Um efnisskrána
Strengjakvintettarnir tveir, sem leiknir verða í Kammermúsíkklúbbnum 21. október, hafa báðir verið fluttir áður á tónleikum klúbbsins, Schubert sjö sinnum en Brahms tvisvar. Bæði eru verkin frá síðasta (og þroskaðasta) æviskeiði tónskáldanna. Schubert lauk við kvintettinn haustið 1828, skömmu fyrir dauða sinn. Kannski var hann fluttur á heimatónleikum, en opinberlega heyrðist hann ekki fyrr en 1850 og var gefinn út fjórum árum síðar.
Brahms var 57 ára þegar hann samdi op. 111 (1890) og heldur ánægður með lífið, eins og kvintettinn þykir bera með sér, sáttur við guð og menn. Hann taldi sig vera tilbúinn að láta gott heita í tónsköpun, sem að vísu fór á annan veg. Eftirfarandi pistlar voru skrifaðir í tilefni fyrri flutnings kvintettanna tveggja. - Sig. St.
Strengjakvintett Franz Schubert er saminn á síðasta æviári tónskáldsins en það ár samdi Schubert mörg sín helstu meistaraverk þrátt fyrir bága heilsu. Meðal þeirra má telja sönglagaflokkinn Schwanengesang, þrjár síðustu píanósónöturnar, Der Hirt auf dem Felsen og strengjakvintettinn í C-dúr (D 956) sem almennt er talinn mesta snilldarverk Schuberts á sviði kammertónlistar.
Strengjakvintettinn D 956 er saminn að fyrirmynd sambærilegra verka eftir Boccherini sem notaðist við tvö selló í stað tveggja víóla eins og Mozart gerði. Ætlun Schubergs mun hafa verið að nýta sér sellóin tvö til að ná fram hlýlegum og á stundum dökkum hljómi þeirra eins og svo glöggt heyrist í fyrsta og síðasta kaflanum. Kvintettinn er margrætt verk tilfinningalega séð, þar eru ljós og skuggar; hugarró og drama skiptast stöðugt á allt til enda. Fjörugur lokakaflinn endar á afar óræðum nótum: í bláendann er líkt og skuggi færist yfir tónlist lokataktsins.
Valdemar Pálsson, sept. 2005
Brahms: Ef Haydn er nefndur „faðir strengjakvartettsins“ má með nokkrum sanni nefna Boccherini föður strengjakvintettsins. Hann bætti víólu eða sellói við kvartettinn. Boccherini var samtímamaður Haydns og samdi býsn af kammertónverkum. Eftir hann er nú vitað um 12 víólukvintetta, 113 sellókvintetta og 102 kvartetta. En þeir, sem hófu strengjakvintetta til æðstu virðingar, voru Mozart og Schubert. Mozart samdi sex kvintetta með tveimur víólum. Einn þeirra er æskuverk, en hinir fimm eru frá síðustu árum hans og taldir til mestu snilldarverka í kammertónlist. Hið sama er að segja um þann eina kvintett sem Schubert samdi með tveimur sellóum.
Síðan hafa ýmis tónskáld fetað í spor Mozarts og samið strengjakvintetta með tveimur víólum. Má nefna Beethoven, Mendelssohn, Bruckner, Brahms og Dvorák.
Síðasta hljómsveitarverk Brahms var konsertinn fyrir fiðlu og selló, op. 102. Næsta stóra tónverkið, strengjakvintettinn op. 111, var saminn og frumfluttur 1890. Brahms ferðaðist það ár um Norður-Ítalíu með vini sínum og hafði mikla ánægju af, sem tónverkið ber vott um. Hann var þá 57 ára, fann til elli og hugðist ekki semja meira. En þá kynntist hann klarínettuleikaranum Richard Mühlfeld, og af því spruttu fjögur klarínettuverk. En það er önnur saga.
Einar B. Pálsson, okt. 1998