Um verk og flytjendur

Af þremur strengjatrióum sem vitað er til að Schubert hafi byrjað að semja – öll í B-dúr –  lauk hann aðeins við eitt, D 581 (1817); það var flutt í Klúbbnum í apríl 1993. Aðeins fáeinir taktar eru til af hinu fyrsta (D 111A, 1814), en af strengjatríói D 471, sem nú er flutt í fyrsta sinn í Klúbbnum, er það að frétta að Schubert byrjaði að semja það í september 1816 en lauk aðeins við fyrsta kaflann, Allegro, og fáeina takta af Andante sostenuto – þeir eru stundum spilaðir með, en ekki nú. Þessi „litli gimsteinn“ þykir sumum vera meðal hjartnæmustu verka sem samin hafa verið fyrir strokhljóðfæri. 


Edvard Munch: Lebensfries

Lebensfries op. 56. String Trio (Homage to Lars Hertervig)

Strengjatríóið Ssens (framborið „essens“ = innsta eðli, kjarni) var stofnað 2014 og í febrúar 2020 frumflutti það í Osló nýtt tríó sem Hafliði Hallgrímsson hafði samið 2018 að þeirra ósk, 12 stutta kafla sem saman mynda sveig. Eftir þann flutning tók efnið að þróast með tónskáldinu uns úr varð nýtt 45 mínútna tríó, byggt á hinu fyrra en þó óháð því, og nú er frumflutt á Íslandi. Tríóið nefnir Hafliði Lebensfries (lífsstrigi) eftir málverki Edvards Munch, og tileinkar það Ssens-tríóinu, en jafnframt tekur tónskáldið ofan fyrir öðrum norskum málara, Lars Hertervig (1838–1902) sem hann kynntist og heillaðist af á listasafni í Stavanger. „Lebensfries“ segir Hafliði mega líta á sem eins konar sjálfsævisögu sína sem sellóleikara og tónskáld, það sýni vel tilfinningar sínar til strokhljóðfæranna og skilning á þeim, sem þróast hafi í tímans rás. Hvarvetna í „Lebensfries“ sé vísað óbeint til fyrri stefja í tónsveignum sem hlustendur heyri aftur ummynduð en skynji jafnframt þráð sem tengi kaflana tólf. Tríóið segir Hafliði gefa hljóðfæraleikurunum þremur tækifæri til að sýna og njóta sjálfir ávaxta þrotlausra æfinga og reynslu áranna auk þess sem hljóðfærin sjálf fái að sína sýnar bestu hliðar.

 

Beethoven samdi Kvöldlokkuna (serenade) op. 8 árin 1795-97, skömmu á undan fyrsta kvartettnum op.18. Fiðluröddin a.m.k. er talin tæknilega krefjandi miðað við þennan tíma, enda hafi Beethoven haft í huga fiðlusnillinginn Schuppanzigh sem hann kynntist um þessar mundir. Fyrsta CD-hljómskífa Ssens-tríósins (2017), með tríóum Beethovens op. 3 og 8 (Serenöðu), hlaut verðlaun og góðar viðtökur.

S.St.