Tónleikar kvöldsins hefjast á G-dúr kvartettinum úr fyrsta hluta Musique de table eftir Hamborgar-tónskáldið mikla, Georg Philipp Telemann (1681-1767). Afköst hans voru ótrúleg: hann samdi kantötur fyrir 20 kirkjuár, og af þeim eru um 1.400 þekktar nú á dögum, óperurnar urðu 45, passíurnar 46, hann samdi 145 hljómsveitarsvítur og önnur hljóðfæraverk voru fjölmörg. Verkaskráin telur alls 3.000 tónsmíðar, sem hlýtur að nálgast heimsmet.
Telemann var mjög praktískt og „markaðsmeðvitað” tónskáld, samdi tónsmíðar við öll hugsanleg tækifæri og varð að sönnu virtur og geysivinsæll meðal samtíðarmanna sinna. Svo mjög að stef hans skjóta upp kollinum mjög víða meðal kolleganna: hjá Handel einum hafa menn talið a.m.k. 150 stef eftir Telemann. Í tónsmíðunum leit hann mjög til Vivaldis, sem á þeim tíma átti mjög upp á pallborðið um alla Evrópu, en einnig gætir þar franskra áhrifa og jafnvel pólskra þjóðlegra áhrifa.
Telemann gaf safnið út árið 1733 undir franska heitinu Musique de table (það er ekkert nýtt að franskan þyki flottari en þýskan!). Safnið er er í 3 hlutum, alls 18 kammerverk, hljómsveitarsvítur og konsertar og hverjum hluta lýkur á stuttum lokahnykk, Conclusion. Musique de table varð geysivinsælt víða um Evrópu og til þess tekið hversu vel nóturnar seldust, alls 206 eintök, og eitt þeirra fór til „Mr. Hendel, Docteur en Musique, Londres” sem væntanlega hefur verið á höttunum eftir nýjum hugmyndum.
G-dúr kvartettinn er eitt af þekktustu kammerverkum Telemanns, hann er í senn glaðlegur og þokkafullur og gott dæmi um hinn lipra tónsmíðastíl Telemanns.
Sé Telemann kenndur við Hamborg þá er ekki síður ástæða til að kenna samtíðarmann hans, Jan Dismas Zelenka (1679-1745) við aðra þýska borg, Dresden, en þar starfaði hann framan af sem kontrabassa-leikari í hirðhljómsveit Ágústar hins sterka af Saxlandi og var kantor dómkirkjunnar í Dresden frá 1735 til dauðadags. Zelenka fæddist í Bæheimi en nánast ekkert er vitað um æsku hans og unglingsár og reyndar er ýmislegt um persónu hans og ævi á huldu. Engin mynd af Zelenka er þekkt. En víst er að líf hans var enginn dans á rósum, hann þekkti ekki til velgengni á sama hátt og Telemann. Verkaskrá Zelenkas samanstendur að langmestum hluta af trúarlegum tónverkum en það eru samt hljóðfæraverkin sem hann er hvað þekktastur fyrir. Einkum eru þekktar hinar geysierfiðu sex Tríósónötur, sem þykja einhverjar mestu perlur barokktímans. Tónlist Zelenkas var lengst af týnd og tröllum gefin. Vafalaust má þakka óbóleikaranum Heinz Holliger það, að nafn Zelenkas er nú kunnugt öllum áhugamönnum um barokktónlist. Hljóðritun Holligers og félaga hans á Tríósónötunum árið 1973 vakti fádæma athygli og árið 1999 hljóðritaði hann þær aftur að hluta til með sama hópi, enda telur hann þessi margslungnu og erfiðu verk vera verkefni fyrir allt lífið og að tónlist í þessum gæðaflokki gefi lífi tónlistarmannsins beinlínis tilgang.
Tríósónöturnar eru samdar fyrir 2 óbó, fagott og fylgiraddir, nema sú þriðja þar sem öðru óbóinu er skipt út fyrir fiðlu. Hún er í fjögurra kafla formi “sonata da chiesa”, tæknilega afar krefjandi fyrir flytjendur en mikil unun fyrir hlustendur, sem ættu að fylgjast vel með raddfærslusnilld Zelenkas þegar hann tvinnar raddirnar saman í vef sem tekur sífelldum og oft óvæntum breytingum.
Lokaverk kvöldsins, Strengjakvartett Shostakovich (1906-1975) nr. 4, var saminn árið 1949 en aðeins fluttur einu sinni opinberlega á meðan Stalín var á lífi. Í lokakaflanum bregður fyrir stefi í anda Gyðinga-tónlistar eins og víðar í tónlist tónskáldsins, enda var Shostakovich mikill andstæðingur opinberra ofsókna sovéskra stjórnvalda gegn Gyðingum. Annars er verkið nokkuð órætt. Það einkennist frekar af angurværð og depurð en hreinum harmi eða angist og tilfinningalega séð ekki málað eins sterkum litum og sumir hinna kvartettanna. Verkið á líka sín ljóðrænu augnablik og þá einkum í 2. kafla (Andantino) sem er angurvær rómansa og gráleitur húmorinn sem svo víða skýtur upp kollinum hjá tónskáldinu skín í gegn í 3. kafla. Verkið endar á lágu nótunum, dökkum en afar áhrifamiklum.
Valdemar Pálsson