Um efnisskrána:

Bach samdi flest veraldleg verk sín í Köthen þar sem hann var tónlistarstjóri hjá hinum músíkalska Leópold prins af Anhalt-Köthen árin 1717-23. Meðal þeirra voru knéfiðlu-samstæðurnar sex sem margir álíta nú afbragð slíkra einleiksverka. Bach mun hafa samið þær fyrir sellóleikara í hljómsveit prinsins, Bernhard Christian Lingigke, sem sagður var frábær spilari. Fyrir 1900 voru svíturnar þó lítt þekktar nema sem fingraæfingar fyrir sellóleikara, en á því varð breyting þegar Pablo Casals, þá 13 ára, rakst á eintak af nótunum í skranbúð í Barcelóna. Nóturnar hafði átt þýskur sellóleikari og tónskáld, Grützmacher að nafni, sem hafði spilað þær og „endurbætt“ með ýmsu móti. Eiginhandarnótur Bachs eru engar til af svítunum, en handskrifuð eftirskrift Önnu Magdalenu, konu hans, er talin vera nákvæm þótt allar vísbendingar un túlkun vanti, t.d. hvort spila skuli bundið, sterkt eða veikt. Af þeim sökum leika hinir ýmsu flytjendur nokkuð hver með sínu móti.

Pablo Casals byrjaði snemma að flytja svíturnar á tónleikum en féllst þó ekki á að spila þær inn á hljómplötur fyrr en árið 1936 þegar hann stóð á sextugu. Vinsældir svítanna uxu þó fyrst að marki eftir að Casals spilaði þær allar á plötur árið 1939.

Aðalflytjandi einleikssvítanna hjá Kammermúsíkklúbbnum í tæp 40 ár var hálflandi vor Erling Blöndal Bengtson sem flutti þær fjórum sinnum allar í senn og fimm sinnum eina eða tvær, fyrst nr. 6 í D-dúr í júní 1958 og síðast hina sömu í september 1996. Aðrir sem flutt hafa svíturnar hjá klúbbnum eru Einar Vigfússon (nr. 3 í febrúar 1962) og Gunnar Kvaran (nr. 5 í nóvember 2000).

Í janúar 1965 flutti Halldór Laxness í útvarpi landsmanna „Morgunhugleiðingar um Bach (við flutning Erlings Blöndals Bengtson á knéfiðlu-samstæðum Bachs).“ Þar segir hann meðal annars um tónlist og orðsins list:

„Við skulum taka dæmi af sellósvítunum eftir Jóhann Sebastían Bach, sex samstæðum tónverkum fyrir einsamla hnéfiðlu, sem frændi okkar og vinur Erling Blöndal Bengtson ætlar að leika hér í útvarpið í dag og á fimm næstum sunnudagsmornum. Hverju fá orð aukið við þetta verk? Hvað tjáir þessi einfalda og stórbrotna tilraun í laglínu sem er um leið svo óhemjulega smágerð og næm? Þó grant sé hlustað æ ofaní æ, og þó undrun og aðdáun þess sem hlustar verði æ því meiri sem hann hlustar leingur, þá heldur þó aðalatriðið að vera jafn óuppgötvað og það er óumræðilegt. Menn geta sosum reynt að svara í orðum, og það hefur sjálfsagt oft verið gert, en ætli flest svörin verði öllu meira en endurtekníng, að breyttu breytanda, á svörum við gömlu spurníngunni: til hvers er sólin túnglið og stjörnurnar?“

Sig. St.