Um efnisskrána

Beethoven var þrítugur 1801 þegar hann gaf út fyrstu sinfóníu sína og fyrstu sex strengjakvartetta op. 18, tileinkaða Jósef von Lobkowitz prinsi. Áhrif Haydns og Mozarts, hans miklu fyrirrennara,  þykja ekki leyna sér, en þó er margt með öðrum brag og vísar í átt til þess sem síðar átti að verða. Til dæmis byggist fyrsti kafli op. 18 nr. 1 að mestu á stefbroti, rúmlega eins takts löngu, ólíkt syngjandi stefjum fyrirrennaranna. Og hver einasti hinna 16 kvartetta Beethovens þykir opna nýjar gáttir, nýja tónlistarlega hugsun.

Fyrstir fluttu op. 18,1 hjá Kammermúsíkklúbbnum félagar Kvartetts Tónlistarskólans í Reykjavík, Björn Ólafsson, Jón Sen, Ingvar Jónasson og Einar Vigfússon, í september 1970. Björn og félagar voru tíðir gestir hjá klúbbnum fyrstu áratugina og fluttu m.a. marga af kvartettum Beethovens, fyrst op. 18,2 haustið 1957. Og svo er Birni og fleirum frumkvöðlum að þakka að nú fara íslenskir spilarar „létt með“ kvartetta Beethovens, Shostakovich og Bartóks, svo dæmi séu nefnd.

.

Finnur Karlsson skrifar: „Ground er strengjakvartett í fjórum köflum. Verkið var skrifað árið 2021 fyrir Strokkvartettinn Sigga með stuðningi frá Tónskáldasjóði STEFs og RÚV. Verkið er bundið saman með litlu stefi sem birtist misgreinilega í köflunum. Þriðji kafli verksins, #32, take two, byggir á kafla úr einsöngsverkinu “Fjögur lög með millispilum” sem ég skrifaði árið 2018 fyrir söngkonuna Þórgunni Önnu Örnólfsdóttur við ljóð númer 32 úr ‘Heimkynnum við sjó’ eftir Hannes Pétursson.“

Finnur hefur samið tónverk fyrir hljómsveitir, söngkóra, einleikara, leikhús og kammerhópa sem víða hafa verið flutt, í mars 2021 lék Strokkvartettinn Siggi kvartettinn Hrafnaþing í Kammermúsíkklúbbnum.

Robert Schumann samdi píanókvintett sinn á fáeinum vikum haustið 1842, enn í sæluvímu eftir brúðkaup þeirra Clöru Wick tveimur árum fyrr. Árið 1842 hefur verið nefnt kammermúsík-ár Schumanns—auk kvintettsins op. 44 urðu til þrír strengjakvartettar (op. 41), píanókvartett op. 47 og píanótríóið Phantasiestücke op. 88. Kvintettinn tileinkaði hann Clöru, sem var víðfrægur píanóleikari og ætlaði að spila píanóhlutann þegar kvintettinn heyrðist í fyrsta sinn á einkatónleikum í húsi kunningja þeirra hjóna 6. desember 1842.  En Clara varð lasin svo Felix Mendelssohn hljóp í skarðið og spilaði „djöfullegan píanópartinn“ í staðinn beint af blaðinu. Kvintettinn mun vera í hópi vinsælustu kammerverka almennt og hljómar nú í 6. sinn í Klúbbnum.

S.St.