Um efnisskrána

Francis Poulenc (1899–1963), franskt tónskáld og píanóleikari, einn í hópi sex ungra tónskálda (les six) árla á 20. öld. Framan af ferli Poulencs þótti tónlist hans einkennast að léttúð og gamansemi en upp úr 1930 tók hann að semja veigameiri og alvarlegri verk inn á milli. Boðið í kastalanum vísar til satírísks leikrits (1947) „L’invitation au château“ eftir franska leikskáldið Jean Anouilh.

Gian Carlo Menotti (1911–2007), Bandaríkjamaður fæddur á Ítalíu, tónskáld, hljómsveitarstjóri og leikritahöfundur. Þekktastur er hann fyrir 25 óperur sínar – þá fyrstu samdi hann 14 ára – og líkt og Wagner var hann jafnan sjálfur höfundur bæði tónlistar og texta. Auk ópera samdi hann nokkra balletta, verk fyrir hljómsveitir og söngkóra, sem og nokkur prýðileg kammerverk, ekki síst þetta tríó fyrir fiðlu, klarinettu og píanó sem samið var 1996 fyrir Verdehr-tríóið [1].

Contrasts (1938) samdi Béla Bartók að ósk klarinettuleikarans Bennys Goodman fyrir milligöngu fiðlarans Joseph Szigeti. Eins og kunnugt er var Bartók séra Bjarni Þorsteinsson Ungverja, enda er tríóið byggt á ungverskum og rúmenskum danslögum. Það hefur tvisvar áður hljómað í Kammermúsíkklúbbnum.

Alexander Arutiunian (1920–2012) var sovét-armenskt tónskáld og píanóleikari, vel virtur í Armeníu (m.a. heiðursborgari Jerevan) jafnt sem í Sovétríkjunum, hlaut t.d. Stalín-verðlaunin 1949 fyrir kantötuna „Föðurlandið“ — Wikipedia telur 14 verðlaun og viðurkenningar sem hann hlaut, þar af tvenn í Bandaríkjunum. Í verkum hans gætir víða áhrifa armenskrar alþýðutónlistar. Verkið samdi hann fyrir Verdehr-tríóið 1992.

Leiftur II, ómbrot úr leikhúsinu. Hjálmar H. Ragnarsson skrifar: Verkið er að stofni til endurvinnsla á tónlist sem ég samdi við uppfærslu Þjóðleikhússins veturinn 1996 á leikgerð eftir skáldsögu Ólafs Gunnarssonar, Tröllakirkju. Það er í sjö þáttum, þeir númer 1, 2 og 4 að mestu óbreyttir frá uppfærslunni, fyrir utan breytta hljóðfæraskipan, en hinir þættirnir eru ýmist útfærslur af upphaflegu tónlistinni eða frumsmíði frá rótum. Einkennisstefið í 5. þætti, „Boðið upp í dans,“ heyrist í upphafi kvikmyndarinnar „Tár úr steini,“ en að öðru leyti er tónlist þáttarins frumsamin fyrir þetta samhengi. Verkið er tileinkað Önnu Áslaugu systur minni og félögum hennar, þeim Laufeyju og Einari, í Tríói Sírajóns [2].

1.     Forleikur / Energico

2.    Humoresque / Semplice, leggiero

3.     Draumur I / Liberamente, espressivo

4.     Grandioso

5.     Boðið upp í dans / Volante

6.     Draumur II / Liberamente, sognando

7.     Finale / Con spirito, accentato

                                                                                                                      Sig. St.

                                                                                            

  1. Verdehr tríóið var stofnað við ríkisháskóla Michigan-ríkis í Bandaríkjunum árið 1972 af hjónunum Walter (fiðla) og Elsu (klarinetta) Verdehr, ásamt píanóleikaranum Gary Kirkpatrick; síðar tók Silvia Roederer við af honum. Á þeim tíma voru aðeins átta tríó fyrir fiðlu, klarinettu og píanó til eftir 20.-aldar tónskáld (og af þeim hafa sex eftir feitletruð tónskáld hljómað í Klúbbnum, og nú bætist Poulenc við) – Bartók, Stravinský, Milhaud, Katsjatúrían, Alban Berg, Krenek, Poulenc og Charles Ives – og Verdehr-tríóið setti sér það markmið að auðga þetta „repertoire“ með því að panta tríó frá samtíma-tónskáldum. Þegar þau loks drógu saman seglin 43 árum síðar (2015) höfðu yfir 200 tríó bæst við þau 8 sem fyrir voru, auk þess sem þau umrituðu mörg 18du- og 19du-aldar tríó fyrir hljóðfæraskipan sína. Á tónleikum Tríós Sírajóns í dag eru tvö verkanna úr þessu safni Verdehr-tríósins.
  2. Tríó Sírajón (stofnað 2010) er skipað þremur afkomendum síra Jóns Þorsteinssonar (1781–1862) í Reykjahlíð, Mývatnssveit. Síra Jón telst vera ættfaðir hinnar fjölmennu Reykjahlíðarættar, en hann eignaðist 14 börn, þar af 13 með eiginkonu sinni Þuríði Hallgrímsdóttur (1789-1867).