Um efnisskrána

 

François Couperin (1668–1733) var franskt tónskáld, orgel- og semballeikari, af ætt kunnra tónlistarmanna. François þótti þeirra fremstur (líkt og JSB í Bach-fjölskyldunni) og nefndist stundum til aðgreiningar Couperin le Grand (hinn mikli). Enda lék lífið við hann: Átján ára gerðist hann organisti í kirkju Saint-Gervais í París, eftirmaður föður síns og föðurbróður, 21 árs kvæntist hann efnaðri stúlku og 3 árum síðar (1693) hlaut hann, auk starfa síns við kirkju Saint-Gervais, stöðu orgelleikara við hirð Loðvíks XIV, sólkonungsins. Í þeim háa sessi kynntist hann helstu tónskáldum þessa tíma auk áhrifamanna þjóðfélagsins; jafnframt urðu þá til elstu kammertónverk hans. Árið 1713 birtist fyrsta hefti hans af fjórum með verkum hans fyrir sembal, Pieces de clavecin, hið fjórða og síðasta kom út 1730, alls með 230 verkum fyrir sembal. Árið 1716 kom svo út frægasta bók hans, kennslubók um semballeik, og að auki hefti með safni af kammerverkum. Ári síðar var hann svo skipaður tónlistarstjóri hjá hirðinni, mesta virðingarstaða sem hugsast gat – en að vísu fullseint því sólkonungurinn hafði dáið 1715. Enda tók nú að halla undan fæti og heilsa Couperins fór hrakandi. Síðustu útgáfur hans voru Pièces de violes (tónsmíðar fyrir bassavíólu / 1728) og fjórða hefti sembalverkanna (1730).  Couperin skrifaðist m.a. við J.S. Bach (f. 1685) sem notaði einhver verk hans í sín, en í sérstakri þakkarskuld taldi Couperin sig standa við tónskáldin Jean-Baptiste Lully (f. 1632) og Arcangelo Corelli (f. 1653) og reisti báðum bautastein í tónum. Meðal seinni tíma aðdáenda semballeikarans og tónskáldsins Couperins má nefna Jóhannes Brahms. Í „stykkjunum“ (pièces) fimm lýsir tónskáldið hugblæ sínum með vali á tóntegund og djörfum ómblíðum og ómstríðum samhljómum.

 Beethoven var rúmlega þrítugur þegar hann samdi þessi sjö hrífandi tilbrigði við dúett Papagenu og Pagenos um ástina sem allar raunir sigri. Kannski, segja sumir, þráði Beethoven eins og Papageo að kynnast stúlku. En auðvitað var það tónlist Mozarts en ekki texti Schikaneders sem hreif Beethoven, enda sleppir hann af músíkölskum ástæðum hjartnæmustu augnablikum aríunnar, „Mann und Weib.“ Tilbrigðin sjö vekja blandaðar tilfinningar, þunglyndis, staðfestu, eftirsjár. Fróðir menn segja að síðasta tilbrigðið minni að einhverju leyti á sellósónötuna í F-dúr op. 5 sem hann samdi fáum árum fyrr.

Sellósónata Chopins op. 65 er í fjórum köflum – largo hinn þriðji – samin 1846 og síðasta verk hans sem gefið var út meðan hann lifði. Af alls 76 ópusum er hún ein af aðeins 9 sem þessi ástmögur slaghörpunnar samdi fyrir annað hljóðfæri, og af fjórum sónötum hans hin eina.

Vókalísa Rakhmaninovs var öftust í safni 14 söngva op. 34 sem út kom 1915. Þessi „söngur án orða“ var saminn fyrir háa söngrödd (sópran eða tenór) með píanói, og tileinkaður söngkonunni Antoníu Nezhdanovu.  Núorðið er lagið mun oftar flutt í hljóðfæraútsetningu, einkum fyrir klarinettu eða selló, en í hinni upprunalegu gerð. Meðal fyrstu tónskálda sem sömdu „söngva án orða“ voru Lully (f. 1632) og Rameau (f. 1683). Dæmi um íslenska vókalísu er „Sveitin milli sanda“ eftir Magnús Blöndal Jóhannsson sem Ellý Vilhjálms söng eftirminnilega.

 Schumann samdi Fantasiestücke fyrir klarinettu og píanó op. 73 á tveimur dögum í febrúar 1849. Þótt upphaflega væri verkið hugsað fyrir klarinettu og píanó gaf Schumann til kynna að allteins gæti fiðla eða selló komið í stað blásturshljóðfærisins. Orðið Fantasie (fantasía) merkir skv. orðabók „tónsmíð þar sem engu tilteknu formi er fylgt en hugmyndaflugið ræður ferðinni“ og átti vel við Schumann sem hafði rómantískt gaman af ævintýrum og trúði á óheft hugarflug listamannsins.

 

                                                                                                S.St.