Um efnisskrána

Árið 1840 hrinti belgíski hljóðfærasmiðurinn Adolphe Sax (1814-1894) frábærri hugmynd í framkvæmd: hann smíðaði fyrsta saxófóninn. Sex árum síðar hafði hann fengið fimmtán ára einkaleyfi á smíði hljóðfærisins. Ætlun Sax var að smíða hljóðfæri sem ætti erindi í sinfóníuhljómsveitir þess tíma. En það urðu fljótt fyrst og fremst  lúðrasveitirnar sem urðu  vettvangur saxófónsins.  Sem sinfónískt  hljóðfæri átti hann erfitt uppdráttar og hefur í raun aldrei orðið standard”-hljóðfæri í  sinfóníuhljómsveitum.  Hann var þó ekki sniðgenginn að fullu. Strax árið 1844 samdi byltingarmaðurinn Berlioz lítið stykki, Hymne, fyrir 6 saxófóna, Bizet notaði hljóðfærið í einleikskafla í óperunni L’Arlésienne, Massenet í Werther, Richard Strauss í Sinfonia Domestica og Ravel í Boléro svo fátt eitt sé nefnt. Það var ekki fyrr en komið var vel fram á 20. öldina að hljóðfærið fór að njóta sín í hljómsveitar- og kammertónlist en þá fyrst og fremst sem einleikshljóðfæri. Og ekki má gleyma jazzinum þar sem þetta magnaða hljóðfæri hefur svo um munar skotið rótum. Saxófónfjölskyldan  (sópran-, tenór-, alt- og barítonsaxófónn) er órjúfanlega tengd jazzinum og á þessi hljóðfæri hafa einhverjir mestu virtúósar tónlistarsögunnar spilað (John Coltrane, Sonny Rollins, Charlie Parker, Lee Konitz o.fl.)

 

Saxófónkvartett er nú á dögum orðið viðurkennt tónlistarform.   Tónlistaralfræðiritið “Grove Music Online” segir frá því í grein sinni um saxófóninn, að við síðustu saxófón-kvartettatalningu, sem framkvæmd var árið 1994, hefðu  fundist u.þ.b. 300 verk fyrir saxófónkvartett! Þeirra þekktastur er vafalaust kvartett Glazunovs, sem saminn var í París árið 1932. Glazunov hafði heillast af skemmtitónlistinni sem hann kynntist í París og hann dáðist að  Lúðrasveit lífvarða franska lýðveldisins með sínum 8 saxófónum. Hann ákvað því að semja kvartett með saxófónleikara sveitarinnar í huga. Yfirbragð tónlistarinnar er létt og átakalaust og greinilegt er að tónskáldið hefur lagt sig vel fram um að kynna sér eiginleika hljóðfæranna út í ystu æsar.   Verkinu var vel tekið, Glazunov augljóslega harla glaður, og ári seinna hafði saxófónkonsertinn hans litið dagsins ljós (með sama ópusnúmeri!)

 

Franska tónskáldið, píanistinn og gagnrýnandinn Florent Schmitt hóf 19 ára gamall nám við Tónlistarháskólann í Paris, þar sem kennarar hans voru m.a. Fauré og Massenet. Hann vann til hinna virtu (og umdeildu) Prix de Rome-verðlauna árið 1900 og á meðan á Rómardvölinni stóð samdi hann sín fyrstu fullorðinsverk”. Schmitt  kynntist Ravel í tónsmíðatímum hjá Fauré og með þeim tókst ævilöng vinátta. Debussy og Satie voru einnig í vinahópi þeirra. Talið er að Schmitt hafi átt verulegan þátt í að ryðja brautina fyrir nýklassíkina eins og hún birtist á fyrri hluta 20. aldar hjá þeim Roussel, Honegger og Stravinsky. Þekktasta tónverk Schmitts er ballettinn La tragédie de Salome, sem hann seinna umritaði sem tónaljóð. Saxófónkvartettinn op. 102, sem var saminn árið 1941, er nýklassískur í anda og reynir þar verulega á leikni flytjenda.

 

Það verður ekki af   frönsku  tónskáldunum á fyrri hluta 20. aldar skafið að þau höfðu ómældan húmor til að bera. Tveir Sexmenninganna”, Poulenc og Milhaud, voru miklir húmoristar og andlegt skyldmenni þeirra (en ekki í hópnum), Jean Françaix, sömuleiðis. Saxófónkvartettinn Petit quatuor pour saxophones” frá árinu 1935 er afar knappur, varla lengri en 7 mínútur að lengd. Óhætt er segja að þetta sé verk sem brosir allan hringinn. Og það munu tónleikagestir gera að loknum tónleikum – hvernig sem viðrar.

 

Valdemar Pálsson