
Um efnisskrána:
Mozart (1756-91) samdi klarinettukvintettinn K 581 í september 1789 um sama leyti og Jósef II keisari pantaði hjá honum nýja óperu, Cosi fan tutte, sem síðan var frumsýnd 26. janúar 1790 – svona fljótir voru menn að semja, æfa og setja upp óperur og önnur listræn stórvirki í gamla daga. Kvintettinn samdi hann fyrir vin sinn Anton Stadler, klarinettusnilling sem óbeint má þakka þrjú af frægustu klarinettuverkum tónbókmenntanna, Kegelstatt-tríóið K 498, kvintettinn K 581 og loks konsertinn K 622. Með þessum verkum og síðustu sinfóníum sínum kom Mozart klarinettunni á blað sem fullgildu sinfóníu- og kammertónlistarhljóðfæri, en áður hafði hann raunar kynnst hljóðfærinu vel í ýmsum skemmtiverkum (divertimenti) fyrir blásara sem og kvintettnum fyrir píanó og blásara K 452, sem hann taldi vera sitt besta kammerstykki til þess tíma. Klarinettukvintett Mozarts er meðal vinsælustu kammerverka hans, og er nú fluttur í sjöunda sinn fyrir félaga Kammermúsíkklúbbsins; fyrstur spilaði Egill Jónsson hann ásamt kvartett Tónlistarskólans í janúar 1958.
Beethoven (1770-1827) helgaði sköpunarmátt sinn þrjú síðustu æviárin að mestu sex strengjakvartettum (ef Grosse Fuge op. 133 er meðtalin), op. 127, 130, 131, 132 og 135. Þótt margir telji þessa kvartetta hans dýpstu og háleitustu tónlist, voru tildrög að samningu þeirra af veraldlegasta tagi: Nikulás Galitzin prins, verndari fagurra lista í St. Pétursborg og ákafur aðdáandi Beethovens, bað hann í bréfi í nóvember 1822 að semja fyrir sig einn, tvo eða þrjá strengjakvartetta og ákveða sjálfur hæfilega greiðslu. Beethoven gekk að því og lofaði að skila fyrsta kvartettnum í síðasta lagi í mars 1823. Ekki gekk það þó eftir því vinna við Missa solemnis og Níundu sinfóníuna reyndist mun tímafrekari en hann hafði séð fyrir. Hann lauk við fyrsta kvartettinn, op. 127 í Es-dúr, á síðustu stundu fyrir frumflutning í mars 1825; op. 132 var frumfluttur í september sama ár en op. 130 í mars 1826. En ekki hafði Beethoven fyrr lokið við kvartettaþrennu Galitzins prins en hann tók til við að semja nýjan kvartett, rétt eins og ekkert fengi stöðvað þær flóðgáttir andríkis sem opnast höfðu. Hann lauk við cis-moll kvartettinn op. 131 sumarið 1826 en fresta varð frumflutningi sem ákveðinn hafði verið í september vegna þess hve erfiður væntanlegum flytjendum reyndist verkið, einkum síðasti kaflinn. En þá var Beethoven kominn vel á veg með F-dúr kvartettinn op. 135 sem hann lauk við í október. Síðasta tónverk hans, í nóvember 1826, var nýr og auðveldari lokakafli fyrir op. 131 í staðinn fyrir fúguna miklu sem gefin var út sérstaklega sem op. 133.
Es-dúr kvartett Beethovens op. 127 er nú fluttur í fjórða sinn fyrir félaga Kammermúsíkklúbbsins; fyrst flutti hann kvartett Tónlistarskólans 1960, síðan Sinnhoffer-kvartettinn (forveri Cuvilliés-kvartettsins) 1977, og loks Eþos-kvartettinn í janúar 2000.
SSt