Bohuslav Martinú telst til afkastamestu tónskálda 20. aldar. Meðal næstum 400 verka hans eru 16 óperur, 15 ballettar, sex sinfóníur og sægur af annars konar hljómsveitar-, einleiks-, söng- og  kammerverkum, þeirra á meðal eru sjö strengjakvartettar. Svo fljótur var Martinú að semja að hvarflað hefur að sumum fræðimönnum að hann hafi þjáðst af Asperger-heilkenni. Martinú hlaut klassískt tónlistaruppeldi í Prag þar sem hann var um hríð fiðlari í Fílharmóníusinfóníunni, en árið 1923 fluttist hann til Parísar og bjó síðan utan Tékklands til æviloka, í París 1923-40, í Bandaríkjunum 1941-53, og loks á Ítalíu, Frakklandi og Sviss síðustu árin. Í París kynntist hann nýjum tónlistarstefnum, ekki síst jazzi og nýklassík Stravinskys. Strengjakvartettarnir sjö þykja sýna best tónlistarþróun skáldsins, frá hinum fyrsta 1918 til hins sjöunda 1947. Fimmti strengjakvartettinn (1938) telst með merkustu tónverkum Martinús, saminn í skugga persónulegra og pólitískra hremminga.

Leos Janácek ætlaði upphaflega að verða organisti en varð (ásamt Dvorák og Smetana) eitt af þremur helstu tónskáldum Tékka, þjóðlagasafnari, tónlistarfræðimaður, útgefandi og kennari. Framan af var hann mjög undir áhrifum Dvoráks en með þriðju óperu sinni (af 9), Jenúfa (1904)  „sló hann í gegn“ og hafði þá þróað sérstakan nútímalegan stíl. Strengjakvartettar hans tveir, nr. 1, Kreutzer sonata (1923) og nr. 2, Ástarbréf (1928) eru báðir samdir undir áhrifum frá smásögu Tolstoys, Kreutzer sónata, sem aftur var samin undir áhrifum fiðlusónötu Beethovens. Í kvikmyndinni Óbærilegur léttleiki tilverunnar (1988) eftir samnefndri sögu Milans Kundera (1984) er notast mjög við tónlist úr 2. kvartett Janaceks.

Pjotr Tchaikovsky hefur löngum verið vinsælasta tónskáld Rússa. Verk hans eru þokkafull, laglínurnar grípandi og hljóðfærarútsetningar litríkar. Það þýðir þó ekki að tónlist hans risti grunnt, þótt freistandi kunni að vera að álykta þannig um verk sem mikilla vinsælda njóta. Meðal margra og margvíslegra verka Tchaikovskys eru aðeins sex kammerverk, þar af þrír strengjakvartettar. Einungis hinn fyrsti þeirra (op. 11 í D-dúr) hefur verið fluttur í Kammermúsíkklúbbnum fyrr en nú; a-moll píanótríóið op. 50 hefur hins vegar  verið flutt sex sinnum !
Es-moll kvartettinn op. 30 var frumfluttur í Moskvu í mars 1876 í tilefni af heimsókn Konstantíns Nikolayevich, forseta tónlistarfélags Rússa og bróður Rússakeisara. Verkinu var vel tekið og hægi kaflinn, andante funebre, fékk marga til að brynna músum. Kvartettinn er tileinkaður tékkneska fiðlaranum og tónskáldinu Ferdinand Laub, sem frumflutt hafði tvo fyrri kvartetta Tchaikovskys en nú var dáinn.
SSt