UM EFNISSKRÁNA


Jan Dismas Zelenka
(1679-1745) var tékkneskur bassaleikari og tónskáld sem mikið orð fór af á sínum tíma. En likt og samtímamaður hans Sebastian Bach (1685-1750) féll hann fljótlega í gleymsku, því þá sem nú var tískan svipul. Meira en tvær aldir liðu uns tónlist Zelenkas var uppgötvuð á ný, og einkum voru það Tríósónöturnar sex sem vöktu áhuga manna, enda mega þær teljast meðal helstu perla barokktímans. Líkt og Bach var Zelenka kantor, við dómkirkjuna í Dresden, og mestur hluti tónverka hans er trúarlegs eðlis. Á þeim 40 áum sem liðin eru frá „upprisu“ hans hefur meira en helmingur þeirra 150 verka sem hann lét eftir sig verið hljóðritaður. Í janúar 2007 hóf Camerarctica að flytja Tríósónötur Zelenkas og á þessum tónleikum lokast hringurinn með flutningi  sónötu nr. 2 í g-moll.

 

 Béla Bartók (1881-1945) og Dmitri Shostakovich teljast fremstu merkisberar strengjakvartettsins á 20. öld. Ásamt píanóinu var kvartettinn helsti tjáningarmáti Bartóks, og fræðimenn telja kvartettana sex, sem hann samdi á árabilinu 1908 til 1939, marka hver sitt skeið í þroskaferli tónskáldsins. Hjá Kammermúsikklúbbnum heyrðist Bartók fyrst í maí 1975 þegar Kvartett Guðnýjar Guðmundsdóttur flutti kvartett nr. 1, og síðan hafa allir kvartettarnir utan hinn fimmti verið fluttir hjá klúbbnum. Nú er hann fluttur í fyrsta sinn, sem liður í heildarflutningi Camerarctica á kvartettum Bartóks sem hófst í október 2010, en haustið áður lauk klúbburinn heildarflutningi kvartetta Shostakovich. Ásamt fjórða kvartettnum markar hinn fimmti afturhvarf frá tæknilega og hugmyndafræðilega erfiðum „expressjónískum Bartók“ þriðja kvartettsins til slökunar og ljóðrænnar tjáningar.

 

Georg Friedrich Händel (1685-1759) samdi söngvasveiginn Níu þýskar aríur á árunum 1724-27, sextán árum eftir að hann settist að í London. Textarnir eru úr ljóðasafninu Irdisches Vergnügen in Gott (Veraldleg ánægja með guðs gjafir) eftir Barthold nokkurn Brockes (1680-1747) sem Händel hefur kynnst á Hamborgarárum sínum 1703-1706. Kvæðin eru óður til gjafa guðs, lífsins og náttúrunnar. Fyrsta kvæðið (Künftiger Zeiten eitler Kummer) er svona í lauslegri þýðingu:

Áhyggjur um framtíðina trufla ekki blíðan svefn okkar; framagirni hefur aldrei heltekið okkur. Ef við njótum áhyggjulaus lífsins, sem skaparinn gaf okkur, erum við róleg og glöð.

Aríurnar níu eru síðustu söngverkin sem Händel samdi við þýska texta— á Lundúnaárunum samdi hann óperur á ítölsku og óratoríur á ensku. Nú eru sungnar fyrstu þrjár aríurnar, en fyrir réttu ári fluttu sömu listamenn þrjár hinar síðustu.

Sig. St.