Um efnisskrána

 

Hugleiðingar Mistar Þorkelsdóttur um verk sitt eru svohljóðandi:

„Si vis pacem - ef þið óskið eftir friði.  

Hin fræga setning, „si vis pacem para bellum“ vísar í þá hugsun að til að öðlast frið þarf maður styrk.

Þessi hugsun hefur verið mjög áleitin s.l. ár, þar sem ég fylgdist með stríði föður míns við illvígan sjúkdóm, og upplifði eigin vanmátt í því sambandi.  Hann hefur nú öðlast frið.

Verkið sjálft er engan veginn tilvísun í þetta stríð, heldur einhvers konar tilraun mín til að skrifa mig út úr sorginni, tómleikanum og jafnvel reiðinni, inn í vorið, inn í birtuna........“

 

Strengjakvartett Beethovens  í  F-dúr op. 59 nr. 1 er einn þriggja kvartetta tónskáldsins sem  tileinkaðir voru Razumovsky greifa og bera jafnan nafn hans.  Andrei Kirillovich Razumovsky var sendiherra Rússa í Vínarborg  og var vel liðtækur fiðluleikari og lék sjálfur í strengjakvartett. Hann var velmenntaður, þekktur og vinamargur meðal aðalsins um alla Evrópu  og og naut virðingar fyrir stuðning sinn við listir. Hann var kunnugur  bæði Haydn og Mozart og var einn af fyrstu styrktaraðilum Beethovens í  Vínarborg, sótti tónleika hans og  veitti Beethoven seinna „afnot“ af strengjakvartetti,  sem hann stofnaði árið 1808 og var skipaður atvinnumönnum. Eins og fyrr segir tengist nafn Razumovskys einkum kvartettunum op. 59 en Beethoven tileinkaði honum og  öðrum stuðningsmanni sínum, Lobkowitz prins,  einnig sinfóníurnar nr. 5 og 6.

Beethoven  ætlaði sér í byrjun að ljá kvartettunum þremur rússneskt yfirbragð en svo fór að aðeins tveir fyrstu kvartettarnir innihalda rússnesk stef,  í  op. 59 no. 1  heyrist það í upphafi lokakaflans  (Thème russe) og er kynnt af sellóinu.

F-dúr kvartettinn var frumfluttur árið 1806 undir stjórn Ignaz Schuppanzigh, sem talið er að Beethoven hafi sótt fiðlutíma hjá og átti eftir að vera leiðari strengjakvartetts  Razumovskys árið 1808.  Eins og gjarnan, þegar okkar maður átti í hlut, voru viðtökur áheyrenda blendnar. Verkið þótti mjög langt, menn voru ýmist hissa eða hneykslaðir, sumum var skemmt og sumir töldu að hér væri komið enn eitt dæmið um truflaðan hugarheim tónskáldsins.

 

Í byrjun 19. aldar höfðu orðið miklar framfarir í smíði klarínettunnar sem gerðu hljóm hennar  miklu mýkri og fallegri og vinsældir hljóðfærisins  fóru jafnvel að skáka  fiðlunni og píanóinu. Hinn illskeytti gagnrýnandi, Eduard Hanslick, tók meira að segja  hljóðfærið í sátt. Vinur Carls Maria von Weber, klarínettusnillingurinn  Heinrich Baermann (1784-1847), hafði mikil áhrif í þá átt að hefja klarínettuna til virðingar, bæði  í hljómsveitum og sem einleikshljóðfæri .  Hann þótti einstakur tónlistarmaður, litríkur í meira lagi og vinsæll, eins konar „Paganini“ klarínettunnar.  Tónn hans þótti silkimjúkur og tjáningarríkur og ólíkur öllu öðru sem áður hafði heyrst á klarínettu.  Weber tileinkaði þessum vini sínum langflest klarínettuverk sín  og var seinþreyttur á að þakka honum vaxandi  velgengn sína.   Flutningur Baermanns á klarínettuverkum Webers ruddu sem sé  brautina fyrir hið unga tónskáld. Fram að þessu hafði gagnrýni á Weber verið óvægin (orð eins og „fábjáni“ og „tónlistarskrímsli“  mátti lesa  í umfjöllunum um Weber). Klarínettukvintettinn  J 182 var saminn á árunum 1811-1815 og frumfluttur af Baermann. Verkið snýst nánast eingöngu um klarínettuna, sem fær hér að sýna á sér allar hliðar í hugmyndaríku flúri og heillandi lagferli.

Valdemar Pálsson