Um efnisskrána:

 

Benjamin Britten er talinn eitt af megintónskáldum 20. aldar. Hann var undrabarn, samdi fjölda tónsmíða allt frá barnsaldri. Var nánast óstöðvandi að eigin sögn. Seinna meir notaði han nokkuð af þessum bernskubrekum sínum í „alvöru“ tónsmíðar, meðal annars í Simple Symphony op.1. Three Divertimenti for String Quartet bera skapara sínum fagurt merki. Snilldarhandbragð í meðferð strengjahljóðfæranna dylst engum, hér er sannarlega tekist á, það bókstaflega rýkur úr hljóðfærunum, en glettnin er sjaldnast langt undan. Þetta er jú „divertímentó“.

Bandaríkjamanninn Samuel Barber má kannski kalla síðasta rómantíkerinn. Þótt hann hafi staðið nokkuð traustum fótum í rómantíkinni var tónlist hans gjarnan krydduð áhrifum frá t.d. nýklassíkinni. Þekktasta verk Barbers er án efa hið ægifagra Adagio for Strings. Það eru hins vegar ekki allir sem vita að verkið er upphaflega ættað úr Strengjakvartettinum op. 11. Honum fá tónleikagestir að kynnast í dag og er það sannarlega góð viðkynning. Því má bæta við að Barber útsetti Molto adagio-kaflann einnig fyrir a capella kór og gaf út undir nafninu Agnus dei (1967).

Tónverkin sem Camerarctica flytja okkur í dag eru samin á árunum rétt fyrir seinni heimsstyrjöld. Nema verk Johns Speight, Kviksjá II - A Sad Song and a Rondo, sem er glænýtt, samið á síðasta ári fyrir Camerarctica og frumflutt af þeim á tónleikum dagsins. Líkt og hin tónskáld dagsins kemur tónskáldið, kennarinn og söngvarinn John Speight frá enskumælandi landi, en varð íslenskur ríkisborgari árið 1980. Einn fjölmargra góðra happdrættisvinninga sem íslenskt tónlistarlíf hlaut á síðustu öld. Inntur eftir upplýsingum um verk sitt svaraði John því einu „… að það mætti koma fram í efnisskránni, að það hefði verið mjög ánægjulegt að skrifa verkið fyrir Camerarctica. Hann sagðist ekki vanur að hafa mörg orð um tónlistina sína, tónlistin sjálf er hans tjáningarform“

Tónleikunum lýkur á tveimur verkum tónskálda sem sannarlega má telja erkibandarísk, þótt ólík séu. Ólíkindatólið Charles Ives, tryggingasölumaður og tónskáld, er algerlega sér á parti. Alinn upp í bandarísku dreifbýli þar sem ættjarðarlög, lúðrasveitatónlist og sálmasöngur voru eina tónlistin. Engum líkur í sínu gersamlega óhefta hugmyndaflugi og taumlausu tjáningu á lífi, athöfnum og hátíðarhöldum amerískrar alþýðu. Það má teljast með ólíkindum hversu langt honum oft tókst að ganga í glundroðanum í mörgum verkum án þess að missa tökin. Largóið S.73 sýnir hins vegar Ives í sínu blíðasta og tærasta essi, í senn íhugult og fallegt. En getur þó ekki alveg stillt sig.

Aaron Copland er á hinn bóginn oft amerískur á pólitískan og þjóðernislegan hátt. Það heyrist í ýmsum stórum verkum hans eins og Sinfóníu nr. 3, A Lincoln Portrait,  Fanfare for the Common Man, Billy the Kid og Rodeo. Sextettinn fyrir klarínettu, píanó og strengjakvartett er að vissu leyti skyldur ballettunum tveimur, Billy the Kid og Rodeo, þar sem sögusviðið er villta vestrið. Hann er talinn mjög krefjandi fyrir flytjendur, sem þurfa að takast á við ýmsar áskoranir varðandi ryþma, áhersluflutning (sýnkópur) og aðrar tæknilegar hindranir

 

Valdemar Pálsson