Um efnisskrána
Dmitri Shostakovich er líklega sá höfundur sem hefur lagt kammertónlistinni mest til af mikilvægu efni á 20. öld, fyrst og fremst 15 strengjakvartetta -- sem nú hafa allir verið fluttir á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins. Eftir Shostakovich voru löngum alkunn tvö kammerverk fyrir píanó, kvintett og tríó, en mörgum að óvörum fjölgaði tríóum um eitt þegar fyrsta píanótríó hans var loks gefið út 1981, að tónskáldinu látnu. Hann hafði samið það árið 1923, þá 16 ára gamall nemendi í Tónlistarháskólanum í Leningrad, sem svo hét þá. Tríóið er í einum þætti, um 15 mínútur að lengd. Shostakovich var ástfanginn og trúlofaður, og verkið er rómantískt. Nú á dögum myndu ekki margir áheyrendur átta sig á því hver höfundurinn er. Þetta tríó stendur samt undir nafni. Áhugavert er að kynnast því hvernig Shostakovich er verki farinn þegar hann stendur á stökkpalli til hins mikla frama sem hann hlaut aðeins þremur árum seinna, árið 1926, þegar fyrsta sinfónía hans var frumflutt. Áður hljómaði tríóið í Kammermúsíkklúbbnum haustið 2000; Einar B. Pálsson skrifaði þá efnisskrána sem þessi pistill er byggður á.
Arno Babadjanian fæddist í Jerevan, höfuðborg Armeníu. Sjö ára gamall fékk hann, að ráði tónskáldsins Arams Katsjatúrían, inngöngu í tónlistarháskóla borgarinnar og 10 árum síðar í tónlistarháskóla Moskvu þar sem Vissarion Sjebalin var helsti tónsmíðakennari hans. Árin 1950-1956 bjó hann í Jerevan og kenndi við tónlistarháskólann, en sjálfur Shostakovich lýsti honum sem „geislandi píanókennara.“ Á þeim árum (1952) samdi hann tríóið í fís-moll sem flutt er í kvöld og samstundis sló í gegn sem snilldarverk. Upp úr því lagðist Babadjanian í tónleikaferðalög um Sovétríkin og Evrópu en hann var kunnur píanóleikari og flutti ekki síst eigin tónlist. Babadjanian samdi margskyns tónlist, m.a. mörg vinsæl lög við ljóð frægðarskálda eins og Jevgenys Jevtusjenkó og Roberts Rozhdestvensky. Flest verk hans byggja á þjóðlegri tónlist Armena þótt efnistök hans geri miklar tæknikröfur í anda Rachmaninovs og Katsjatúríans. Í síðari verkum hans má greina áhrif frá Prokofiev og Bartók. Tvö armensk tónskáld hafa áður komið við sögu Kammermúsíkklúbbsins: Vorið 1959 spilaði Komitas-kvartettinn frá Sovét-Armeníu, en Komitas (1869-1935) telst vera faðir armenskrar æðri tónlistar, og tríó Katsjatúríans fyrir fiðlu, klarínettu og píanó hefur verið flutt tvisvar, 1960 og 1979.
Johannes Brahms reisti við merki kammertónlistarinnar eftir dauða Schumanns, eins helsta kammertónskálds rómantíska tímabilsins, og hélt því á loft til loka 19. aldar. Á 40 árum, frá píanótríóinu op. 8 (1854) til klarínettusónatanna tveggja op. 120 (1894) samdi hann 24 kammerverk sem að mati sumra fræðimanna bera af öðrum slíkum verkum eftir daga Beethovens. Af þessum 24 kammerverkum hefur Klúbburinn flutt 22, þar á meðal píanótríóið op. 8 einu sinni (1986). Tríóið samdi Brahms rúmlega tvítugur að aldri en löngu síðar sá hann ástæðu til að endurskoða það því hann var allra manna gagnrýnastur á eigin verk. Þótt eftir Brahms liggi mörg stórvirki - svo sem fjórar sinfóníur, tveir píanókonsertar og fiðlukonsert - og bæði hann sjálfur og fleiri litu á hann sem sinfónískan eftirmann Beethovens, þá var kammertónlist næst hjarta hans.
SSt