Ludwig van Beethoven, strengjakvartett í cis-moll op. 131.
 
Nú er þessi kvartett, einn af hinum „þremur stóru” strengjakvartettum Beethovens (op. 130, 131, 132), fluttur í 7. sinn í Kammermúsíkklúbbnum – á vaðið reið Sinnhoffer-kvartettinn frá München árið 1977. Síðan fluttu erlendir kvartettar hann fimm sinnum uns íslenskir listamenn lögðu loks í hann á tónleikum 18. janúar 1998: Bernadel-kvartettinn sem Sigrún Eðvaldsdóttir, Greta Guðnadóttir, Guðmundur Kristmundsson og Bryndís Halla Gylfadóttir skipuðu.
 
Í tónleikaskrá þá skrifaði Einar B. Pálsson m.a.: Op. 131 mun vera sá stóru kvartettanna þriggja sem Beethoven vann síðast að. Prentun lauk í sama mánuði og hann andaðist.
 
Hvar sem Beethoven tók til hendi, varð eitthvað nýstárlegt til. Þrátt fyrir heyrnarleysi og tæpa heilsu, hélst það alla hans ævi. Ekkert skyggir enn á síðustu píanósónötur hans, sinfóníur og konserta eða kórverk. Árið 1822 samdi hann síðustu píanósónötu sína og 1823 Diabelli-tilbrigðin fyrir píanó, mest verka á því sviði. Þá tók hann til við að ljúka níundu sinfóníunni og hátíðarmessunni, sem hann hafði átt lengi í smíðum. Eftir það urðu strengjakvartettar tjáningarmiðill Beethovens síðustu 3 ár ævinnar. Hann samdi þá sex kvartetta af þeim 17 sem eftir hann liggja, þ.á.m. hina “þrjá stóru” sem áður er getið.
 
Beethoven hafði í upphafi erft form sinfóníu og strengjakvartetts fullskapað frá Haydn. Mozart hafði gætt það aukinni fegurð og unaði. Við þetta veganesti studdist Beethoven, en skáldskapur hans varð svo sterkur með tímanum, að formið varð að lúta fyrir hugarfluginu. Þriðja tímabilið á starfsferli Beethovens einkennist af þessu.
 
Kvartettinn op. 131 er endir og hástig þessa ferils. Hann er í 7 köflum sem eru leiknir án þess að hlé verði á milli, stór í sniðum og dulúðugur á köflum, vandfluttur en ógleymanlegur þeim sem kynnast honum.