg Philipp Telemann er vafalaust eitt stórvirkasta tónskáld allra tíma. Löngum hefur samtímamaður hans, Johann Sebastian Bach, þótt duglegur en bliknar þó í samanburði hvað varðar afköst. Svo dæmi séu tekin: Kirkjukantötur (Bach u.þ.b. 200, Telemann u.þ.b. 2000),  hljómsveitarsvítur (Bach 4, Telemann 26), passíur (Bach 3, Telemann 52).  Það hefur gjarnan viljað loða við umfjöllun um „duglegu“ tónskáldin að gæðin séu æði misjöfn. Telemann hefur mátt þola sinn skerf af fordómum, einkum í fyrri tíð, og þá helst frá þeim sem minnst þekktu af tónlist hans. Þetta hefur sem betur fer breyst í seinni tíð. Menn hafa nú gert sér grein fyrir þeim ótrúlega fjársjóði sem felst í tónverkum Telemanns. Og enn finnast nýir fjársjóðir. Telemann samdi hátt á fjórða hundrað kammerverk, svo þar er af nógu að taka. Tríósónatan TWV42:F8 er í 4 köflum og gætir þar ítalskra, þýskra og  jafnvel franskra stíláhrifa barokktímans.

Talið er að  Händel og skáldið Barthold Heinrich Brockes (1680- 1747)  hafi þekkst allt frá námsárum þeirra í Halle. Händel samdi einu passíu sína við hinn safaríka texta Brockes, „Der für die Sünden der Welt gemartete und sterbende Jesus“, sem tónskáldin Reinhold Keiser og Georg Philipp Telemann  höfðu líka notað.  Textarnir við „9 aríur við þýska texta“ koma úr ljóðasafninu „Irdisches Vergnügen in Gott“ (1721-24). Händel samdi aríurnar á árunum 1724 til 1727 og hugsaði þær ekki sem samfellt söngverk heldur sjálfstæðar aríur eða sönglög. Händel fluttist til Englands árið 1720 og tók upp enskt ríkisfang 1727. Á þessum árum samdi hann nánast eingöngu óperur við ítalska texta og  eftir það einbeitti hann sér að „ensku“ óratoríunum. Þýsku aríurnar eru það síðasta sem hann samdi við texta á móðurmáli sínu. Eftirtektarvert er að Händel þótti ekki ástæða til að gefa aríurnar út meðan hann lifði  en þær litu ekki dagsins ljós á prenti fyrr en árið 1921. Nú á dögum njóta þær talsverðra vinsælda og eru oft fluttar  stakar eða í heild sinni.  Í kvöld flytur  Camerarctica-hópurinn „Süsse Stille, sanfter Quelle“ HWV 205,  Singe, Seele, Gott zum Preise“ HWV 206  og In der angenehmen Büschen“  HWV 209 og lýkur þar með flutningi sínum á þessum ágætu kammersönglögum.

Johann Nepomuk Hummel  var fljótur að gleymast eftir að hafa notið mikillar virðingar í lifandi lífi, bæði sem tónskáld og hljóðfæravirtúós. Með aukinni hljóðritaútgáfu hefur hins vegar margt breyst síðustu árin og verk Hummels má nú finna alls staðar þar sem hlustað er á góða tónlist. Hummel var undrabarn. Hafði lært nótur 4 ára, náð mikilli leikni á fiðlu 5 ára og þótti snillingur á píanó 6 ára. 8 ára varð hann nemandi Mozarts í Vínarborg. Fyrir hvatningu Mozarts  lagði hann 9 ára að aldri upp í  fyrstu tónleikaferð  sína um Evrópu ásamt föður sínum, sem endaði í London, þar sem hann hitti Clementi og sótti tíma hjá honum næstu árin. Árið 1793 sneri hann aftur til Vínar og nam  tónsmíðar  hjá Haydn, Albrechtsberger og Salieri. Hummel gegndi ýmsum virðingarstöðum í tónlistarlífi Evrópu, var m.a. tónlistarstjóri hjá Esterházy greifa. Auk þessa var hann talinn einn mesti píanósnillingur samtímans, ferðaðist víða og hélt tónleika sem slíkur. Hummel var góðvinur Beethovens og Schuberts, sem tileinkaði honum þrjár síðustu píanósónöturnar. Klarínettukvintettinn S78  var fyrst fluttur í september árið 1808 meðan Hummel var tónlistastjóri hjá Esterházy greifa. Handrit verksins og eina frumgerð er varðveitt í British Library í London.

Béla Bartók samdi annan strengjakvartettinn á árunum 1915-17 og hafði þá liðið hartnær áratugur frá þeim fyrsta. Ýmis önnur tónlistarform voru honum ofarlega í sinni á þessum árum. Áhugi á þjóðlegri tónlist hafði vaknað og tvö af þekktustu sviðsverkum hans höfðu litið dagsins ljós í millitíðunni, ballettinn „Tréprinsinn“ og óperan „Kastali Bláskeggs“. Kvartettinn er í þremur mjög svo ólíkum köflum. Fyrsti kafli er þungbúinn, meðalhraður og þrunginn spennu, síðan tekur við hvass scherzo-kafli sem byggir á þjóðlegum ryþmum. Verkið endar á hægu harmljóði sem laust er frá tíma og stað.

Valdemar Pálsson