Um efnisskrána
Felix Mendelssohn varð ekki nema 36 ára—jafnaldri hans Jónas Hallgrimsson varð 38 ára. Hann tók hins vegar daginn snemma, ef svo má segja, því áður en hann samdi Oktettinn op. 20, þá 16 ára að aldri, hafði hann auk annars lokið við 13 sinfóníur fyrir strengjahljómsveit og þrjá meiri háttar píanókvartetta. Næsti ópus eftir oktettinn var hinn alkunni forleikur að Draumi á jónsmessunótt. Mendelssohn kom víða við sem tónskáld, en alfræðiritið Grove telur hann þó nánast yfir gagnrýni hafinn sem höfundur kammerverka. Á 200 ára afmælisári skáldsins 2009 flutti Kammermúsíkklúbburinn m.a. í þriðja sinn eitt vinsælasta kammerverk hans, píanótríó op. 49, og strengjakvartett op. 44,2. Oktettinn, sem þykir eitt besta kammerverk Mendelssohns, hefur hljómað einu sinni áður hjá Klúbbnum, í mars 1977. Hugmyndina að tvöföldum strengjakvartett kann Mendelssohn að hafa fengið frá Louis Spohr sem samdi fyrsta slíka verk sitt tveimur árum fyrr. Það stykki er samt ólíkt oktett Mendelssohns að gerð, því hjá Spohr kallast tveir kvartettar á, en hjá Mendelssohn renna þeir saman í einn oktett. Að sjálfsögðu er talsvert um það að hin ýmsu hljóðfæri spili sömu rödd líkt og í sinfóníuhljómsveit, en síðasti kafli oktettsins er þó skrifaður í átta sérstökum röddum. Þriðji kaflinn, scherzo, þykir sérlega athyglisverður; samkvæmt Fanny, systur Felixar, var hann innblásinn af þessari náttúrulýsingu í Faust eftir Goethe og ber að spilast staccato og pianissimo allt í gegn:
Wolkenzug und Nebelflor Skýjaslæður og þokumistur
Erhellen sich von oben; lýsast ofan frá;
Luft im Laub, und Wind im Rohr, þytur í laufi, og vindur í sefi
— Und alles ist zerstoben. — og allt er sundrað.
George Enescu fæddist í Rúmeníu 1881, óvenjulegt undrabarn sem Pablo Casals sagði vera mesta furðuverk í tónlist síðan Mozart leið. Sjö ára að aldri var hann orðinn svo slyngur fiðlari og píanisti að hann fékk inngöngu í tónlistarháskóla Vínarborgar, staðráðinn í að verða tónskáld. Þaðan útskrifaðist hann tæpra ellefu ára með láði og settist þá í tónlistaháskóla Parísar til að læra tónsmíðar hjá Messenet. Með tímanum varð Enescu heimsfrægur fiðlari, píanisti, tónskáld og hljómsveitarstjórnandi; auk þess var hann annálaður kennari—meðal nemenda hans voru fiðlarinn Menhuin og píanóleikarinn Dinu Lipatti.
Eftir Ensecu liggja allmörg kammerverk, þeirra á meðal tveir strengjakvartettar, tveir píanókvartettar og píanókvintett auk oktettsins fyrir strengi og decets (tíund) fyrir blásara. Hjá Kammermúsíkklúbbnum hefur hann þó aðeins heyrst einu sinni fyrr en nú—Concertstück fyrir víólu og píanó í febrúar 1970. Oktettinn samdi Enescu tiltölulega nýútskrifaður úr tónlistarháskóla enda telja kunnáttumenn sig sjá í honum mikinn skólalærdóm og djúpan, þótt hann sé jafnframt áheyrilegur mjög. Um hinn viðamikla fyrsta kafla sagði Enescu sjálfur að „arkitektúr tónlistarinnar“ hefði krafist stærðarinnar fremur en löngun sín til að vera frumlegur. En niðurstaðan er áhrifamikil þannig að athygli áheyrandans hvarflar aldrei, segir á plötuumslagi.
Sig. St.