Um efnisskrána:
Níunda fiðlusónata Beethovens, Kreutzer-sónatan, er tröllaukið verk. Fjörutíu innihalds-þrungnar mínútur í þremur köflum. Hún skipar sér í flokk margra tímamótaverka tónskáldsins, svo sem síðustu kvartettanna, Hammerklavier-sónötunnar og Eroicu-sinfóníunnar. Á klassíska tímanum og reyndar langt fram í rómantíkina var það, sem við í dag köllum fiðlusónötu, nefnt sónata fyrir píanó (eða sembal) og fiðlu. Píanóið var því í aðalhlutverki en fiðla skyldi leika „undir“. Í tilviki Beethovens er hlutföllum og hlutverkum hliðrað til, og það ekki í eina skiptið sem hann fór út fyrir rammann eins og alkunna er. „Sonata per il pianoforte ed un violino obbligato scritta in uno stilo molto concertante quasi come d’un concerto“ stendur á titilblaðinu. Píanóið er að vísu nefnt fyrst og fiðlan „obbligato“ (fylgirödd) en hljóðfærin tvö skulu leika saman allt að því eins og um konsert væri að ræða („concerto“ er leitt af sögninni „concertare“ = að keppa saman jafnfætis).
Árið 1832 gaf Simrock-forlagið út áður óþekktan strengjakvintett eftir Beethoven, Verkið reyndist umritun á Kreutzer-sónötunni fyrir strengjakvintett. Útsetjarans var hvergi getið, en ýmsar getgátur hafa verið uppi um nafn hans. Menn hafa giskað á hinn unga Mendelssohn, Hummel, Ferdinand Ries eða jafnvel að um ómerkt skúffuverk tónskáldsins sjálfs sé að ræða. Beethoven var enda margt betur lagið en að hafa skipulag á hlutunum. Enn þann dag í dag er nafn útsetjarans á huldu. En um eitt virðast menn almennt sammála: Að útsetningin sé hrein snilld, að andi sónötunnar komist algerlega til skila og að mjög gott jafnræði sé milli raddanna eins og í upprunalega verkinu. Kreutzer-sónatan er þekkt fyrir að vera óvenju dramatískt verk, mikið að vöxtum og ástríðuþrungið. Haft er eftir fiðluleikara nokkrum sem skjögraði uppgefinn út af sviðinu eftir að hafa leikið sónötuna með félaga sínum, að honum fyndist aðalkostir verksins vera ofgnóttin: sónatan sé „of löng, of hröð, of ágeng, of mikið píanó, of mikil fiðla“. Hvað má þá segja um útsetninguna fyrir strengjakvintett, sem hér er flutt í dag? Of miklir strengir kannski? Ætli það. Strengir verða aldrei „of“ neitt. Finnst undirrituðum a.m.k.
Strengjasextett Brahms op. 18 varð til þess að ýta úr vör tónlistarformi, sem var kannski ekki alveg nýtt, en hafði ekki fyrr náð neinni fótfestu sem talist getur. Luigi Boccherini hafði samið sex strengjasextetta árið 1776 og Louis Spohr einn árið 1848, ellefu árum áður en Brahms. Þótt ekki sé á neinn hátt kastað rýrð á þessi tvö ágætu fyrrnefndu tónskáld, þá marka þau ekki djúp spor í tónlistarsögunni. En það gerir Brahms ótvírætt. Og í kjölfarið fylgdu ýmsir þungaviktarmenn í tónlistinni, Dvořák, Tchaikovsky, Richard Strauss, Borodin, Schönberg og Martinů, svo fáir einir séu nefndir. Öllum þeim fannst strengjasextettinn heillandi (eins konar „ofurkvartett“!) og nægir að nefna sem dæmi Verklärte Nacht eftir Schönberg, þar sem tónskáldið bókstaflega baðar sig í þéttum samhljómi strengjanna og nýtur þess greinilega. Það gerir Brahms líka. Fá tónskáld megna að leyfa öllum röddum að blómstra og saman að mynda þá silkimjúku áferð, sem svo oft er á tónlist hans. Brahms gengur þó ekki nálægt því eins langt í þessu æskuverki sínu og Schönberg, enda enn með báða fætur stöðuga í klassískum jarðvegi. Hinn ungi Brahms var frekar gagnrýninn á eigin verk en reynslan af vinnunni við fyrsta strengjasextettinn virðist hafa aukið honum kjark, því hann endurtók leikinn fimm árum seinna og samdi strengjasextett nr. 2 op. 36.
Þá höfðu orðið til báðar fyrirmyndirnar að verkum tónskáldanna sem nefnd voru hér að ofan.
Valdemar Pálsson