Um efnisskrána

Hlustendur Kammermúsíkklúbbsins ættu að vera farnir að þekkja litríkt tónmál Tékkans Jan Dismas Zelenka (1679-1745), en tvær af sex Tríósónötum hans (ca. 1722) hafa áður hljómað á tónleikum hér í Bústaðakirkju. Það voru einmitt sónöturnar, sem komu Zelenka á kortið fyrir tæplega 40 árum. Fyrir þann tíma var hann helst þekktur í þröngum heimi fræðimanna en nú er staðan önnur. Í dag keppast metnaðarfullir listamenn við að flytja tónlist hans og rúmlega helmingur þeirra 150 verka sem hann lét eftir sig hefur þegar verið hljóðritaður. Þetta er undraverður árangur á svo stuttum tíma, en sérstaða og mikilvægi Zelenka í tónlistarsögunni er nú flestum ljós.
Zelenka gekk til þjónustu við hirðina í Dresden árið 1711. Þar starfaði hann sem kontrabassaleikari og síðar sem kirkjutónskáld, í þeirri hljómsveit sem frægust var í allri Evrópu. Í henni voru samankomnir margir af fremstu hljóðfæraleikurum þess tíma og voru þeir ávallt nefndir Virtuósarnir. Samnefnt ljóð frá 1740 til dýrðar hljómsveitinni fannst nýverið í Þýskalandi. Þar er Zelenka ávarpaður sem hinn „fullkomni Virtuós“ og er vísað til þeirra hughrifa, sem kirkjutónlist hans hafði, en hún þótti gefa „forsmekkinn að himneskri sælu“. Ljóðið - ásamt ferskum íslenskum rannsóknum á lífi hans - veitir honum uppreisn æru, því lengi hefur verið talið að hann hafi verið lítt metinn af ráðamönnum í Dresden og jafnvel verið í ónáð hjá þeim. Annað er nú komið á daginn.
Margir af þeim sem fluttu sónöturnar með Zelenka eru nefndir í ljóðinu. Óbóleikarinn Richter blés af „listfengi“ og djúpur tónn fagottleikarans Böhme gaf tónlistinni botn og „réttan kraft“. Mjög reynir á þessi hljóðfæri í sónötunum tveimur, sem við fáum að heyra á tónleikunum nú. Báðar eru þær tignarlegar tónsmíðar og skyldar í stíl, en þó er munur á ef vel er að gáð. Ef frá er skilin lengd og melódísk efnistök fylgir sú fyrsta hefðbundnum strúktúr Corelli-sónötunnar, en fyrstu tveir kaflarnir í þeirri sjöttu eru einstök heimild um það, þegar Virtuósarnir léku sér með formið og tríóið umbreyttist í kvartett. Raunar er engu líkara en að Zelenka hafi í sónötum sínum fangað spunann og fryst hann í tíma.
  
                                                                         Jóhannes Ágústsson

Á þessum tónleikunum hefst heildarflutningur á strengjakvartettum Béla Bartóks, nú þegar allir strengjakvartettar Shostakovich hafa verið fluttir. Með þessu vill klúbburinn heiðra þessa tvo miklu meistara kvartettformsins á 20. öldinni.
   Bartók samdi alls 6 strengjakvartetta á árunum 1908 til 1939. Hann samdi frumdrög að hinum sjöunda sumarið 1945, en lést frá óunnu verki í september sama ár. Talið er að fá verk fyrir strengjakvartett á 20. öldinni hafi haft eins víðtæk áhrif á kynslóðir yngri tónskálda seinni tíma og þessir kvartettar Bartóks.
   Þriðji kvartettinn leit dagsins ljós á miklum umbrotatímum í Evrópu árið 1927.  Hann er stystur kvartettanna og er í fjórum köflum  og eru tveir þeir fyrstu viðamestir. Kaflarnir  eru leiknir án þess að hlé séu gerð á milli þeirra. Í tónmáli kvartettsins má heyra ótrúlega vítt svið blæbrigða og vafalaust má segja, að þar sé reynt á ýtrasta þanþol hljóðfæra jafnt sem hljóðfæraleikara. Hlustendur munu einnig þurfa á öllu sínu að halda - þetta er tónlist sem krefst þess að hlustað sé af einbeitni.
   Þriðji kvartettinn er stórbrotin tónsmíð, þó aðeins stundarfjórðungur að lengd, en að innihaldi er sem um miklu viðameira verk sé að ræða.
  
                                                                                  Valdemar Pálsson