Um efnisskrána

Þýska ljóðskáldið Richard Dehmel (1863-1920) var afar umdeilt en hafði mikil áhrif í listaheimi Þýskalands í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Richard Strauss, Max Reger, Alexander von Zemlinsky, Anton Webern og Arnold Schönberg voru meðal tónskálda sem sömdu tónlist við ljóð eftir Dehmel eða sóttu innblástur í efni þeirra. Schönberg dvaldi sumarið 1899 í smábænum Payerbach við Semmering í austurhluta Austurríkis með vini sínum og læriföður, Alexander von Zemlinsky. Þar samdi hann á þremur vikum sitt þekktasta æskuverk, sextettinn Verklärte Nacht, við samnefnt ljóð úr safni Dehmels, „Weib und Welt“. Rómantíkin sveif yfir vötnum þetta sumar í sveitinni því systir Zemlinskys, Mathilde, og Schönberg felldu þar hugi saman. Í rómantísku ljóði Dehmels segir frá ungu pari á gangi að næturlagi. Konan segir elskhuga sínum að hún gangi með barn annars manns. Í göfuglyndi sínu gleðst maðurinn yfir þessum óvæntu fréttum og sér fyrir sér bjarta framtíð þeirra tveggja og hins óborna barns. Líkt og ljóðið er tónverkið í 5 hlutum sem leiknir eru í samfellu. Fyrsti, þriðji og fimmti hluti verksins tákna göngu parsins í tunglbjartri nóttinni, í öðrum hluta játar konan synd sína og sá fjórði túlkar hin göfuglyndu viðbrögð unnustans. Sextettinn Verklärte Nacht var frumfluttur í Vínarborg í mars árið 1902, útsetningin fyrir strengjasveit leit dagsins ljós árið 1917 og endurskoðuð útgáfa verksins árið 1943.

Pjotr Ilyich Tchaikovsky þótti afar vænt um Ítalíu og þá sérstaklega Flórens og dvaldi þar oft um lengri og skemmri tíma sér til sálubótar og hugarhægðar. Þar samdi hann óperuna „Spaðadrottninguna“ fyrri hluta ársins 1890. Í Flórens setti hann einnig niður á blað frumdrög að hægum kafla í kammerverki, sem hann hafði byrjað á þremur árum áður að frumkvæði Tónlistarfélagsins í St. Pétursborg, sem hafði pantað hjá honum nýtt verk. Tchaikovsky var ekkert gefinn fyrir tónlist Brahms, en undanskildi þó B-dúr sextettinn hans, sem hann hafði mætur á. Talið er að Tchaikovsky hafi haft þetta verk Brahms í huga, þegar hann ákvað að nýja verkið skyldi vera sextett fyrir strengi. Með því að skrifa verk fyrir sex hljóðfæraleikara myndi hann líka gleðja fleiri meðlimi félagsins! Vinnan við tónsmíðina hófst af alvöru sumarið 1890. Þetta viðamikla verk reyndist honum að mörgu leyti erfitt viðfangs, en einnig mikil hugsvölun. Honum var í mun að semja verk sem væri samboðið hinum snjöllu hljóðfæraleikurum í Pétursborg. Fyrsta „rennslið“ á verkinu fór fram á heimili tónskáldsins í byrjun nóvember 1890 og voru þar viðstaddir kollegarnir Glazunov og Liadov. Þótt Tchaikovsky hafi þá ekki verið alls kostar ánægður með verkið fór opinber frumflutningur samt fram síðar í mánuðinum. Tónskáldið gerði í kjölfarið nokkrar breytingar á sextettinum og þá einkum á þriðja og fjórða þætti og endanleg gerð verksins leit dagsins ljós í júní 1892 og var það frumflutt í St. Pétursborg 24. nóvember sama ár. Viðurnefni sextettsins „Minningar frá Flórens“ vekur hugmyndir um að hér sé á ferðinni létt skemmtistykki sem veki upp notalegar og hlýlegar kenndir tengdar sólríkri og fagurri borg í suðri. En ekki er allt sem sýnist. Tchaikovsky slær í verkinu á alvarlega strengi eins og heyra má strax í upphafi þess. Sextettinn er fjarri því að vera sólríkur. Undir glæsilegu yfirborði hans má merkja óróleika, kvíða og jafnvel angist sem tónskáldinu tekst ekki að vinna úr.

Valdemar Pálsson