Efnisskráin

Beethoven samdi öll sín fimm strengjatríó á árunum 1792 til 1798, á undan fyrstu kvartettunum (op. 18) 1798-1800. Því hafa ýmsir litið á tríóin sem eins konar undirbúnings-æfingar fyrir kvartettana, því hver maður geti séð að auðveldara sé að skrifa fyrir þrjú hljóðfæri en fjögur. Það mun þó vera öðru nær, því meiri kúnst þarf til að ná blæbrigðum og styrkleikabreytingum með færri hljóðfærum. Hins vegar er svo að sjá sem strengjatríóið hafi „farið úr móð“ kringum 1800 vegna þess að það hentaði síður þeirri nýju tónlist sem þá var að taka við af Mozart og Haydn, ekki síst fyrir tilstilli Beethovens sjálfs. Aldous Huxley hefur jafnvel sakað Beethoven um að vera guðfaðir poppsins - hann hafi innleitt tilfinningaofsa í tónlistina. En allt um það, tríóin þrjú op. 9 frá 1798 teljast vera hin mestu snilldarverk og tæknilega frábær, tónskáldinu takist jafnvel að láta þrjú hljóðfæri hljóma sem fjögur væru. Í c-moll tríóinu heyrast  þess augljós merki að Beethoven er floginn úr hreiðri kennara sinna, Haydns og Salieris, og stefnir styrkum vængjum til hæða.

Goldberg-tilbrigði Bachs, Stef (aria) með 30 tilbrigðum fyrir sembal með tveimur hljómborðum, voru gefin út í Nürnberg 1741. Þetta er lang-viðamesta safn tilbrigða fyrir sembal frá barokk-tímanum -- á sinn hátt sambærilegt við Diabelli-tilbrigði Beethovens. Að þeirra tíma hætti eru tilbrigðin  byggð á bassalínu stefsins (ekki laginu sjálfu) og þess vegna geta þau verið svo margvísleg sem raun ber vitni. Jafnframt bera tilbrigðin vitni um ótrúlega fimi og hugkvæmni hljómborðsleikarans Bachs því í þeim kemur fram margt það sem talist hefur til nýmæla í píanótækni síðustu tvær aldir, frá Czerny til Prokofievs og jafnvel Schönbergs. Tíu af tilbrigðunum 30 eru sérstaklega merkt fyrir tvö hljómborð og eru þess vegna erfið að spila á nútíma píanó. Í þeim „krossast“ raddir hægri og vinstri handar mjög, þannig að mun auðveldara er að hafa sitt hljómborðið fyrir hvora hönd. Þessi hljómborðs-tæknimál skipta þó litlu máli í tríó-umskrift tilbrigðanna sem rússneski fiðlarinn og hljómsveitarstjórinn Dmitry Sitkovetsky (f. 1957) mun hafa gert og talin eru afar vel heppnuð.
   Tildrög Goldberg-tilbrigðanna voru þau, segir sagan, að von Kayserling greifi, rússneski ambassadorinn við hirðina í Dresden, svaf illa á nóttunni og pantaði hjá Bach létta og þægilega tónlist til að stytta sér næturstundirnar. Bach tók saman þessi 30 tilbrigði við franskt stef sem finna má í nótnabók Önnu Magðalenu Bach frá 1725, og Johann Goldberg, nemandi Bachs og semballeikari greifans, frumflutti verkið fyrir sinn vansvefta vinnuveitanda. Ursula Ingólfsson-Fassbind píanóleikari flutti verkið hjá Kammermúsíkklúbbnum í desember 1979, en Helga Ingólfsdóttir semballeikari hefur spilað það inn á hljómdisk.
Sig.St.