Um efnisskrána
Johann Nepomuk Hummel (1778-1837) nam fyrst píanóleik hjá föður sínum. Árið 1785 fluttist fjölskyldan til Vínar, en þar hafði faðir hans fengið stöðu tónlistarstjóra í leikhúsi nokkru. Drengurinn var þá þegar orðinn snjall píanóleikari og fór til náms næstu tvö árin hjá Mozart. 1787 fór hann í tónleikaferð um Evrópu, sem endaði í London, þar sem hann hitti Clementi og sótti tíma hjá honum næstu árin. Árið 1793 sneri hann aftur til Vínar þar sem tók við tónsmíðanám, fyrst hjá Haydn en síðan hjá Albrechtsberger og Salieri. Hummel gegndi ýmsum virðingarstöðum í tónlistarlífi Evrópu, var m.a. tónlistarstjóri hjá Esterházy greifa, við hirðirnar í Württemberg, Stuttgart og Weimar. Auk þessa var hann talinn einn mesti píanósnillingur samtímans, ferðaðist víða og hélt tónleika sem slíkur. Hummel var góðvinur Beethovens og Schuberts, sem tileinkaði honum þrjár síðustu píanósónöturnar.
Hummel var því sem næst samtímamaður Beethovens og álíka virtur á sínum tíma. Hjá eftirkomandi kynslóðum féll hann þó því sem næst alveg í skugga risans. Hvernig gat annað gerst? Á síðustu áratugum hafa augu og eyru tónlistarfólks og hlustenda hins vegar opnast fyrir tónlist hans og ekki hvað síst kammerverkunum. Píanókvintettinn op. 87 er þekktasta kammerverk Hummels. Óvenjuleg hljóðfæraskipanin er sú sama og í „Silungskvintett“ Schuberts og margir telja, að til Hummels hafi Schubert leitað að fyrirmynd þess verks. Ritháttur Hummels er afar glæsilegur, einkum hvað varðar píanóröddina. En allt verkið er leiftrandi og hugvitsamlega samið, með minnisstæðum laglínum og hrífandi ljóðrænu. Kvintettinn er ýmist talinn vera í Es-dúr eða es-moll. Svo virðist sem þessar tvær tóntegundir keppi stöðugt um að ná yfirhöndinni
Rússneska tónskáldið Reinhold Glière (1875-1956) fæddist í Kiev en var af belgískum ættum. Hann hóf ungur að stunda tónsmíðar, sem hann hafði numið við Tónlistarháskólann í Moskvu. Meðal kennara hans þar voru Anton Arensky, Sergei Taneyev og Mikhail Ippolitov-Ivanov. Hann kenndi við Gnessin-tónlstarskólann í Moskvu og varð rektor Tónlistarháskólans í Kiev árið 1914. Hann fluttist til Moskvu árið 1920, þar sem hann fékk stöðu prófessors við tónlistaháskólann og gegndi henni til ársins 1941. Meðal nemenda hans þar voru Prokofiev og Khachaturian. Eftir Glière liggur mikill fjöldi tónverka af ýmsum toga. Þekktustu verk hans eru ballettinn „Rauði valmúinn“ (1927), Konsert fyrir kólóratúr-sópran og hljómsveit (1943) og þriðja sinfónían „Il'ya Muromets“ (1909-11). Svítan sem hér verður flutt í kvöld er úr verkinu „Átta stykki fyrir fiðlu og selló“ op. 39 (1909). Útsetninguna fyrir fiðlu og kontrabassa gerði kontrabassaleikarinn Frank Proto árið 1980.
Ralph Vaughan Williams (1872-1958) telst til höfuðtónskálda Englands ásamt þeim Purcell, Elgar og Britten. Hann stundaði fyrst nám í píanó- og organleik en var strax ákveðinn í því að verða tónskáld. Hann lærði tónsmíðar hjá svo ólíkum tónskáldum sem Max Bruch í Berlín og árið 1909 hjá Maurice Ravel í París. Á árunum fram að náminu hjá Ravel virðist Vaughan Williams hafa verið mjög leitandi, reynt að finna sína eigin rödd í tónsmíðunum, enda mun hann hafa ýmist eytt eða dregið til baka flest verkin sem hann hafði samið fram að því. Hann var harður dómari á eigin verk, og einkum hljómsveitarverkin (og studdur dyggilega í gagnrýninni af vini sínum Gustav Holst). Á árunum 1897-1906 samdi Vaughan Williams fjögur stór kammerverk, en engin þeirra voru flutt eftir 1918 og ekki gefin út meðan hann lifði. En handritin voru til og voru afhent British Library eftir dauða tónskáldsins 1958. Ekkja Vaughan Williams lagði bann við að þessi kammerverk yrðu flutt opinberlega eða hljóðrituð og það var ekki fyrr en á tíunda áratugnum sem hún aflétti banninu á flutningi þeirra. Eitt þessara verka er Píanókvintettinn í c-moll (1903-05). Hann var frumfluttur í desember 1905. Hann var síðast fluttur árið 1918 en þá dró tónskáldið hann til baka. Það var svo ekki fyrr en árið 1999 að hann heyrðist á ný á tónleikum í Royal College of Music. Það fer ekki fram hjá neinum að þetta verk er samið áður en tónskáldið fór til náms hjá Ravel. Hér svífur þýsk eða jafnvel rússnesk rómantík yfir vötnum, Johannes Brahms er sannarlega ekki langt undan. En þeir sem vel þekkja til tónlistar Vaughan Williams finna hér þó fátt sem minnir á stórbrotnar sinfóníurnar og „Fantasíuna um stef eftir Thomas Tallis“, þar sem tónskaldið hafði ótvírætt fundið sína eigin, mjög svo persónulegu rödd. Það breytir því ekki að það er nær óskiljanlegt að Vaughan Williams skyldi hafa haft svo lítið álit á c-moll kvintettinum. Verkið er afar vel samið, stórglæsilegt og áhrifaríkt og sómir sér í hvaða félagsskap sem er. Eins og hjá okkur í Kammermúsíkklúbbnum, sem erum sannarlega hreykin af því að hafa fengið tækifæri til að fá verkið frumflutt á Íslandi.
Valdemar Pálsson