Um efnisskrána
Jan Dismas Zelenka. Tríósónatan var mikilvægasta form kammertónlistar á barokktímanum og má með nokkrum sanni segja, að hún sé fyrirrennari seinni forma s.s. tríós, kvartetts og kvintetts.
Mönnum kann að finnast sérkennilegt að sjá fimm hljóðfæraleikara á sviði flytja tónverk sem ber nafnið “tríósónata” enda kemur talan 3 upp í hugann þegar tríó er inni í myndinni. Allt á þetta þó sínar eðlilegu skýringar. Samkvæmt ströngustu skilgreiningu er tríósónata nefnilega tónverk fyrir þrjú hljóðfæri sem flytja meginlaglínur verksins og eitt til tvö hljóðfæri, sem sjá um bassaröddina (b.c.), sem oftast samanstendur af sellói eða gömbu og/eða sembal. Í lok 17. aldar voru tvær gerðir tríósónata algengastar, þ.e. sonata da chiesa (kirkjusónata) og sonata da camera (kammersónata). Fjórða tríósónata Zelenkas tilheyrir fyrra forminu, sem er sónata í fjórum köflum: hægt - hratt - hægt - hratt. Líkt og hinar fimm er hún samin 1721-22 og ber öll einkenni þessa merka tónskálds, sem var öllum nema hörðustu grúskurum alls óþekktur fyrir 50 árum. Höfundareinkenni Zelenkas, mikil orka, kröftug framvinda og hnyttnar laglínur eru augljós í þessu verki, sem er mikið eyrnakonfekt fyrir hlustendur en að sama skapi afar krefjandi fyrir flytjendur.
George Frideric Handel settist að í London árið 1712, fékk enskan ríkisborgararétt 1727 og starfaði þar það sem eftir var ævinnar. Drjúgur hluti höfundarverks hans eru ítalskar óperur enda voru slík verk í tísku í London lengi vel. Hátt á fjórða tug ópera liggja eftir Handel frá þessum árum. En það voru ekki eingöngu óperur sem áttu hug hans allan á Englandsárunum - hann hafði líka tíma til að semja 18 concerti grossi, kammertónlist, einleiksverk á sembal og hljómsveitarsvítur. Óratoríur við enskan texta tók hann svo til við, þegar dró úr vinsældum óperanna. En söngverk við þýskan texta eru fátíð í höfundarverki Handels. Ein undantekningin eru níu þýskar aríur, sem eru reyndar sjálfstæðar tónsmíðar, samdar á árunum 1724-27. Aríurnar eru samdar við texta B.H. Brockes (1680-1747), sem var borgarstjórnarmaður í Hamborg og að auki velþekkt ljóðskáld. Þess má geta að ýmis tónskáld, þ.m.t. Handel, notuðu safaríkan passíutexta Brockes í svonefndar Brockes-passíur. Aríurnar eru það síðasta, sem Handel samdi við þýskan texta, en í sumum þeirra notast hann við ýmislegt eldra efni úr eigin smiðju, eins og títt var í þá daga. Aríurnar voru ekki gefnar út meðan Handel lifði og enn er óvíst hvaða hlutverk hann hafði ætlað þeim. Líklegast þykir að þær séu eins konar samkvæmistónlist („divertissement“).
Béla Bartók samdi fjórða strengjakvartettinn sumarið 1928. Hann hafði hugsað sér verkið í fjórum köflum en bætti einum við (fjórða kafla), þannig að verkið myndaði samhverfu um þriðja kaflann (Non troppo lento), þungamiðju verksins. Sá er undurfallegur og mjög í anda „næturtónlistar“ sem svo víða heyrist í verkum tónskáldsins. Samhverfuna í verkinu má líka, ef vel er að gáð, heyra í því hvernig stef úr fyrsta og öðrum kafla speglast í fjórða og fimmta kafla. Eins og kunnugt er var Bartók ákafur safnari þjóðlaga og vann þar ómetanlegt þrekvirki er hann ferðaðist um heimaland sitt og Balkanlöndin með hljóðritunartækin sín, pappír og skriffæri. Þjóðlögin sem hann safnaði á þessum ferðum sínum skipta þúsundum og gætir þeirra í mörgum tónsmíðum hans. Fjórði strengjakvartettinn er ekki undanskilinn. Í fyrsta kafla má t.d. heyra óreglulegan búlgarskan ryþma og í þriðja kafla koma fyrir forn-ungversk og rúmensk hrynmynstur.
Fjórði strengjakvartettinn var frumfluttur af Waldbauer-Kerpely kvartettinum þann 20. mars 1929. Við sama tækifærið var þriðji kvartettinn fluttur ásamt Rapsódíu nr. 1 í útsetningu fyrir sellóeinleik, Utandyra-svítunni BB89 og sönglagaflokknum Þorpsmyndum BB87a.
Valdemar Pálsson