Sigurður Ingvi Snorrason lauk prófi með láði (Diplomprüfung mit Auszeichnung) í klarínettuleik frá Hochschule für Musik und Darstellende Kunst í Vínarborg 1971.
Hann hefur verið klarínettuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1973, kennari við Tónlistarskólann í Reykavík frá 1977 og við ýmsa tónlistarskóla frá 1973. Skólastjóri Tónlistarskóla FÍH var hann 1980-1988. Sigurður hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi sem einleikari og í kammertónlist, margsinnis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku hljómsveitinni heima og erlendis (sjá www.musik.is) og farið í tónleikaferðir um Evrópulönd og Bandaríkin. Hann hefur leikið kammertónlist með ýmsum tónlistarhópum auk Vínartónlistar með eigin salonhljómsveitum í dans- og tónleikasölum. Þá hefur hann tekið þátt í óperu- og óperettusýningum Þjóðleikhússins frá 1973 og Íslensku Óperunnar frá stofnun hennar.
Fyrir félaga Kammermúsíkklúbbsins hefur Sigurður Ingvi flutt klarínettukvintett Carls von Weber (1974), Max Reger (1977), Brahms (1977) og Hindemiths (1994), svo og klarínettutríó Beethovens op. 11 (1977) auk þess sem hann var einn flytjenda blásarastykkja eftir Beethoven, Ibert, Nielsen, Rossini og Villa-Lobos á tónleikum í apríl 1979.