Robert Schumann (1810-1856) samdi lítið annað en píanótónlist fyrsta áratug tónskáldaferils síns, enda var það hvort tveggja að hann var prýðilegur píanóleikari sjálfur og ofurástfanginn af einum fremsta ungpíanista sinnar tíðar, Clöru Wieck. Þessi píanóstykki Schumanns spruttu að því er virtist áreynslulaust af fingrum fram, full af hugmyndaauðgi og óvæntum vendingum fremur en djúpstæðum lærdómi. En upp úr 1840, eftir giftingu þeirra Clöru, fór honum að þykja þessi stíll ófullnægjandi og hann einsetti sér að setja markið hærra, fyrst með hljómsveitartónlist 1841 og síðan með kammertónlist 1842. Strengjakvartettar hans þrír op. 41 komu út vorið 1842 en píanókvintettinn op. 44 og píanókvartettinn op. 47 undir lok sama árs. Phantasiestűcke fyrir fiðlu, selló og píanó op. 88 samdi hann næsta ár ásamt ýmsum öðrum kammerverkum – hátt opusnúmer (88) stafar af því að Schumann endurskoðaði verkið 1850 – en þrjú seinni píanótríóin samdi hann á árunum 1847-51.
Schumann réðst til atlögu við strengjakvartettana þrjá eftir að hafa sökkt sér niður í kvartetta Haydns, Mozarts og Beethovens. Hinn síðasti þeirra, op. 41,3 í A-dúr, sem fluttur er á tónleikunum, þykir þeirra langfremstur því í hinum fyrri tveimur bera tilraunir í kontrapunkti og öðrum lærdómsæfingum andann ofurliðí, en í hinum síðasta nær fyrra andríki Schumanns sér á strik. Þetta ár var samt örlagaríkt því þunglyndisköst tóku að þjaka skáldið, enda fannst honum að í rauninni hefði Beethoven sagt síðasta orðið í kvartettasmíð – og sennilega flestri annarri tónsmíð.
Eftir kvartettana þrjá sá Schumann ástæðu til að taka aftur til við píanóverk og samdi píanókvintettinn op. 44, fyrsta verk sinnar tegundar í veröldinni, og þykir það dæmalaust vel heppnað. Aldrei fyrr né síðar reis hann jafnhátt í kontrapunkti sem hér, segir einn fræðimaður. Í kjölfarið fylgdi svo píanókvartettinn op. 47 þar sem tónskáldið freistar þess að seilast enn dýpra í hugsun og hærra í innblæstri en í kvintettnum. Afleiðingin er sú að enda þótt kvartettinn sé hið prýðilegasta kammerverk tapast léttleiki á köflum miðað við kvintettinn og tónsetning verður stundum í þykkara lagi, ekki síst vill píanóið vera allt í öllu.
Schumann hélt áfram smíði kammerverka fram á árið 1843 þegar hann lauk við Andante og tilbrigði fyrir tvö píanó, tvö selló og horn op. 46 og píanótríóið Phantasiestücke sem flutt er á tónleikunum. Þar kveður aftur við æskutóninn – stuttir og litbrigðaríkir kaflar með fyrirsögnum Romaze, Humoreske, Duett og Finale minna á smástykki hans fyrir píanó. Enda er píanóið mjög í fyrirrúmi nema helst í Duett-kaflanum.
Þessir tónleikar eru helgaðir Robert Schumann meðal annars í tilefni af því að um þessar mundir eru 150 ár liðin frá andláti hans.
SSt