Um efnisskrána
Sergei Prokofiev telst til heldri tónskálda 20. aldar. Sem afburðanemandi við tónlistarháskóla St. Pétursborgar varð hann þekktur fyrir að spila eigin framúrstefnuleg verk á píanó og hélt þeim hætti fyrst eftir nám. Árið 1914 kynntist hann Diaghilev í París og samdi ballett fyrir dansflokk hans. Eftir byltinguna kvaddi Prokofiev Rússland með samþykki stjórnvalda og bjó næstu tvo áratugi í Bandaríkjunum, Þýskalandi og París, en sneri aftur heim 1936. Þar gekk honum misvel að fella tónsmíðar sínar að smekk stjórnvalda, en yngri flytjendur studdu hann, m.a. píanistinn Richter og sellistinn Rostrópóvich.
Þekktustu verk Prokofievs eru 5 píanókonsertar, 9 píanósónötur og 7 sinfóníur, en þar fyrir utan samdi hann margvíslega tónlist, þ.á.m. nokkrar óperur. Flautusónötuna op. 94 samdi hann 1943 og umritaði hana síðan fyrir fiðlu (op. 94a) sem David Oistrakh frumflutti, og þannig mun hún vera þekktari.
Bára Grímsdóttir:
Verkið Gangan langa er tileinkað 3 konum úr Íslandssögunni sem allar gengu langar vegalengdir. Verkið er í 3 köflum - 1. Ljósmóðir, 2. Móðir, 3. Ættmóðir.
1. kafli vísar til Rósu Guðmundsdóttur (Skáld-Rósu) 1795-1855. Hún var yfirsetukona, lærði fræðin fyrst hjá móður sinni á unglingsaldri, en síðar hjá landlækni á Seltjarnarnesi, ein fyrsta konan sem vann ljósmóðureiðinn hér á landi. Hún flutti landshorna á milli. Starfinu og flutningunum fylgdu margar og langar göngur. Haustið 1855 hóf hún síðustu göngu sína frá Trékyllisvík og var ætlunin að fara suður Arnarvatnsheiði til Hafnafjarðar en hún veiktist á leiðinni og lést á Efra Núpi í Miðfirði og er grafin þar.
2. kafli vísar til Guðríðar Símonardóttur 1598- 1682. Hún fæddist í Vestmannaeyjum. Árið 1627 hertóku sjóræningjar um 400 íslendinga og fluttu þá nauðuga suður til Alsír og seldu í þrældóm. Guðríður og ungur sonur hennar voru ein af þeim. 9 árum síðar varð hún viðskila við son sinn er hún var leyst úr ánauð. Leiðin lá til Íslands, stefnan tekin norður, löng ganga gegnum Frakkland, sigling til Kaupmannahafnar þar sem sem hún hitti Hallgrím Péturson sem varð svo eiginmaður hennar.
3. kafli vísar til Guðríðar Þorbjarnardóttur (980-1050), konu Þorfinns karlsefnis. Hún var landkönnuður og ein víðförlasta kona miðalda. Hún fæddist á Ísland, bjó einnig á Grænlandi og Vínlandi. Talið er að hún sé fyrsta Evrópska konan sem fæddi barn í Ameríku. Sögur herma að hún hafi siglt átta sinnum yfir úthöf og gengið píslagöngu yfir þvera Evrópu til Rómar. Guðríður hefur oft verið nefnd „ættmóðirin“. Má heyra drifkraftinn í lífi hennar í tónlistinni.
Elín Gunnlaugdóttir:
Verkið Haustvísur var skrifað síðsumars og haustið 2013. Verkið skiptist í þrjá kafla og byggir hver þeirra á einni stemmu úr Silfurplötusafni Iðunnar. Heiti hvers kafla er dregið af vísunum sem oftast eru kveðnar við stemmurnar.
Fyrsti kaflinn verksins ber heitið Haustið líður óðum á. Kaflinn er hægur, en í vísunum er fjallað um veðrabrigðin sem verða á haustin, sumarblíðan fer og kuldinn sem læðist að.
Annar kaflinn ber heitið Fer um jörðu feigðarnótt. Kaflinn er hraður og ákveðinn. Vindurinn og kuldinn eira engu. Allt fölnar og deyr.
Þriðji og seinasti kaflinn ber heitið Laufið þýtur lokast blóm. Verkið endar í sátt. Allt fölnar og deyr og við verðum að hlíta því. Vísa eftir Einar Bachmann sem oft er kveðin við stemmuna hljóðar svo: Laufið þýtur lokast blóm/leiðin þrýtur vinir./Glaður lít ég drottins dóm/ deyja hlýt sem hinir.
Tatjana Nikolayeva fæddist í Rússlandi 1924 og var listamaður af guðs náð, stórkostlegur píanóleikari en einnig mikilsvirtur kennari og tónskáld. Afar minnisstæðir eru tónleikar hennar í Gamla Bíói árið 1992, þar sem hún lék m.a. 24 preludiur og fúgur eftir sinn góða vin, D. Shostakovich, sem á sínum tíma hafði valið hana til af frumflytja verkið. Þekktasta upptaka með leik hennar er sögð vera píanó-umritun hennar sjálfrar á Pétri og úlfinum eftir Prokofiev.
Um Tríó Nikolayevu segja flytjendur: „Tríóið samanstendur af átta yndislega hugmyndaríkum smámyndum. Hver og einn kafli er stuttur en ber sterkan og bragðmikinn karakter. Ekki vitum við til þess að tríóið hafi verið flutt áður hér á landi.“
Tónskáld, flytjendur og S.St.
______________________________________________________________________________
Styrktarsjóði SUT og Ruthar Hermanns, Menntamálaráðuneyti, Reykjavíkurborg, FÍH og Smith & Norland hf er þakkað fyrir að styrkja tónleikahald Kammermúsíkklúbbsins.