Um efnisskrána
Jan Krtitel Vanhal var af alþýðufólki kominn. Hann hlaut fyrstu tónlistamenntun sína á heimaslóðum í Bæheimi og þótti efnilegur. Því var honum komið til náms í Vínarborg árið 1761 og nam þar m.a. tónsmíðar hjá Dittersdorf. Þar í borg náði hann fótfestu sem tónskáld og fiðlukennari. Á árunum 1769-1771 var hann langdvölum á Ítalíu við störf. Árið 1780 settist hann að í Vínarborg og bjó þar til æviloka árið 1813 og hafði lífsviðurværi sitt alfarið af tónlistarkennslu og tónsmíðum. Auk Dittersdorfs var hann nákunnugur þeim Mozart og Haydn og lék með þeim í strengjakvartett. Tónlist Vanhals var vinsæl og hlaut mikla útbreiðslu.Talið er að hann hafi í sinfóníum sínum, sem flestar voru samdar á árunum 1760-80, haft talsverð áhrif á þróun sinfóníuformsins á seinni hluta 18. aldar. Eftir að Vanhal settist endanlega að í Vínarborg samdi hann einkum kennsluefni og léttari tónsmíðar og hafði þá aðallega nemendur sína í huga.
Kammerkonsert Albans Berg var saminn á árunum 1923-25. Konsertinn er talinn lykilverk í höfundarverki Bergs og með merkari tónsmíðum á fyrri hluta 20. aldar. Hljóðfæraskipanin er píanó, fiðla og 13 blásturshljóðfæri. Árið 1935 samdi Berg hins vegar nýja gerð hæga kafla verksins, Adagio, fyrir klarínettu, fiðlu og píanó. Þessi útsetning var ekki gefin út fyrr en 1956, rúmum 20 árum eftir dauða tónskáldsins.
Jónas Tómasson nam fyrst tónsmíðar hjá Jóni Þórarinssyni og Þorkatli Sigurbjörnssyni. Hann stundaði framhaldsnám í Amsterdam 1969-72 hjá m.a. Ton de Leeuw. Auk tónsmíðastarfa kennir Jónas nú við Tónlistarskóla Ísafjarðar og er virkur mjög í tónlistarlífi bæjarins. Eftir hann liggur fjöldi verka og þar eru hljómsveitar-, kammer- og kórverk mest áberandi. Oftast er tónlistin hægferðug og innhverf. Hún er mjög frjáls í formi. Jónas hefur samið nokkuð af söngverkum og meðal þeirra eru einsöngslög frá síðustu árum. (Byggt á upplýsingavef ITM)
Tónskáldið segir svo frá verki sínu La belle jardinière:
Þegar Tríó Sírajón bað mig að semja fyrir sig, var ég að horfa á myndina "La belle jardinière" eftir Paul Klee og fannst myndin vera af Vigdísi Finnbogadóttur. Með það í huga varð verkið til - einþáttungur en fyrri hluti hans heitir sáning og sá síðari garðurinn syngur.
Tileinkað hinni skemmtilegu garðyrkjukonu fertvítugri.
Darius Milhaud var einn „Sexmenninganna“ (Les Six) sem áberandi voru í frönsku tónlistarlífi á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar. Hópurinn var formlega stofnaður til þess að koma nýrri tónlist á framfæri og ekki síst að styðja við bakið á félögunum sjálfum, sem voru auk Milhauds, Honegger, Poulenc, Auric, Durey og Tailleferre. Tónlist Milhauds einkennist mjög af tískustraumum samtíma hans, Þar kennir áhrifa frá jazzi og brasilískri tónlist, hún hefur talsvert skemmtigildi og þar er oft stutt í húmorinn. Svítan op. 157b ber öll helstu höfundareinkenni tónskáldisins og er hin skemmtilegasta tónsmíð.
Igor Stravinsky lauk við svítuna úr L'histoire du Soldat fyrir klarínettu, fiðlu og píanó árið 1919. Svítan er samin upp úr samnefndu verki fyrir 3 leikara, 1 dansara, klarínettu, fagott, kornett, básúnu, slagverk, fiðlu og kontrabassa. Efni verksins er að dáti nokkur hittir Djöfulinn sjálfan á förnum vegi. Dátinn ber með sér fiðlu, sem er táknmynd sálar hans. Á ýmsu gengur í samskiptum þeirra, dátinn ýmist tapar eða vinnur fiðluna aftur af djöfsa, en að lokum verður dátinn undir í viðureign sinni við hið illa.
Valdemar Pálsson