UM EFNISSKRÁNA

Francis Poulenc (1899–1963) var yngstur tónskáldanna sex – „Les Six“ – sem áttu það helst sameiginlegt á þriðja áratug 20. aldar (auk þess að vera franskir og ungir) að vera á móti þunglamalegri þýskri rómantík Wagners og Strauss en einnig ýmsu í tónlist Claudes Debussy. Meðal jákvæðra áhrifavalda hópsins voru hins vegar Eric Satie og skáldið Jean Cocteau; Poulenc átti síðar eftir að semja sönglög við mörg ljóða hans.

Poulenc byrjaði snemma að læra á píanó hjá móður sinni – Mozart, Schubert, Chopin – en spilaði einnig vinsælt léttmeti sem hann seinna nefndi „dásamlega vonda músík“. Þegar hann var 12 ára kynnti léttlyndur móðurbróðir hans honum Petrushku og Vorblót Stravinskys sem samin voru fyrir ballettflokk Sergeis Diaghilev „Ballets Russes,“ og þaðan í frá átti Stravinsky aðdáun hans ómælda.

Frá 1914 til ’17 var Poulenc píanónemandi Ricardos Viñes sem auk þess að kenna honum samtímamúsík, Debussy, Stravinsky og Satie, kynnti hann fyrir helstu lista- og menningarljósum Parísar. Enda átti meira fyrir Poulenc að liggja en að verða kunnur píanóleikari og tónskáld heldur ekki síður frægt og orðheppið samkvæmisljón.

Sem tónsmiður var Poulenc að mestu sjálfmenntaður; fyrir tilstilli Stravinskys voru fyrstu verk hans gefin út í London árið 1918, m.a. lög við ljóð Cocteaus og sónata fyrir tvær klarinettur, en 1924 sló hann í gegn með ballettnum Les biches sem Diaghilev pantaði fyrir Ballets Russes og frumsýndur var í Monte Carlo árið eftir við miklar undirtektir.

Poulenc átti eftir að semja tónlist af flestum gerðum, píanótónlist, kammertónlist, sönglög, trúarlega tónlist og  óperur. Kímni, glens og góðlátleg kaldhæðni einkennir mörg verka hans, en í höfundarverki hans má einnig finna mikla dýpt, trúarlegan innileika og drama.

Poulenc hafði sérstakt dálæti á tréblásturshljóðfærum og hugðist semja sónötu fyrir sérhvert þeirra en entist ekki ævin fyrir fleiri en fjögur – fagott vantar.

Flautusónatan, frumflutt 1957 af Jean-Pierre Rampal, hefur orðið eitt þekktasta verk Poulencs og oftast verið flutt allra verka fyrir flautu og píanó.

Élegie fyrir horn og píanó (1957) var samin til minningar um enska hornsnillinginn Dennis Brain.

Sónata fyrir klarinettu og fagott (1922) var samið á fyrsta (fram til 1930) af þremur skeiðum tónskáldsins. Sama á við um Tríó fyrir óbó, fagott og píanó (1926) sem hann lauk við á hóteli í Cannes þar sem Stravinský var fyrir tilviljun og „gaf honum nokkra góða punkta“. Tríóið telst vera fyrsta meiri háttar kammerverk Poulencs.

Sónata fyrir klarinettu og píanó (1962) er meðal síðustu verka tónskáldsins, tileinkað minningu Arthurs Honegger.

Sjö ár tók að semja sextettinn, 1932-39, en í honum bætir tónskáldið píanói við blásarakvintett að hætti 19. aldar. Verkið sýnir vel mikla laggáfu höfundar: hann heldur sig við hefðbundnar tóntegundir en notar þær af mikilli hugkvæmni með óvæntum stökkum frá einni tóntegund til annarrar.

Flautusónatan hefur áður hljómað tvisvar sinnum í Kammermúsíkklúbbnum en sextettinn 5 sinnum.

S.St.