Um efnisskrána
Ludwig van Beethoven. Á síðasta tímabili starfsævi Beethovens urðu ný tónverk hans stærri í sniðum og þungvægari en áður hafi þekkst, fjórar síðustu píanósónöturnar, níunda sinfónian og Missa solemnis – og að lokum sex strangjakvartettar, sem urðu tónlistar-testament hans. Af þeim eru þrír stærstir í sniðum, op. 130, 131 og 132, og löngum voru þeir taldir nánast óspilandi og mjög erfiðir áheyrnar. Eftir seinna stríð tóku kvartettar Bartóks þann „virðingarsess“, og á seinni árum sennilega einhver nútímamúsík. En séu síðustu kvartettar erfiðir áheyrnar eru þeir þó áreynslunnar virði því með gildum rökum má segja að þeir séu fullkomnustu verk mannsandans á þessu sviði. Þegar Beethoven samdi op. 132 hafði hann verið sjúkur og þótt horfa þunglega um líf sitt, en náð sæmilegri heilsu á ný. Hægi kaflinn (hinn þriðji af fimm) ber yfirskriftina „Heilagur þakkaróður til Guðdómsins frá manni, sem hefur fengið bata á ný – í lýdiskri tóntegund.“ Lýdiska tóntegund má heyra, ef slegnar eru hvítu nóturnar á píanói og byrjað á F. Lýdía var í fornöld nafn á ríki vestast í Litlu-Asíu.
Juan Crisóstomo de Arriaga y Balzola fæddist 1806 í Bilbao á Spáni, undrabarn í tónlist. Þegar hann var aðeins 11 ára, voru tónsmíðar hans farnar að vekja athygli og hann fékk inngöngu í tónlistarháskólann í París 15 ára. Þegar Arriaga var 18 ára, samdi hann þrjá strengjakvartetta sem hlutu mikið lof, og var höfundi spáður mikill frami. En Arriaga dó úr berklum í París 19 ára gamall. Þá brugðust vonir um að Spánverjar eða Frakkar væru að eignast sinn Mozart.
Arriaga var samtímamaður Beethovens og Schuberts. Eins og þeir – og reyndar einnig Mozart – studdist hann við fordæmi Haydns í kvarterttsmíðinni. Kvartettar hans bera með sér mikinn þokka. Tveir þeirra, nr. 1 og 3, hafa áður verið fluttir hjá Kammermúsíkklúbbnum, en nú heyrist nr. 2 í fyrsta sinn.
Johannes Brahms. Vart mun neinn nýgræðingur á listabraut hafa verið kynntur með slíkum virktum sem Brahms árið 1853. Hann var þá tvítugur og ekkert hafði enn verið birt af tónsmíðum hans. En þá birtist grein um hann í Neue Zeitschrift für Musik í Leipzig eftir ritstjórann, Robert Schumann. Hann tilkynnti að hinn útvaldi væri loks kominn, m.ö.o. arftaki Beethovens. Lengst af síðan fann Brahms til þrúgandi ábyrgðar vegna þessa. „Þú veist ekki hvernig það er að heyra stöðugt fótatak risans að baki sér“, skrifaði hann einum vini sínum síðar. Víst er að Brahms var afar vandfýsinn um tónverk sín, hélt lengi áfram að breyta þeim og bæta áður en hann lét þau frá sér, og fargaði mörgum.
Brahms tók snemma a semja strengjakvartetta, en það var ekki fyrr en 1873 að hann sleppti hendi af tveimur (op. 51) til útgáfu. Þá var hann í reynd búinn að semja um 20 kvartetta, en hafði fargað þeim öllum. Tveimur árum síðar kom þriðji og síðasti kvartett hans, í B-dúr op. 67.
EBP / Sig. St.